Fimmtudagur 27. maí 2004

148. tbl. 8. árg.

Þrjú umhugsunarefni í tilefni hinnar afkáralegu umræðu um það hvort Ólafur Ragnar Grímsson neiti að staðfesta nýlega breytingu á samkeppnislögum og útvarpslögum.

* Segir það nú ekki talsverða sögu, hvernig menn brugðust við þegar forsætisráðherra benti á, að vegna tengsla sinna við forsvarsmenn Norðurljósa, þess fyrirtækis sem mest hefur beitt sér gegn umræddri lagabreytingu og segir hana koma verst við sig af öllum, væri forsetinn sennilega vanhæfur til að taka sjálfur þá ákvörðun að synja lögunum staðfestingar? Hvernig brugðust menn við? Höfnuðu menn því að skýrar vanhæfisástæður væru til staðar? Nei. Menn fóru þess í stað að segja forsetinn væri bara „aldrei vanhæfur“ eða þá að um hann giltu sömu vanhæfisreglur og um þingmenn. Enginn sagði hins vegar að ekki væru fyrir hendi þau tengsl sem myndu gera alla aðra embættismenn vanhæfa um leið. Ólafur Ragnar er með öðrum orðum svo tengdur ákveðnu fyrirtæki að hann gæti ekki sem embættismaður gefið út byggingarleyfi fyrir bílskúr sem fyrirtækið myndi vilja byggja, en svo telja menn ekkert að því að hann – fyrstur allra forseta – gangi gegn alþingi í máli sem þetta sama fyrirtæki hefur hamast gegn af öllum krafti. Það hlýtur nú ýmsum að koma í hug, að jafnvel þó svo væri að formlega séð væri ekki hægt að hindra Ólaf Ragnar í að koma að slíkri ákvörðun, þá yrði þeirri framgöngu hans best lýst með þriggja orða frasa sem Vilmundur Gylfason notaði oft og hófst á orðunum löglegt en. – Og þeir sem segja að forsetinn verði bara aldrei vanhæfur, hvað myndu þeir segja ef til dæmis sú indæla kona, Dorrit Moussaieff væri einkaeigandi fyrirtækisins? Eða forsetinn sjálfur? Væru þeir enn tilbúnir að halda því fram að Ólafur Ragnar gæti blandað embætti sínu í málið? – Og vel að merkja, það að tengsl við eitt fyrirtæki geti valdið vanhæfi sem þessu, segir ekkert um það hvort lögin séu sértæk eða almenn. Þetta fyrirtæki hefur einfaldlega beitt sér alefli gegn lögunum og talið þau sér mjög í óhag. Fyrirtæki, sem tengist Ólafi Ragnari Grímssyni náið, telur sig verða fyrir verulegu tjóni af tilteknum lögum og þá skyndilega er hann farinn að hugleiða láta forsetaembættið sem honum hefur verið falið um stund, ganga gegn þjóðþinginu!

* Segjum nú, umræðunnar vegna, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hin nýsamþykktu lög. Hverjum dettur nú í hug að sú atkvæðagreiðsla myndi snúast um lögin? Fréttamenn búnir að vera uppfullir af hugleiðingum um áhrif mögulegra úrslita á stöðu forsetans og alþingis og svo framvegis. Segði forsetinn af sér ef lögin yrðu samþykkt? Yrði þing rofið ef lögin yrðu felld? Myndi ríkisstjórnin segja af sér? Hverjum dettur eiginlega í hug að menn myndu almennt greiða atkvæði eftir afstöðu sinni til laganna? Vinstrisinnaður stuðningsmaður laga eins og þessara, sem hins vegar vill ólmur koma höggi á ríkisstjórnina, hvað kýs hann? Hægrimaður, sem teldi á hinn bóginn að ekki hefði þurft að ráðast í þessa lagasetningu og hefði fremur kosið óbreytt ástand – vill hann taka áhættuna af því að ríkisstjórnin segi kannski af sér og önnur verri komi í staðinn? Vill hann fella ríkisstjórnina, koma vinstristjórn til valda og missa af skattalækkunum sem vonandi verða kynntar á næstu dögum? Maður sem styður lögin en er með þjóðaratkvæðagreiðslur á heilanum og vill hafa þær um öll mál, hvað kýs hann? Er ekki meira í húfi fyrir hann að lögin verði felld ef það gæti hvatt menn til að synja lögum aftur og aftur? En maður sem vill byggja á fulltrúalýðræði þó hann sé ekki sáttur við akkúrat þessi lög sem fulltrúarnir hafa sett, hvað kýs hann? Það er hætt við að hægt yrði að atast í fleirum en ungu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og þingmönnum stjórnarandstöðunnar fyrir að „fylgja ekki sannfæringu sinni“ í málinu. – Sjá ekki flestir að þjóðaratkvæðagreiðsla myndi ekkert segja um afstöðu landsmanna til laganna enda snerist hún um næstum allt annað en hana?

* Eins og allir vita eru hin nýsamþykktu lög umdeild og stór hluti landsmanna var vafalaust andvígur setningu þeirra. Hvaða ástæður ætli hafi verið að baki hjá þeim hópi? Auðvitað er ekki hægt að alhæfa um slíkt, fólk hefur haft mismunandi ástæður auk þess sem margir hafa einfaldlega lýst skoðun sinni án þess að hafa kynnt sér málið að nokkru öðru leyti en því, að heyra margendurtekið í útbreiddum fjölmiðlum að til væri óhugnanlegt „fjölmiðlafrumvarp“ sem „allir“ væru á móti. En gott og vel, af þeim sem hafa myndað sér raunverulega skoðun á málinu, þá hlýtur að mega gera ráð fyrir, í ljósi umræðunnar undanfarið, að sú staðreynd að því var mjög haldið fram að tiltekin atriði frumvarpsins brytu í bága við það atvinnufrelsi og tjáningarfrelsi sem varið væri í stjórnarskrá, hafi ráðið miklu um andstöðu mjög margra þeirra. Nú hefur fyrrgreint fyrirtæki tilkynnt að það muni leita úrskurðar dómstóla um þau atriði og segir forstjóri þess, að hann búist við að málið verði tekið fyrir strax nú í sumar. Sá fjöldi sem hefur áhyggjur – með réttu eða röngu – af því að lögin eða einstök ákvæði þeirra gangi gegn stjórnarskrá, og var þess vegna andvígur því að þau yrðu sett, hann ætti því að geta andað léttar. Er ekki líklegt, að skoðun mjög margra úr þessum hópi myndi breytast ef dómstólar kvæðu upp úr um það að lögin stæðust stjórnarskrá?  Þjóðaratkvæðagreiðsla segir ekkert um gildi laga gagnvart stjórnarskrá. Ágreiningi um stjórnarskrá ber að vísa til dómstóla en ekki í almenna atkvæðagreiðslu.