Miðvikudagur 26. maí 2004

147. tbl. 8. árg.

F

réttastofa Stöðvar 2 pantaði á dögunum skýrslu sem skyldi hreinsa hana af ásökunum þess efnis að fréttaflutningurinn væri bjagaður og andsnúinn fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Skýrsluhöfundur, sem starfar hjá Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, skilaði verkinu eins og til var ætlast og sagði: „Niðurstaða þessarar rannsóknar á umfjöllun sjónvarpsstöðvanna tveggja, Ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2, um fjölmiðlafrumvarpið svokallaða eins og hún birtist í fréttatímum þeirra er alveg skýr hvað það varðar að enginn teljandi munur virðist vera á efnistökum eða afstöðu með eða á móti frumvarpinu.“ En þegar skýrslan er lesin, í stað þess að líta aðeins á niðurstöðukaflann, má sjá að þessi samantekt höfundar skýrslunnar er hæpin í meira lagi og gefur alls ekki rétta mynd af þeim gögnum sem skýrslan hefur að geyma um umfjöllun fréttastofanna tveggja.

Sem dæmi má nefna að í skýrslunni er sagt frá því hversu mikil umfjöllun fréttastofanna tveggja um fjölmiðlafrumvarpið hafi verið. Þar kemur fram að fréttastofa Stöðvar 2 fjallaði um frumvarpið 37 sinnum á tímabilinu sem rannsóknin náði til, 20. apríl til 7. maí, en fréttastofa Ríkissjónvarpsins aðeins 25 sinnum í aðalfréttatímanum og að auki 6 sinnum í seinni fréttatíma. Ef miðað er við þann fréttatíma sem langmest er horft á fjallaði Stöð 2 þess vegna nær 50% oftar um frumvarpið en Ríkissjónvarpið. Og jafnvel þótt seinni fréttatíma Ríkissjónvarpsins sé bætt við fjallaði Stöð 2 nær 20% oftar um frumvarpið. Þess má geta að dagarnir frá 20. apríl til 7. maí eru 18, að báðum meðtöldum. Stöð 2 sagði sem sagt tvær fréttir af málinu í hverjum fréttatíma, en í aðalfréttatíma Ríkissjónvarpsins voru að meðaltali 1,4 fréttir um málið og í seinni fréttatímanum var frétt um málið að meðaltali þriðja hvern dag.

Þegar litið er til lengdar umfjöllunarinnar í klukkustundum og mínútum er niðurstaðan ekki síður athyglisverð. Stöð 2 fjallaði samanlagt í 1 klukkustund og 33 mínútur um fjölmiðlafrumvarpið en samanlögð umfjöllun Ríkissjónvarpsins í báðum fréttatímum var heldur styttri, eða 1 klukkustund og 26 mínútur. Eins og skýrsluhöfundur bendir á er þetta ekki ýkja mikill munur, en það sem hann gerir lítið úr er að fréttatímar Ríkissjónvarpsins eru samanlagt um 80% lengri en fréttatímar Stöðvar 2 og að hlutfallslega er umfjöllun Stöðvar 2 um málið því miklu meiri en Ríkissjónvarpsins. Sem hlutfall af heildarlengd fréttatímans var umfjöllunin um fjölmiðlafrumvarpið því nær tvöfalt meiri á Stöð 2 en á Sjónvarpinu, eða tæplega 25% á móti tæplega 13%. Fjórðungur fréttatíma Stöðvar 2 var því lagður undir þetta eina mál og getur hver og einn dregið sína ályktun um hvaða áhrif slíku vægi frétta af einu máli er ætlað að hafa á áhorfendur og þá burtséð frá því hvort að umfjöllunin er jákvæð, í jafnvægi eða neikvæð.

Og hvernig skyldi jafnvægið þá hafa verið í umfjölluninni? Jú, í skýrslunni kemur fram, þó að það sé ekki dregið fram frekar en annað sem væri miður fyrir fréttastofu Stöðvar 2, að mat þeirra sem fengnir voru til að dæma fréttirnar er það að fréttamenn fréttastofu Stöðvar 2 hafi að meðaltali verið andsnúnir frumvarpinu en að jafnvægi hafi verið í umfjöllun fréttamanna Ríkissjónvarpsins. Með umfjöllun fréttamannanna er átt við þann texta sem þeir sjálfir flytja áhorfendum, en ekki inngang fréttarinnar eða það sem viðmælendur hafa fram að færa. Og þegar verst lét telja þeir sem mat lögðu á fréttirnar að umfjöllun fréttamanna Stöðvar 2 hafi verið mjög neikvæður í garð frumvarpsins en fréttamenn Ríkissjónvarpsins hafi aldrei orðið líkt því eins neikvæðir í umfjöllun sinni.

Þegar horft er á umfang umfjöllunar og það viðhorf sem fram kom hjá fréttamönnum Stöðvar 2 og Ríkisjónvarpsins er þess vegna ljóst að niðurstaða skýrslunnar er að fréttamenn Stöðvar 2 hafi verið mun andsnúnari fjölmiðlafrumvarpinu en fréttamenn Ríkissjónvarpsins. Þegar gögnin sem fram koma í skýrslunni eru skoðuð rækilega er niðurstaðan raunar sú, að fréttamenn Stöðvar 2 hafi ekki aðeins verið andsnúnari frumvarpinu en fréttamenn Ríkissjónvarpsins, heldur hafi þeir beinlínis sýnt andstöðu í umfjöllun sinni. Af einhverjum ástæðum kusu þó bæði skýrsluhöfundur og fréttamenn Stöðvar 2 að túlka gögnin með öðrum hætti.