Þriðjudagur 25. maí 2004

146. tbl. 8. árg.
Mætið í vinnuna á morgun og á sunnudag eða sitjið við tölvuna heima við, hringið, djöflist, látum öllum illum látum, söfnum þessum undirskriftum…
 – Róbert Marshall formaður Blaðamannafélags Íslands leggur línurnar í tölvupósti til samherja á völdum fjölmiðlum, birt í Morgunblaðinu 15. maí síðstliðinn.

Bara af forvitni: Hvað eiga þessar dellufréttir af „undirskriftasöfnun vegna áskorana til forseta Íslands“ að standa lengi? Er virkilega enginn sem hefur það hlutverk að hugsa á fréttastofunum hér? Dettur virkilega einhverjum í hug að yfir standi raunveruleg undirskriftasöfnun, þar sem fólki gefst kostur á hvetja forseta Íslands til ákveðinnar aðgerðar, það er að segja til þess að synja í fyrsta skipti lögum frá alþingi staðfestingar? Dettur einhverjum lifandi manni virkilega í hug að það sé eitthvað á þessari „undirskriftasöfnun“ að byggja, að prentunin sem lögð verður fyrir Ólaf Ragnar Grímsson segi honum eða öðrum nokkurn skapaðan hlut? Er virkilega sá maður til, sem telur að það plagg gæti orðið forsetanum rökstuðningur fyrir því ef hann skyndilega gengi gegn því sem lýðræðislega kjörið alþingi hefur nú ákveðið með fyllilega lögmætum hætti, hvaða skoðun sem menn hafa á lögunum sjálfum?

Útprentuð nafnasúpa. Sem enginn hefur ritað eigin hendi. Sem hvergi verður birt. Sem safnað er eftir þessum og öðrum álíka leiðbeiningum frá forsvarsmanni söfnunarinnar. Róbert Marshall fól mönnum ekki aðeins að sitja við tölvuna heila helgi og djöflast og láta öllum illum látum, nei nei, með fylgdu leiðbeiningar eins og: „Sé fólk fylgjandi frumvarpinu, fáið það samt til að skrifa undir… “ og svo framvegis. Þessu og fleiru fylgdi forsvarsmaðurinn úr hlaði með upphrópunum um „grenjandi“ þingmenn sem vægju nú að starfsöryggi Róberts og annarra viðtakenda bréfsins. Og svo eru fjölmiðlar farnir að segja „fréttir“ af gengi þessarar könnunar, það er segja, endurflytja nýjustu töluna frá Róberti Marshall og hækkar hún nú hraðar en gengi þýska marksins féll á tímum Weimarlýðveldisins.

Hver sem er getur sest við hvaða tölvu sem er, farið inn á eina síðu og skrifað þar það nafn og kennitölu sem honum sýnist. Þjóðskráin er aðgengileg á netinu og þar geta menn fengið þær kennitölur sem þeir vilja. Þeir sem, til dæmis vegna starfa að félagsmálum, hafa eitthvert félagatal undir höndum, geta tekið þar hvaða nafn sem þeir vilja og látið þann mann „skora á forseta Íslands“. Það er ekki einungis að listinn verður aldrei birtur – það er meira að segja auglýst að listanum verði eytt um leið og búið er að afhenda hann forsetanum. Áhættan af því að skrifa annað fólk inn á listann, hún er engin. Nú skulum við gefa okkur að Róbert Marshall myndi auðvitað aldrei leggjast svo lágt, þó hann vilji að vísu að stuðningsmenn laganna verði einnig fengnir á listann til forsetans. En hvað með aðra sem ekki eru eins yfirvegaðir og Róbert Marshall? Hversu mörgum þeirra finnst nú ekki talsvert á sig leggjandi og talsvert vera réttlætanlegt til að hindra slíka lagasetningu? Hversu mörgum, sem þetta telja, finnst ekki réttlætanlegt að setja pabba og mömmu, afa og ömmu, frænda og frænku og Millý Mollí Mandý á lista – og svo nágrannann og skólafélagana. Og listinn verður aldrei birtur. Honum verður beinlínis eytt. Það mun enginn sjá listann nema Róbert Marshall og Ólafur Ragnar Grímsson. Fjölmiðlar munu bara margendurtaka töluna sem Róbert Marshall gefur þeim upp – þessi sem segir sínum mönnum að djöflast og láta öllum illum látum. Hvaða áhætta er í því fólgin að setja fólk á listann að því forspurðu? Það mun aldrei frétta af því. Það getur enginn vitað hvort hann er kominn á listann. Og þó listinn yrði nú birtur þá yrðu engin heimilisföng birt svo enginn myndi hvort eð er geta vitað hvort alnafni hefði ekki bara skrifað. Eftir að Dósótheus Tímóteusson lést í fyrra þá eiga allir menn alnafna.

Menn geta haft hvaða skoðun sem er á hinum nýju lögum. Vefþjóðviljinn hefur til dæmis lýst andstöðu sinni svo oft að blaðið er fyrir löngu hætt að nenna að telja – en þessi „undirskriftasöfnun“ er svo fjarri því að skipta máli sem nokkurt rugl getur verið.