Herra forseti. Ég hugsa að vinnubrögðin í kringum allt þetta mál verði lengi í minnum höfð. Í fyrsta lagi tel ég að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í nefnd í neðri deild muni verða í minnum höfð um það hvernig ekki eigi að standa að málum eða hvernig eigi að starfa að málum eða hvernig eigi að starfa að málum til að skapa sem mestan glundroða í kringum þau. Nú er nærfellt víst að þetta mál verður afgreitt frá alþingi, það horfir að minnsta kosti í það, með minni hluta atkvæða, þannig að þessi útvarpslög sem á að fara að samþykkja, njóti ekki stuðnings meirihluta þingsins. Það er afar óheppilegt og það er afar slæmt. Ég er fylgjandi því frelsi sem þessi lög gera ráð fyrir og að verði aukið frá því sem var þegar ríkisútvarp og sjónvarp hafði eitt rétt til að útvarpa og sjónvarpa. Ég er fylgjandi því að þannig skuli að því staðið. En þessi lög, sem nú er verið að samþykkja, eru þannig úr garði gerð, ég hef áður bent á það hér, að mörg ákvæði þeirra eða sum fá ekki staðist. Gildistökuákvæðin eru út í hött og rugl. Þess vegna er ekki hægt að segja já. Samviska manns segir að ef alþingi lætur þessi lög fara frá sér með þeim hætti sem nú gerist sé það því til ævarandi háðungar. Þess vegna, herra forseti, ekki vegna þess að ég sé á móti því frelsi, síður en svo, sem lögin gera ráð fyrir, heldur vegna þess hvernig þessi lög eru tæknilega úr garði gerð, þá segi ég nei. |
– Eiður Guðnason, þingmaður Alþýðuflokksins, gerir grein fyrir atkvæði sínu þegar einkaréttur ríkisins til útvarps og sjónvars var afnuminn. |
Það er ekkert nýtt undir sólinni. Þeir eru ekkert nýbyrjaðir á þessu, kratarnir. Þeir eru á móti málum, en vel að merkja þá eru þeir líka hlynntir breytingum í sömu átt og hinir eru að leggja til. Bara ekki alveg svona. Það eru „ýmis ákvæði“ sem „standast ekki“. Gildistakan er röng. Vinnubrögðin í nefndinni voru ómöguleg. Málið er tæknilega ótækt og ætti bara að vísa því frá. Það er greinilega enginn sáttavilji hjá hinum. Málið verður lengi í minnum haft og alþingi til ævarandi háðungar. – En þeir vilja samt setja svipuð lög, muniði það, bara ekki svona og alls ekki núna.
Það er eins og blessaðir mennirnir trúi því að nokkur maður utan þings láti blekkjast og haldi að í lokaatkvæðagreiðslu um þingmál eigi þingmenn ekki að greiða atkvæði um málið sjálft heldur „málsmeðferðina“. Auðvitað hafa menn mismundandi skoðanir á undirbúningi, umræðum, nefndavinnu eða öðrum aukaatriðum, en við lokaafgreiðslu þingmála þá skipta þessi atriði ekki máli. Í umræðum um mál má alveg benda á það sem menn telja gagnrýnivert að þessu leyti, en þegar kemur til atkvæðagreiðslu þá er annað sem ræður. Þegar búið er að afgreiða þær breytingartillögur sem fram hafa komið, þá snýst lokaatkvæðagreiðsla um þingmál aðeins um eina spurningu: Það eru tveir kostir: Frumvarpið eins og það liggur fyrir. Eða óbreytt ástand. Milli þessara tveggja kosta þarf hver þingmaður að velja með atkvæði sínu, en notar atkvæðið ekki til að kommentera á það hvort það hefði átt að vinna betur í einhverri nefnd. Menn velja á milli frumvarpsins, með kostum þess og göllum, og óbreytts ástands, með kostum þess og göllum. Já og ætli það sé nú ekki stundum þannig að gildandi ástand hafi einnig sína galla sem á sínum tíma höfðu þótt landi og þjóð til ævarandi háðungar og það mál verið jafn „ótækt“ og „illa undirbúið“ og öll umdeild mál.
Herra forseti. Alþýðubandalagið er því hlynnt að útvarpslöggjöf sé breytt og að aukið sé frelsi aðila til að koma upp sjálfstæðum útvarpsrekstri. En saga þessa máls er aldeilis makalaus og þá sérstaklega sá þáttur hennar hvernig Sjálfstæðisflokknum hefur tekist að skáskjóta stórgölluðu frumvarpi í gegnum þingið, ýmist með stuðningi Alþýðuflokksins, Framsóknarflokksins og Bandalags jafnaðarmanna. Ég tel að það sé hið mesta óbermi, sem út úr þessu öllu hefur komið, og segi hiklaust nei. |
– Ragnar Arnalds, þingmaður Alþýðubandalagsins, gerir grein fyrir atkvæði sínu við sama tækifæri og reynist ekki minni stuðningsmaður málsins og segir hiklaust nei. |
Leiðinlegt að vinstri mennirnir í Samfylkingarflokkunum séu alltaf að lenda í þessu. Það er alltaf verið að leggja fram frumvörp á þeim sviðum þar sem þeir vildu einmitt taka til hendinni, en þá þurfa frumvörpin alltaf að vera stórgölluð, málsmeðferðin með eindæmum, málin ekki nægilega rædd – „hvers vegna liggur svona á?“ er vinsæl spurning til að reyna að stöðva mál – nefndavinnan til skammar, það er verið að troða frumvarpinu í gegn og þess vegna herra forseti neyðast þeir alltaf til að vera á móti öllu saman. Því miður. Þetta er eins og með einkavæðingu ríkisfyrirtækja og skattalækkanir. Það er verið að lækka vitlausan skatt og lækkunin er of mikil. Það er líka staðið vitlaust að sölunni. Kaupendur eru of margir. Eða of fáir. Verðið er líka ekki nógu gott, það er verið að gefa almannaeigur. Eða of hátt, það verið að hafa fé af fólki. Aðallega er þó tímasetningin röng. Það hefði verið svo einfalt að ná sátt um málið ef þetta hefði bara verið gert einhvern veginn öðruvísi og seinna. En menn vilja greinilega enga sátt frú forseti.
Í dag verður margrætt frumvarp til breytinga á útvarpslögum og samkeppnislögum afgreitt á alþingi, væntanlega sem ný lög. Þá þurfa þingmenn að velja á milli annars vegar þess frumvarps og hins vegar óbreyttra laga. Þegar það frumvarp er skoðað, þá eru tvenns konar athugasemdir sem koma til greina – að mati Vefþjóðviljans – ef menn vilja finna að frumvarpinu. Í fyrsta lagi er hægt að vera á móti frumvarpinu af princip-ástæðum, það er að segja, menn geta sagt að þeir séu einfaldlega á móti samkeppnisreglum og hafni því frumvarpinu enda er það í eðli sínu frumvarp um sérstakar samkeppnisreglur á tilteknu sviði. Hinn kosturinn til að finna að frumvarpinu, er að segjast að vísu vera hlynntur samkeppnisreglum en vilji bara ekki akkúrat þessar samkeppnisreglur á fjölmiðlamarkaði. Vilji kannski ekki að eignarhlutur takmarkist við 35 % eign heldur eigi hann fremur að takmarkast við 25 %, eða kannski 40 %, og svo framvegis. Slík atriði verða hins vegar afgreidd með breytingartillögum. Þeir sem fremur kjósa aðra útfærslu reglnanna geta lagt fram breytingartillögur samkvæmt sínum sjónarmiðum og svo eru þær bara afgreiddar á annan hvorn veginn. En að því búnu stendur frumvarpið eftir í einhverjum búningi og þá kemur lokaspurningin sem máli skiptir: Þegar kostirnir eru bara núverandi frumvarp eða óbreytt ástand, hvorn kostinn tekur háttvirtur þingmaður? – Já og „vafi“ um stjórnarskrá ræður ekki úrslitum um mál. Slíkum „vafa“ er haldið fram í tugum þingmála á hverju ári og það er hlutverk dómstóla að skera úr um hann. Ef málið er augljóslega gegn stjórnarskrá þá ættu þingmenn vitaskuld að spara öllum dómstólaómak og ríkinu hugsanlegar bótagreiðslur, en menn geta ekki stöðvað mál með því einu að segja vafi vafi. Á endanum verður slíkur vafi útkljáður fyrir dómstólum en ekki í þingsal.
Eitt er það sem hrópað hefur verið talsvert undanfarna daga í umræðum um svokallað fjölmiðlafrumvarp, er að það sé í raun ekki almennt frumvarp heldur sé því „beint gegn einu fyrirtæki“, og virðist ýmsum þykja þessar vangaveltur þýðingarmikið innlegg í þá umræðu hvort setja eigi þær samkeppnisreglur sem lagðar eru til í frumvarpinu. Sérstaklega var áberandi í gærkvöldi hvernig tiltekin fréttastofa reyndi að snúa út úr orðum Péturs H. Blöndals alþingismanns, til að reyna að sanna þessa kenningu. Um þetta má segja nokkur orð. Í fyrsta lagi hætta lög ekki að vera almenn við það eitt að þau hafi fyrst í stað mest sjáanleg áhrif á einn aðila. Þó aðeins einn eða fáir aðilar hafi nýtt sér tiltekinn möguleika, þá verður bann við honum – möguleikanum – ekki þar með að sértækum lögum. Þó eitt fyrirtæki sé til dæmis það eina sem í augnablikinu gefi bæði út dagblöð – raunar með áherslu á gefi út – og útvarpi og sjónvarpi, þá verður bann við því að blaðaútgefandi fái ný útvarpsleyfi ekki að sértækum lögum við það eitt. Fjölmiðlafrumvarpið bannar öðrum blaðaútgefendum og hugsanlegum blaðaútgefendum þetta sama.
En varðandi áróðurinn um „sértæk lög“, þá er annað atriði sem má minna á til gamans, þó það skipti svo sem ekki miklu. Það er nefnilega alls ekki bannað að setja sértæk lög og í raun oft gert. Fyrir örfáum mánuðum hafði stjórnarandstaðan til dæmis frumkvæði að því að lögum um sparisjóði var breytt og var tilefni þeirrar breytingar að þingmönnum líkaði ekki væntanleg þróun mála innan stærsta sparisjóðs landsins eins og margir muna. Var sérstaklega áberandi hversu þingmenn stjórnarandstöðunnar fögnuðu þeim árangri sínum að hafa fengið þessa lagabreytingu í gegn á skömmum tíma. Þá má rifja upp, að það eru aðeins tvö ár síðan sjö manna Hæstiréttur komst einróma að þeirri niðurstöðu – og staðfesti sömu niðurstöðu þriggja manna héraðsdóms – að heimilt hefði verið að banna með lögum verkfall tiltekinna verkalýðsfélaga, og svo framvegis.
Í íslenskri lögfræði skiptir spurningin um almenn lög eða sértæk ekki síst máli þegar verið er að skerða eignarrétt, en því miður er almennt viðurkennt að löggjafinn megi skerða eignarétt bótalaust ef skerðingin er almenn, en þurfi að greiða bætur ef skerðingin er sértæk. Löggjafinn þyrfti til dæmis ekki að greiða veiðimönnum bætur ef hann ákveddi einn daginn að friða rjúpu um allt land, en líkur stæðu til að bætur þyrftu að koma til ef veiðarnar væru einungis bannaðar á tilteknum jörðum, að minnsta kosti ef ekki þættu fyrir hendi málefnalegar ástæður fyrir því afmarkaða banni. Hitt er svo annað mál, sem margir gleyma, að löggjafanum er ekki bannað að skerða eignarrétt, stjórnarskráin kveður aðeins á um bótarétt þeirra sem verða fyrir skerðingunni en hún sjálf er heimil. Varðandi fjölmiðlafrumvarpið, þá var sérstaklega rætt um þetta atriði – sértæk lög eða almenn – á meðan frumvarpið var þess efnis að heimilað var að afturkalla þau útvarpsleyfi sem gefin höfðu verið út. Á meðan svo var, var hægt að halda því fram að frumvarpið fæli í sér eignaupptöku og væru afturvirk, en nú er svo ekki lengur. Eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu þá er enginn sviptur eign sinni og það er ekki afturvirkt og eru báðar breytingarnar og eru báðar breytingarnar veruleg framför, sem óþarfi er að gera lítið úr, hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á þeim skilyrðum sem gilda munu um framlengingu leyfanna þegar þar að kemur. Vef-Þjóðviljinn er til að mynda þeirrar skoðunar að útvarpsrásir eigi að vera varanleg eign og ganga kaupum og sölum eins og önnur gæði án sérstakra skilyrða.
EEins og margsagt hefur verið hér í þessu blaði þá er Vef-Þjóðviljinn andvígur opinberum samkeppnisreglum og vill að samkeppnisstofnun verði lögð niður. Hann þarf því enga tæknilegan fyrirslátt eða málalengingar um „málsmeðferðina“ til að leggjast gegn umræddu frumvarpi til breytingar á útvarps- og samkeppnislögum. Hann var andvígur hugmyndum um þetta frumvarp áður en það var lagt fram og er það enn. Trútt þessari skoðun ítrekar blaðið nú andstöðu sína við þetta frumvarp að samkeppnisreglum á fjölmiðlamarkaði sem alþingi greiðir endanlega atkvæði um í dag.