Skál! Þannig er yfirskrift yfirstandandi auglýsingaherferðar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í lauslegri þýðingu Vefþjóðviljans úr ítölsku. „Salute“ segir í auglýsingunni sem jafnframt er tilkynning um það að á næstu vikum fari fram kynning á ítölskum vínum í vínbúðunum. Jafnframt verði tilboð á völdum tegundum. Auglýsingin ber það með sér að það sé Vínbúð sem auglýsir. Það er sjálfsagt til þess eins að æra óstöðugan að fjalla hér á þessari síðu enn og aftur um fyrirkomulag áfengissölu hér á landi. Í ljósi þess þó að lesendur Vefþjóðviljans hljóta að vera allt annað en óstöðugir verður umrædd auglýsing ÁTVR hér til umfjöllunar. Fyrir utan það að vekja athygli á mikilvægi ítölskukunnáttu vekur auglýsingin nefnilega upp nokkrar spurningar um hlutverk og stöðu ÁTVR, áfengisauglýsingabannið og afstöðu fjármálaráðuneytisins til þessa alls.
Nú er skýrt kveðið á um það í lögum að áfengissmásala fari fram hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. „Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur einkaleyfi til smásölu áfengis.“- segir í áfengislögum nr. 75/1998. „Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins selur áfengi innan lands“- segir í lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 63/1969. Í löggjöfinni er hvorki minnst á vínbúð né Vínbúð. Í reglugerð fjármálaráðherra frá því í fyrra er þó minnst á vínbúð en þó ekki Vínbúð. Því má velta fyrir sér hvort ákvæði í reglugerð um vínbúð nægi til þess að reka og auglýsa Vínbúð, svona gegn skýrum lagaákvæðum um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Með öðrum orðum þá var það skýr vilji löggjafans, í raun allt frá lokum bannára, að áfengi væri selt ekki bara í áfengisverslunum ríkisins heldur einmitt í verslunum sem bæru beinlínis það heiti; Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Með þeim hætti eingöngu næðist helsta markmið áfengislaganna sem er að sporna gegn ofdrykkju og misnotkun á áfengi. Þessi hugmyndafræði er auðvitað barns síns tíma en allt að einu var þetta tilgangurinn og ef markmiðin eru nú önnur á auðvitað að breyta lögunum og afnema áfengiseinkasölu ríkisins. Það er hins vegar óþolandi að ríkið sjálft sé í búðarleik í skjóli einokunar sinnar.
Með því að kalla verslanir ÁTVR Vínbúðir, þvert gegn skýrum ákvæðum laga, er verið að blekkja neytendur með þeim hætti að láta líta út fyrir að um venjulegan verslunarrekstur sé að ræða. Í frumvarpi tólf þingmanna sem lagt hefur verið fram á Alþingi er að nokkru leyti tekið á þessu. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að svo margir þingmenn úr þremur flokkum skuli hafa áhuga á að breyta fyrirkomulagi þessara mála til hins betra. Frumvarpið kemst þó varla á dagskrá á þessu þingi og kannski eins gott því það þarfnast endurskoðunar ef vel á að vera. Frumvarpið gerir nefnilega ekki ráð fyrir einfaldara og eðlilegra kerfi heldur í raun flóknara kerfi. Frumvarpið er sama marki brennt og svo mörg önnur sem áður hafa verið lögð fram um sama efni, að ekki tekið á málinu með því hugarfari að leysa þennan áfengisrekstur undan hinu opinbera.
Vefþjóðviljinn hefur ekkert á móti því að skála þegar tilefni gefst til í boðlegum selskap. Þegar ÁTVR hins vegar skálar við landsmenn á síðum dagblaðanna lítur Vefþjóðviljinn ekki svo á að um slíkt sé að ræða heldur miklu frekar sé þar um að ræða auglýsingaskrum sem miðar að því að auka sölu á áfengi. Af hverju líðst ÁTVR það sem öðrum líðst ekki – að auglýsa áfengi? Hvar eru forvarnarfulltrúarnir, templararnir og atvinnufussumsveiararnir nú? Jafnvel þótt að menn fallist á að áfengisumfjallanir matgæðinga fjölmiðlanna séu ekki auglýsing í skilningi áfengislaga, en vissulega má deila um þá lögskýringu, þá hljóta menn að viðurkenna að Salute-kveðja ÁTVR er áfengisauglýsing. Og þótt ekki sé verið að auglýsa tiltekna áfengistegund þá er verið að auglýsa áfengi, hvar menn geta náð í það og það sé á tilboðsverði. Allt þetta banna víst áfengislögin. Auðvitað fráleitt bann og gagnslaust. En hvernig vogar ríkisfyrirtæki sér að fara út á ystu nöf hins leyfilega, ef það er þá ekki hreinlega komið fram af?