S vokölluð kjarabarátta hefur sem betur fer farið batnandi í seinni tíð og minna er um en áður að verkalýðsrekendur þvingi fram verkföll. Þetta er hluti skýringarinnar á því að kaupmáttur hefur vaxið jafnt og hratt síðasta áratuginn. Verkföll eru þó ekki óþekkt hér á landi og þegar litið er yfir tíu ára tímabilið 1993-2002, eins og The Economist gerir í nýjasta tölublaði sínu, má sjá að verkföll hér á landi eru miklu algengari en í nokkru þeirra landa sem við berum okkur almennt saman við. Jafnvel Frakkar, sem alltaf virðast vera í verkföllum, voru aðeins einn dag í verkfalli fyrir hverja fimm verkfallsdaga Íslendinga á þessu tímabili. Þess ber þó að geta að líklega yrði niðurstaðan önnur ef litið yrði til allra síðustu ára.
Verkföll eru sérkennilegt fyrirbæri, því að með þeim taka sumir sér rétt til að banna öðrum að vinna. Maður sem ýmist hefur vinnu eða er að leita sér að vinnu og býðst að vinna þegar sumir launþegar hafa ákveðið að fara í verkfall, verður að sæta því að mega ekki vinna. Hann kann að vera sáttur við það sem boðið er, en engu að síður skal hann sitja heima aðgerðarlaus vegna þess að aðrir eru ósáttir við kjör sín og krefjast þess af honum að hann aðstoði þá í kjarabaráttunni. Með slíkum aðferðum hefur verkalýðsfélögum gjarnan tekist að þrýsta launum ofar en fyrirtæki ráða við, sem hefur ýmsar neikvæðar afleiðingar. Þekktustu neikvæðu afleiðingarnar hér á landi eru gengisfelling, verðbólga og kaupmáttarrýrnun.
En það er ekki aðeins með verkföllum sem verkalýðsrekendur reyna að halda mönnum frá vinnu. Í viðtali sem birt var í tímariti á dögunum sagði formaður VR frá kjörum og kjarabaráttu. Þar kom meðal annars fram hjá formanninum að í kjarasamningi hefði verið kveðið á um að verslanir skyldu vera lokaðar á sunnudögum og um helgar yfir sumartímann. Formanninum segist þannig frá að VR hafi reynt að „reka VR-félaga úr búðum á þessum umsömdu frídögum“, en það hafi verið „óvinnandi vegur því alltaf hafi einhverjir verið tilbúnir í að svíkja lit og vinna“. Ja, það eru nú meiri ófreskjurnar þetta fólk sem er bara til í að svíkja lit og vinna. Fólk sem telur að það hafi sjálft rétt til að meta hvort það vinnur um helgar eða ekki hlýtur að vera að misskilja stöðu sína illilega. Auðvitað er það formaður VR og aðrir forkólfar í verkalýðshreyfingunni sem eiga að ákveða hvort fólk vinnur um helgar eða ekki. Fólk sem vill verða sér úti um einhverjar krónur aukalega með því að vinna um helgar verður að átta sig á því að verkalýðsfélagið er best til þess fallið að meta hvað fólki er fyrir bestu.