Mánudagur 26. apríl 2004

117. tbl. 8. árg.
Ef ESB kemst með puttana í hárið verður sama greiðsla tekin fyrir þessa greiðslu og fyrir drengjakoll.

Ætli þeir séu margir sem álíta að það sé svipuð fyrirhöfn að klippa og greiða hár dömu og herra? Jú, þeir eru nokkrir sem telja það og sumir þeirra sitja í því sem nefnt er ráðherraráð Evrópusambandsins. Það mun nú vinna að reglum þess efnis að rökurum og hárgreiðsludömum sé óheimilt að setja upp mismunandi verð eftir því hvort viðskiptavinurinn er karl eða kona. Þetta á víst að vera eitthvert jafnréttismál, eða svona anti-mismununar-eitthvað, enda er Evrópusambandið alveg sérstaklega mikið á móti hvers kyns mismunun. Og það er ekki aðeins að rakarar skuli hafa sömu verðskrá fyrir lokkafagrar ungmeyjar og hálfsköllótta karlskarfa, nei Evrópusambandið er líka að hugsa um að banna skemmtistöðum að hafa mismunandi aldursskilyrði fyrir karla og konur, skipa karlaklúbbum að taka konur á félagatalið og hver veit hvað. Allt til að berjast gegn mismunun sko.

Vefþjóðviljinn hefur margsinnis leyft sér að halda því fram að rétturinn til að mismuna öðrum sé einn mikilvægasti réttur hins almenna borgara. Ef einstaklingur megi ekki beita aðra menn „ómálefnalegri mismunun“, þá hafi til muna verið minnkað það persónufrelsi sem flestir vilji njóta, að minnsta kosti ef þeir hugsi sig um. Það er að mati Vefþjóðviljans einfaldlega mál hvers rakara hvernig hann hefur gjaldskrá sína og svo ræðst það hvort einhver gengur til viðskipta við hann, það er að segja svo lengi sem kúnninn er ekki þvingaður til neins. Ef rakarinn ákveður að taka sérstaklega fyrir það að klippa rauðhærða eða framsóknarmenn, þá er það hans mál. Rétt eins og það væri líka hans mál ef hann ákveddi að nota alltaf sömu verðskrá og rakarinn í næstu götu. Það á einfaldlega enginn kröfu á því að aðrir gangi til viðskipta við sig. Það á enginn kröfu á því að rakari úti í bæ hafi verðskrána svona en ekki öðruvísi.

Og svo aftur sé vikið að „ómálefnalegri mismunun“, þá má spyrja hver vilji í raun vera sviptur réttinum til að beita henni. Hver vill þurfa að „rökstyðja“ af hverju hann biður einnar konu en gefur ekkert fyrir ástleitnina í hinni? Hver vill þurfa að þurfa að gæta samræmis í því hvaða samkomur hann sækir og hverjar hann hunsar, hvar hann sækir um starf og hvar hann neitar með öllu að vinna, hvaða bækur hann les og hverjum hann hendir ólesnum? Væntanlega vilja það ekki margir. Og rétt eins og menn eiga ekki að þurfa að rökstyðja slíkar ákvarðanir fyrir einum eða neinum, þá eiga menn að vera frjálsir að því að setja upp undarlega verðskrá, mynda félag með næstum óuppfyllanlegum inntökuskilyrðum og halda skemmtanir sem aðeins eru opnar stúlkum sem eiga bíl og fellihýsi.

Eins og allir læsir reykingamenn vita þá krefst hið opinbera þess að á alla vindla- og sígarettupakka séu settir stórir og miklir límmiðar með upphrópunum frá landlækni. Tóbak drepur þig, tóbak veldur sjúkdómum, hættu að reykja, fáðu þér frekar agúrku. Á einum miðanum stendur til dæmis þessi texti: „Tóbak hefur mjög skaðleg áharif á heilsu Reykingar valda hjartsjúkdómum landlæknir“. Vefþjóðviljinn telur sig að sjálfsögðu ekki vita betur en landlæknir og vill því gera þessi viðvörunarorð að sínum. Sérstaklega er rétt að leggja áherslu á því að tóbak getur haft mjög skaðleg „áharif“ á heilsu enda valda „Reykingar“ gjarnan „hjartsjúkdómum“. Hér er rétt að taka fram að „Reykingar“ er sérnafn enda skrifað með „R“ án þess að nokkur punktur gefi til kynna að fyrri málsgrein sé lokið. Þá er rétt að árétta að landlæknir varar hér við hjartsjúkdómum sem eru mikil óværa og hafa slæm áharif á þjóðlífið. Það er því skiljanlegt að hann vari mjög við Reykingum og sé nokkuð niðri fyrir. Reyndar er aðeins eitt óljóst við þennan ljómandi góða viðvörunarmiða; það hvort hann stafar í raun frá landlækni. Eiginlega lítur lokaorðið ekkert sérstaklega út fyrir að vera undirritun. Kannski er límmiðanum í raun ætlað að vera ábending til Sigurðar Guðmundssonar ef hann skyldi kaupa sér vindlapakka. Reykingar valda hjartsjúkdómum landlæknir, heyrirðu það? Og hafa skaðleg áharif, Sigurður Sigurður Sigurður Sigurður, Sigurður Sigurður. Þetta væri þá kannski kveðja frá Maríu.