Miðvikudagur 7. apríl 2004

98. tbl. 8. árg.

F

Þegar þessi fantur er áminntur fyrir ókristilega framgöngu…

yrir þremur árum gerðist það að siðanefnd presta gaf út það álit að þá tæplega níræður maður, dr. theol. hon. caus. Sigurbjörn Einarsson, hefði með framgöngu sinni brotið gegn siðareglum presta. Lét nefndin sig hafa það að veita dr. Sigurbirni opinbera áminningu og hafa þá ýmsir sjálfsagt velt fyrir sér hver yrðu örlög þeirra sjálfra ef þeir lentu í klónum á þeirri siðanefnd sem teldi nauðsynlegt að áminna dr. Sigurbjörn Einarsson fyrir ókristilega framgöngu. Siðanefnd sem ekki geti samþykkt framkomu Sigurbjörns biskups, hugsanlega geti kröfur slíkrar nefndar vafist fyrir fleiri mönnum og jafnvel hvatvísari. En það er ekki aðeins dr. Sigurbjörn Einarsson sem hefur nýlega verið tekinn til bæna með þessum hætti. Fyrir hálfu öðru ári gaf Kærunefnd jafnréttismála út það álit að Valgerður Hjördís Bjarnadóttir, þá framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu og fyrrverandi bæjarfulltrúi Kvennaframboðsins á Akureyri, hefði brotið jafnréttislög með því að gera kvenkyns umsækjanda um starf ekki nægilega hátt undir höfði á kostnað karlmanns – og er álitamál hvor þessara tveggja niðurstaðna var óvæntari: Siðanefnd presta grípur níræðan dr. Sigurbjörn Einarsson glóðvolgan og ávítar harðlega fyrir ókristilegan málflutning. Kærunefnd Jafnréttismála telur að framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, kona sem hafði varið starfsævi sinni til svokallaðrar kvennabaráttu, hafi brotið jafnréttislög – konu í óhag.

… og þetta karlrembusvín fyrir að brjóta á konum…

Í gær setti síðari nefndin, Kærunefnd jafnréttismála, fram þá skoðun að dómsmálaráðherra væri litlu betri en áðurnefnd Valgerður Bjarnadóttir og hefði ráðherrann brotið jafnréttislög með því að leggja ekki til að Hjördís Hákonardóttir yrði skipaður hæstaréttardómari í fyrra. Reyndar mun fleiri aðilum en ráðherranum hafa sést yfir skyldu hans til þess að skipa þessa mætu konu, því eins og margendurtekið var í fréttum í fyrra lagði Hæstiréttur Íslands til að annar hvor tveggja karlkyns umsækjenda yrði valinn og er rétt að ítreka það að hvorugur karlinn er þessi Hjördís sem Kærunefnd jafnréttismála – nefndin sem áleit á sínum tíma og álítur sjálfsagt enn að Valgerður Bjarnadóttir hafi vísvitandi brotið jafnréttislögin – telur að skylt hafi verið að ráða. Ekki verður þó sagt að þessi niðurstaða komi mjög á óvart. Þegar Valgerður Bjarnadóttir fellur kylliflöt fyrir eitursnjöllum rökum þessarar kærunefndar, þá þarf Björn Bjarnason ekki að gera sér miklar vonir.

… þá þarf þessi fugl varla að kemba hærurnar.

Þegar minnst er á Kærunefnd jafnréttismála þá er hins vegar rétt að hafa í huga að það álit hennar sem hér var sagt frá, það að Valgerður Bjarnadóttir hefði brotið jafnréttislög, það endaði fyrir dómstólum fyrr á þessu ári og Hæstiréttur Íslands komst að þveröfugri niðurstöðu við nefndina. Var sú niðurstaða réttarins ánægjuleg og jafnvel enn óvæntari en svipuð skoðun lítils vefrits, sem hafði um mitt ár 2002 takmarkaða samúð með þessu áliti kærunefndarinnar. En af þessu tilefni vill Vefþjóðviljinn árétta þá skoðun sína að jafnrétti felist í því að allir menn, karlar sem konur, stórir sem litlir, hnöttóttir sem ávalir, séu jafn settir gagnvart lögum landsins; sé þar ekki mismunað með ómálefnalegum hætti. – Málefnaleg mismunun getur auðvitað komið til, svo sem að örorkubætur séu greiddar öryrkjum en ekki heilbrigðum, sjúkrahús séu aðeins opin sjúkum og svo framvegis – En Vefþjóðviljinn álítur beinlínis rangt að opinberu valdi sé beitt til þess að „jafna hlutföll kynja“ innan einstakra starfstétta. Slík hlutföll koma jafnrétti ekkert við. Fólk sem sækir um störf í dag á hvorki að gjalda þess né njóta hvernig fyrri kynslóðir sóttust eftir störfum. Barátta fyrir jafnrétti getur snúist um það að allir séu jafnir fyrir lögum. Ef menn vilja berjast fyrir öðrum atriðum þá geta þeir gert það, en þeir eiga þá að kenna þá baráttu við eitthvað annað en jafnan rétt. Að minnsta kosti ef þeir eru í raun að berjast fyrir því að annað kynið hafi meiri rétt en hitt.

Og að lokum, fyrst minnst hefur verið á Valgerði Bjarnadóttur og starf hennar sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. Eins og menn vita þá varð það fyrir nokkru „sameiginleg niðurstaða hennar og félagsmálaráðherra“ að hún léti af því starfi sínu. Það var hins vegar áður en Hæstiréttur Íslands kvað með skýrum hætti upp úr um það að hún hefði á engan hátt brotið jafnréttislög, öfugt við það sem Kærunefnd jafnréttismála hafði fullyrt. Augljóst var að Valgerður átti ekki frumkvæði af því að láta af starfinu þó hún féllist á það og tæki við biðlaunum að því gerðu. Þó félagsmálaráðherra hafi ekki brotið lögvarin réttindi hennar þá virðist það einnig blasa við að hlutur hennar er óviðkunnanlega smár. Að minnsta kosti er ekki vitað til þess að ráðherrann hafi nokkuð gert til að koma til móts við Valgerði eftir að Hæstiréttur hreinsaði hana af þeim lögbrotum sem Kærunefnd jafnréttismála hafði borið á hana. Virðist hún í litlu eiga að njóta þess að hafa að ósk félagsmálaráðherra gefið frá sér starf sitt, sem henni hafði engin skylda borið til að gera. Enn sem komið er virðist það vera helsta framlag Kærunefndar jafnréttismála til framgangs jafnréttismála að hafa starf af Valgerði Bjarnadóttur. Og félagsmálaráðherra virðist láta sér það vel líka.