H versu oft má ekki heyra vinstrisinnaða fjölmiðlamenn gera um það sérstakar fréttir, eða taka það ýtarlega og endurtekið fram í fréttum, að þessi eða hinn, sem tjáir sig um þjóðmál eða kemur við sögu að öðru leyti, sé skyldur, tengdur, vinur eða hafi einhvern tíma verið samstarfsmaður einhvers tiltekins sjálfstæðismanns, helst ráðherra. Heilu langhundarnir eru skrifaðir og birtir sem sérstök þjóðmálainnlegg og ganga út á reifa slík tengsl og svo gjarnan klykkt út með því tvennu að bæði sé vinur ráðherrans ómarktækur þar sem hann sé vinur ráðherrans, auk þess sem ráðherrann hljóti að standa á bak við allt sem frá vininum kemur og bera fulla ábyrgð á öllu saman. Gott og vel, sumum finnst að hlutirnir séu þannig. En af hverju er þetta þá bara öðru megin í þjóðlífinu? Eru vinstrimenn vinalausir? Af hverju dettur fréttamönnum aldrei í hug að opna augu sín í átt að þeim og þá ekki einu sinni þegar tengslin geta haft meiri raunverulega þýðingu en í þeim tilfellum sem menn hafa hingað til orgað sig hása yfir.
Sif Konráðsdóttir, lögmaður á Mandat, spurði hvort dómsmálaráðherra hefði ekki brotið lög með dómaraskipun. Björn L. Bergsson, lögmaður á Mandat, taldi svo vera. |
Tökum dæmi um tengsl sem engum dettur í hug að minnast á í fréttum. Í fyrradag sendi svokölluð Kærunefnd jafnréttismála frá sér niðurstöðu vegna skipunar hæstaréttardómara. Áliti nefndarinnar er víða tekið eins og hinu vandaðasta plaggi sem ekki verði deilt á. Samt er það nú svo að það eru einstaklingar af holdi og blóði sem standa að því. Þegar dómsmálaráðherra kynnti ákvörðun sína síðastliðið haust, urðu ýmsir reiðir. Einn þeirra sem ekki varð mjög ánægður var til dæmis Sif Konráðsdóttir nokkur, skeleggur lögmaður á lögmannsstofunni Mandat í Reykjavík. Hún skrifaði strax grein í Lögmannablaðið þar sem hún lýsti þeirri skoðun að nærtækt væri að álykta sem svo að dómsmálaráðherra hefði brotið lög með því að velja þann mann sem hann kaus en ekki tiltekinn kvenkynsumsækjanda, Hjördísi Hákonardóttur. Næst gerist það að Hjördís Hákonardóttir fer af stað og kærir embættaveitinguna til kærunefndar jafnréttismála en svo skemmtilega vill til að þar sat í forsæti Björn L. Bergsson nokkur, skeleggur lögmaður á lögmannsstofunni Mandat í Reykjavík. Hann og þær tvær konur sem sátu með honum í nefndinni komust svo einróma að sömu niðurstöðu og Sif var búin að skrifa í Lögmannablaðið. Hefur nokkur maður heyrt minnst á það í fréttum að formaður hinnar óumdeildu úrskurðarnefndar sé félagi og sameigandi lögmanns sem sérstaklega hafi beitt sér með þessum hætti í máli sem svo kom til úrskurðar hjá nefndinni?
Nú er hreint ekki verið að segja að neinn hafi brotið neitt af sér hér eða að Björn þessi geti ekki lagt hlutlaust og óháð mat sitt á mál þó að félagi hans og sameigandi hafi beitt sér sérstaklega í umræðu um málavextina og haldið þar fram sjónarmiði annars aðilans. En, ætli einhver myndi nú ekki koma með orð eins og „en tengslin eru þarna og þau vekja tortryggni“ ef einhverjir aðrir ættu í hlut. Ef til dæmis Jón Steinar Gunnlaugsson hefði beitt sér af krafti í málinu og svo hefði sameigandi hans á lögmannsstofu þeirra úrskurðað í samræmi við málflutning Jóns, ætli allir fréttamenn hefðu þagað yfir því? Nei, ætli þessi atriði fengju ekki bara yfirleitt að fljóta með þegar sagt yrði frá úrskurði nefndarinnar. Sjá menn fyrir sér viðtölin; fréttamaður finnur formann nefndarinnar og spyr hvort aldrei hafi komið til álita að víkja. „Eru þessi tengsl ekki til þess fallin að skapa tortryggni, Jón?“