B andaríkjamenn hafa verið mjög gjafmildir þegar kemur að þróunaraðstoð, þó að annað mætti stundum ætla af tali andstæðinga þeirra. Þeir hafa til að mynda gefið 77% af því korni sem dreift hefur verið í Angóla, en þar treystir um fimmtungur landsmanna á matvælaaðstoð, enda landið illa statt eftir 27 ára borgarastyrjöld. Nú telja stjórnvöld í Angóla hins vegar nóg komið af gjafmildi og hafa ákveðið að taka ekki við kornmeti frá Bandaríkjunum, að því er fram kemur í The Wall Street Journal. Stjórnvöld í Angóla hafa reyndar ekkert á móti því að þiggja aðstoð frá Bandaríkjunum, en svo illa vill til að í Bandaríkjunum notast bændur við það sem kallað er erfðabreytt korn, sem hefur nú verið bannað í Angóla. Miðað við ástandið í landinu – 1,9 milljónir manna lifa á matargjöfum erlendis frá – er auðvitað með ólíkindum að stjórnvöld skuli taka slíka ákvörðun. Þeim er þó nokkur vorkunn, því að ef þau taka við erfðabreyttu korni Bandaríkjanna – korni sem ríkasta þjóð heims borðar með góðri lyst – þá eiga þeir á hættu að fá ekki að flytja kornmeti inn til Evrópusambandsríkjanna.
The Wall Street Journal segir að hið sama hafi áður gerst í Suður-Afríku og fjölda nágrannaríkja þegar þurrkar herjuðu á svæðið fyrir tveimur árum. Evrópusambandið hefur sett tímabundið innflutningsbann á erfðabreytt matvæli, þannig að ef innflutta korninu yrði plantað og það selt yrði skrúfað fyrir innflutning til Evrópusambandsins. The Wall Street Journal hefur ekki mikla trú á því að rök séu fyrir hræðslu Evrópusambandsins við erfðabreytt matvæli. Það bendir meðal annars á að hópur vísindamanna frá Suður-Afríku hafi farið til Bandaríkjanna og Evrópu til að kynna sér staðreyndir um málið og niðurstaðan hafi verið sú að þessi matvæli séu hvorki hættuleg dýrum né mönnum. Hópurinn mælti með því að líftækni yrði notuð sem eitt af tækjunum til að takast á við hættuna á matvælaskorti. The Wall Street Journal segir að ef banninu, sem öfgafullir umhverfissinnar hafa barist fyrir, verði framfylgt áfram, muni það fyrr eða síðar leiða til mikils mannfellis.