Hundruð manna mættu og kröfðust þess að einhverjir aðrir borguðu nám þeirra. Ekki náðist tal af einhverjum öðrum áður en blaðið fór í prentun. |
Engin skólagjöld! Engin skólagjöld! – Þetta hrópaði talsverður hópur háskólastúdenta að Páli Skúlasyni háskólarektor fyrir utan aðalbyggingu skólans í vikunni. Hópurinn hafði safnast þar saman til að leggja áherslu á þá eindregnu kröfu sína að einhverjir aðrir en stúdentar greiddu fyrir háskólanám stúdenta. „Engin skólagjöld!“ var krafan og fer vel í munni á útifundi. En það er hægt að orða hlutina með ýmsu móti. Stúdent sem hrópar á engin skólagjöld, hann gæti alveg eins staðið og orgað eitthvað eins og „Ég heimta hér með að bara einhver, sama hver, annar en ég borgi menntun mína“ – en sú krafa er kannski ekki eins þægileg til hrópa, þó vissulega væri gaman að fylgjast með háskólakórnum flytja hana. Raunar væri það ekki aðeins gaman ef stúdentar settu kröfur sínar fram með þessum hætti; það væri líka gagnlegt, því sjálfsagt myndu færri samþykkja þann málflutning en einfaldar upphrópanir gegn skólagjöldum.
Hinar einfaldari upphrópanir hljóma nefnilega oft meinlausar en sú hugsun sem að baki býr. Það er allt annað að hrópa „Eflum innlenda dagskrárgerð í sjónvarpi“ en að segja „Borgið mér og mínum líkum af skattfé fyrir að setja saman þau verk sem við viljum gera og sýnið það svo í því sjónvarpi sem allir eru neyddir til að borga til, ef þeir bara eiga tæki“. Sjómaður sem prílar upp í mastur og skorar þar á mávinn og aðra áheyrendur sína að „standa vörð um sjómannaafsláttinn“, hann gæti alveg eins skrifað í blöðin og hvatt stjórnvöld til að „hækka skatta á alla nema sjómenn“, en það myndi kannski ekki hljóma alveg eins sanngjarnt. Krafa um opinberan stuðning við eitthvert málefni er krafa um að peningar annars fólks verði með valdi teknir af því og færðir til þessa málefnis. Krafan um „öflugan stuðning við íþróttir“ er krafa um að peningar þeirra sem ekki vilja styrkja íþróttastarf verði samt teknir af þeim og settir til íþróttaáhugamanna. Kannski til að borga nýja stúku við enn einn völlinn. Nótabene, skattgreiðandinn var líka látinn leggja völlinn og stundum ekki bara látinn gefa íþróttafélaginu völlinn heldur að því búnu látinn kaupa hann af því aftur svo það hafi efni á því að kaupa Serba til að sóla Króatann sem óvinirnir keyptu í fyrra. Og svo framvegis. Krafan um „listahátíð á hverju ári“ er krafa um að hið opinbera taki fé af saklausum borgara og noti það til að niðurgreiða balletsýningu sem áhugamenn um ballet telja að vísu stórviðburð sem gerir landið byggilegt.
Og af því að útifundamenn virðast alltaf geta notað góðar upphrópanir, mætti Vefþjóðviljinn þá stinga upp á einni. „Látiði skattgreiðendur í friði!“