M örgum leiðast stjórnmálaumræður ógurlega og þykir fáir menn minna spennandi en pólitíkusar. Jafnvel ekki prófarkalesarar og er þá nokkuð sagt. Skemmtilegir stjórnmálamenn eru þó til og má finna þá innámilli hinna ef nógu vel er leitað. Einn slíkur myndi hafa verið Garðar Sigurðsson, sem lést á dögunum rúmlega sjötugur að aldri. Garðar sat á alþingi fyrir Alþýðubandalagið í sextán ár, frá 1971 til 1987 og frá þeim árum er eitt og annað haft eftir honum sem betur var sagt en ósagt. Þannig er því oft haldið fram að hann hafi fyrstur stungið upp á því að mæla ræðulengd þingmanna í „hjörl“-um, og væri eitt hjörl þrír stundarfjórðungar, en ýmsum þingmönnum þótti ræður Hjörleifs Guttormssonar oft í lengra lagi eins og kunnugt er. Þegar Hjörleifur var iðnaðarráðherra fékk hann í kaupbæti þá einkunn frá samflokksmanni sínum, Garðari Sigurðssyni, að ráðherrann væri seinn til allra ákvarðana, nema þær væru rangar.
Fleiri þingmenn komu til tals í ræðum Garðars Sigurðssonar. Eitt sinn ræddi hann meðal annars um ættarnöfn og varð þá hugsað til samþingmanna sinna, Gunnars Thoroddsens, Ragnars Arnalds og Eggerts Haukdals. Sagði Garðar að á þingi sæti „Gunnar Sigurðsson en kallar sig Thoroddsen, Ragnar Sigurðsson en kallar sig Arnalds og Eggert Sigurðsson en kallar sig Haukdal.“ Þagði Garðar svo litla stund áður en hann bætti við: „Sjálfur heiti ég svo Garðar Sigurðsson en er alls ekki Sigurðsson“.
Eins og áður sagði sat Garðar á þingi fyrir Alþýðubandalagið um sextán ára skeið. Um tíma sat með honum í þingflokki Alþýðubandalagsins maður að nafni Ólafur Ragnar Grímsson, þangað kominn úr nokkrum öðrum flokkum. Þeir urðu kannski ekki neitt sérstakir félagar. Eitt sinn hélt Ólafur Ragnar ræðu um sjávarútvegsmál sem voru sérsvið Garðars sem hafði stundað sjóinn og lært til stýrimanns. Þótti Garðari lítið til málflutnings Ólafs Ragnars koma og mælti: Þarna stendur hann og talar um möskvastærð. Maður sem aldrei hefur séð annað en hárnet.
Garðar Sigurðsson komst oft skemmtilega að orði þó ekki hafi komið frá honum tóm gamanmál. Hann bað þingmenn um að leita sannleikans en gæta þess þó umfram allt að finna hann ekki. Þá tæki ofstækið við. Það er ekki alvitlaus ábending, þó ef til vill færi betur á því að hún yrði rifjuð upp annars staðar en í vefriti sem ekki sér alltaf ástæðu til að gera meira úr eigin skeikulleik en efni standa til.