Helgarsprokið 21. mars 2004

81. tbl. 8. árg.

Á nægjulegar fréttir bárust í vikunni, fyrir danska skattgreiðendur að minnsta kosti. Ríkisstjórn Danmerkur, undir forsæti Anders Fogh Rasmussen, ákvað að lækka skatta svo um munar. Í fyrsta skipti í 30 ár lækka skattar á einstaklinga verulega í Danmörku. Þeir munu á næstu tveimur árum lækka um 75 milljarða íslenskra króna og meðallaunafjölskyldan mun borga sem nemur rúmum 10.000 íslenskum krónum minna í skatt á mánuði, eða um 120.000 minna á ári. Þetta kemur sér einkar vel fyrir danskan almenning og er raunar mál sem erfitt er að vera mjög mótfallinn þó vissulega reyni danska stjórnarandstaðan að finna málinu allt til foráttu. Enn finnast nefnilega forræðishyggjumenn sem sjá rautt er þeir heyra minnst á að hið opinbera gefi eftir hluta af því sem það er vant að taka og leyfi þess í stað almenningi sjálfum að ráðstafa auknum hluta þess er hann aflar. En sá boðskapur fellur í fremur grýtta jörð. Það er því ekki gaman að vera í stjórnarandstöðu þegar ríkisstjórn tekst að koma svona þjóðþrifamáli í gegn. Enda brosir Mogens Lykketoft, sósíaldemókrati og leiðtogi stjórnarandstöðunnar á danska þinginu, ekki beinlínis út að eyrum þessa dagana. Það kemur ekki á óvart enda koma skattalækkanirnar flestum kjósendum til góða og gleðja þar með flesta. Það flækir málin enn fyrir stjórnarandstöðunni að fyrir flestum er skattalækkun réttlætismál. Sérstaklega í landi þar sem hið opinbera tekur svo stóran hluta þjóðarframleiðslunnar í skatta og endurráðstafar eins og raun ber vitni í Danmörku og raunar allri Skandinavíu.
Hin þunga skattheimta í Skandinavíu er líka farin að koma niður á samkeppnistöðu landanna. Í alþjóðavæddum heimi hika fyrirtæki og einstaklingar ekki við að kjósa með fótunum, flýja óréttláta skattheimtu og koma sér fyrir í skattaparadís. Hafa Danir ekki farið varhluta af því. Auk þess er hin mikla skattheimta vinnuletjandi.

„Skattalækkunin í Danmörku er ekki bara góð frétt fyrir danska skattgreiðendur og danskt samfélag. Það er nefnilega hægt að freistast til að láta sig dreyma um að leiðtogar annarra ríkja fylgi í kjölfarið“

En þó fólk sé búið að fá sig fullsatt af skattheimtuöfgunum í löndum eins og Danmörku, þá er það síður en svo sjálfgefið að ríkisstjórnir lækki skatta. Lækkun skatta hefur í för með sér að stjórnmálamenn hafa úr færri krónum að spila. Það dregur því úr möguleika þeirra á að kaupa sér fylgi á kostnað skattgreiðenda. Auk þess eru hagsmunir skattgreiðenda dreifðir og skattalækkun því hlutfallslega lítið hagsmunamál fyrir hvern og einn. Því gengur oft erfiðlega að fá fólk til að leggja í mikla vinnu við að berjast fyrir skattalækkun. Hagsmunir þeirra fáu, sem sérhagsmuna eiga að gæta og njóta góðs af skattheimtunni en eiga á hættu að missa stuðning hins opinbera, eru hins vegar svo miklir að þeir leggja allt í að berjast gegn öllum breytingum sem ruggað geta bátnum og geta valdið því að þeir missi stuðning hins opinbera. Slíkir sérhagsmunahópar leggja hart að stjórnvöldum. Og ekki er skynsamlegt fyrir stjórnmálamenn að taka áhættuna á að fá sérhagsmunagæsluhópa upp á móti sér með því að krukka of mikið í skattinn. Það er í raun einfaldast og átakaminnst fyrir alla aðila að eiga ekkert of mikið við hið rótgróna.
Það er því ekki um einfalt mál að ræða fyrir ríkisstjórn, jafnvel þær sem samansettar eru úr flokkum sem eru á móti miklum umsvifum ríkisins. Það þarf því bæði sterka og áræðna stjórnmálamenn til. Það sést best á því hversu sjaldan ríkisstjórnir, hvert sem litið er í heiminum, lækka skatta. Þeim er því miður mun tamara að hækka þá.

Í umræðum í kringum skattalækkanir í Danmörku hefur Anders Fogh bent á að hann vilji stuðla að lækkun skatta og að peningar almennings séu ekki endilega betur komnir hjá hinu opinbera en almenningi sjálfum. Hann hefur jafnframt lagt áherslu á að hann vilji ekki blanda sér í hvernig fólk eyði fé sínu, það sé best að því komið sjálft. Þetta eru einkar ánægjuleg orð sem ber að fagna. Þau sýna sum sé að víðar á Norðurlöndum en á Íslandi finnast stjórnmálamenn sem leiða ríkisstjórn sem eru þeirrar skoðunar að fjármunum sé ekki endilega betur komið í höndum misviturra stjórnmálamanna heldur sé almenningur fullfær um að ráðstafa þeim skynsamlega. Þetta er annars því miður ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar talið berst að stjórnmálamönnum á Norðurlöndum þar sem stjórnvöld hafa verið einkar útsjónarsöm í að finna upp nýjar leiðir til skattheimtu.

Skattalækkunin í Danmörku er ekki bara góð frétt fyrir danska skattgreiðendur og danskt samfélag. Það er nefnilega hægt að freistast til að láta sig dreyma um að leiðtogar annarra ríkja fylgi í kjölfarið, annað hvort af því að þeir vilji ekki vera eftirbátar Anders Fogh eða einfaldlega vegna þess að skattgreiðendurnir krefjist þess með fordæmið í höndunum. Ekki síst á Norðurlöndum þar sem mikið samstarf er og menn læra fljótt hverjir af öðrum. Auk þess gæti samkeppnisstaða Dana bæst svo, að nágrannaþjóðir neyðist til að fylgja í kjölfarið. Vefþjóðviljanum þætti nú ekki verra ef það skapaðist skattalækkunartrend en best er þó að láta ekki bjartsýnina hlaupa með sig í gönur.

En það er annað athyglisvert sjónarhorn á þessu máli, sem snýr að karakter stjórnmálamanna. Það er nefnilega athyglisvert að Anders Fogh vildi alls ekki lofa skattalækkunum í síðustu þingkosningum þó að þrýst væri á um slíkt loforð. Stuttu eftir þingkosningarnar krafðist Íhaldsflokkurinn, sem er í ríkisstjórnarsamstarfi með flokki Anders Fogh, Venstre, skattalækkana á kjörtímabilinu. En Anders Fogh sagði að ekki væri hægt að lofa slíku. Hélt hann fast í að lofað hefði verið skattastoppi, þ.e. að sífelld aukning skattheimtu yrði stöðvuð, í kosningabaráttunni og við það yrði staðið. Fráleitt væri hins vegar að fara lofa einhverju sem hugsanlega væri ekki hægt að standa við.
Við skattastoppið hefur verið staðið og nú hefur ríkisstjórnin bætt um betur og lækkað skatta, öðru sinni á stuttum tíma. Skattleysismörkin voru nefnilega hækkuð í janúar.

Anders Fogh tilheyrir allt of fámennum hópi stjórnmálamanna sem lofar frekar aðeins minna en hann telur hægt að standa við. Og reynir síðan að standa við orð sín og gott betur. Hefur orðheldni að leiðarljósi og er jafnframt framsýnn. Hugsar ekki bara um næstu skoðanakönnun og hvernig vindar blása þennan eða hinn daginn. Að því leyti skipar hann sér í hóp stjórnmálamanna eins og Margrétar Thatcher og Davíðs Oddssonar, stjórnmálamanna sem gjarnan vilja láta dæma sig af verkum sínum. Þess er skemmst að minnast hvernig Davíð Oddsson hefur iðulega lagt fram loforðalista í kosningabaráttu, bæði í borgarstjórnar- og alþingiskosningum, og síðan átt frumkvæðið að því í næstu kosningum að efndirnar væru athugaðar.

Nóg eru dæmin um menn sem skipa hinn hópinn. Forveri Anders Fogh, sósíaldemókratinn Poul Nyrup Rasmussen, lofaði til dæmis fyrir sex árum að meðan hann væri forsætisráðherra yrði ekki hreyft við skipan danska lífeyrissjóðakerfisins. Aðeins hálfu ári síðar stóð hann fyrir verulegum breytingum á lífeyriskerfinu og sveik þar með gefið loforð. Nú voru reyndar flestir stjórnmálamenn og sérfræðingar sammála um að annað væri ekki að gera. Það lá fyrir þegar Poul Nyrup gaf hátíðlegt loforð sitt, þannig að hann talaði gegn betri vitund. Þegar talað er um loforð að þessu tagi kemur kosningaslagorð George Bush eldri í hugann: „No new taxes“. Ekki er nokkur vafi á að svik hans við þetta loforð átti stóran þátt í að hann tapaði fyrir Bill Clinton þrátt fyrir að hafa notið gífurlegra vinsælda árinu áður eftir að hafa tekist að byggja upp breiða alþjóðlega samstöðu gegn Saddam Hussein og leiða bandamenn til sigurs í Persaflóastríðinu.
Þegar rætt er um menn, sem segja hluti til þess eins að afla sér vinsælda, og hika ekki við að tala gegn betri vitund, þá er ekki hjá því komist að minnast á forsetakosningarnar 1996. Haustið 1995 var tekið viðtal við Ólaf Ragnar Grímsson, prófessor, í útvarpi þar sem hann lýsti því yfir að hann væri ekki trúaður maður. Tæpu hálfu ári síðar eyddi forsetaframbjóðandinn Ólafur Ragnar Grímsson gífurlegri orku í að segja frá trúarreynslu sinni og guðsótta. Vart eins og sami maður væri að tala.

Það var áræðið og djarft af Anders Fogh og ríkisstjórn hans að ráðast í lækkun skatta. Þar með sýnir hann kosti sem margir góðir stjórnmálamenn deila; að gera meira og betur en lofað er. Í stjórnmálum er nefnilega allt of mikil tilhneiging til að lofa upp í ermina, þó að augljóst sé að erfitt eða jafnvel ómögulegt er að standa við gefin loforð.
Samtímis vinnur Anders Fogh vel fyrir umbjóðendur sína. Tryggir með skattalækkunum að þeir fá til umráða stærri hlut tekna sinna sjálfir og er það vissulega er til eftirbreytni.

Þess má í lokin geta að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, skrifaði athyglisverða bók árið 1993 þar sem fjallað er um þróun velferðarríkisins á gagnrýninn hátt. Bókin heitir Fra socialstat til minimalstat og hana má lesa hér á vef Venstre.