Mánudagur 22. mars 2004

82. tbl. 8. árg.

Um þessar mundir er eitt ár liðið frá því herir Bandaríkjanna og Breta héldu inn í Írak, við mismikinn fögnuð víða um heim. Meðal afleiðinga þeirrar herferðar er sem kunnugt er að Saddam Hussein og stjórn hans hefur verið komið frá völdum – sömuleiðis við mismikinn fögnuð – og unnið er að því að koma á lýðræði í landinu, hvernig sem það mun nú ganga. Síðast liðinn laugardag var efnt til mótmæla gegn herferð þessari víða um heim, og þó að þátttaka í þeim hafi verið merkilega lítil, sérstaklega í Bretlandi, þá er engin ástæða til að draga af því þá ályktun að hin heita andstaða gegn innrásinni hafi dofnað að ráði. Sennilega hefur hún þvert á móti aukist og þá væntanlega helst fyrir þá staðreynd að enn sem komið er hafa leitarsveitir bandamanna gripið í tómt þegar þær hafa farið um Írak til að finna gereyðingarvopn til reka svo hlæjandi framan í nefið á gagnrýnendum sínum. Við það bætist, þó minna skipti, að vestrænir fjölmiðlar hafa lagt áherslu á það sem miður hefur farið og einnig látið eins og það, sem aldrei gat orðið á annan veg, væri sérstakt áfall. Varla var búið að ná nokkrum bæ úr höndum Íraksstjórnar þegar vestrænar sjónvarpsstöðvar voru farnar að tala fjórum sinnum á klukkustund um að þar væri ekki enn komið á rafmagn. Bandamenn hafa ekkert mátt gera eða ekki gera án þess að vestrænir fjölmiðlar finni sérfræðing sem lýsir því sem sérstakri vanvirðu við menningu eða trúarbrögð heimamanna. Og svo framvegis.

Og fyrst minnst er á fréttaflutning þá ætti að vera augljóst að ef vestrænir fjölmiðlar myndu ekki jafnan segja frá hverju einasta tilræði sem gert er við hermenn bandamanna, þá yrði lítill raunverulegur tilgangur með þeim. En það er bara eins og það er og ekki er Vefþjóðviljinn að fara fram á að hætt verði að segja slíkar fréttir þó það yrði sjálfsagt til að minnka mjög áhuga tilræðismanna. En kannski að blaðið nenni að segja örfá orð um gereyðingarvopnin og þátt þeirra – eða fundarleysi þeirra – í umræðum um réttmæti innrásarinnar í Írak. Eins og Vefþjóðviljinn sagði í fyrrasumar, þá telur blaðið ekki að réttmæti innrásarinnar ráðist af því hvort þar finnast gereyðingarvopn eða ekki. Ef niðurgrafin vítisvélageymsla, full af hættulegustu vopnum, finnst í fyrramálið þá verður innrásin – að mati þessa blaðs – ekki á nokkurn hátt réttmætari en hún er í dag. Og jafnvel þó aldrei fyndist einu sinni teygjubyssa til viðbótar því sem Halldór Ásgrímsson og fleiri hafa þegar fundið, þá yrði innrásin ekki óréttmætari en hún var í marsmánuði í fyrra. Það, hvaða vopn finnast í Írak, ræður einfaldlega engu um það hvort innrásin var réttmæt eða ekki.

En með því er ekki sagt að vopnaeign Saddams Husseins og stjórnar hans komi málinu ekki við. Það liggur nefnilega fyrir að Saddam Hussein réði yfir vopnum sem menn hafa kallað gereyðingarvopn. Eftir fyrra Persaflóastríð upplýsti Saddam hvaða vopnum hann réði yfir og síðan hefur hann ekki, þrátt fyrir viðskiptaþvinganir, áskoranir og ályktanir, upplýst hvað varð af þeim vopnum. Kannski kom hann þeim undan. Kannski faldi hann þau. Kannski eyddi hann þeim með heiðri og sóma – en það hefur hann þá gert án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut í höndunum því til sönnunar og getur hver sem er haft sína skoðun á því hversu trúlegt það er. En gott og vel, þetta þrennt kemur til greina, en það sem er vitað er það að Saddam átti vopn, vopn sem enginn veit nú hvort eða hvar eru niðurkomin. Áttu Vesturlönd að bíða til eilífðar eftir því að spurningin um þessi vopn yrði útkljáð? Hversu lengi áttu Vesturlönd að senda þau skilaboð að þau myndu ekki fylgja kröfum sínum eftir og Saddam Hussein og aðrir slíkir gætu farið sínu fram?

Nú er það alveg góð og gild afstaða að það, að Saddam Hussein hafi þrátt fyrir margra ára þóf ekkert gefið upp um hvað orðið hafi af vopnum sínum, réttlæti ekki innrás í land hans. Innrás hlýtur alltaf að kosta saklausa borgara líf eða limi – og þó mannfall hafi aðeins orðið örlítið brot af þeim spám sem innrásarandstæðingar höfðu uppi fyrirfram, þá er hinum föllnu lítil bót í þeirri staðreynd. Það er, að mati Vefþjóðviljans, allt í lagi að vera af þessum ástæðum á móti innrás, hvað sem tautar og raular, en séu menn þessarar skoðunar, þá skiptir engu hvort vopnin finnast svo á endanum. Rétt eins og þessi afstaða kallar á að mönnum sé sama hvort öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er með eða á móti innrásinni. Séu menn einfaldlega alltaf á móti því að ráðist sé inn í annað land, þá ræðst réttmæti innrásarinnar ekki af því hvað Vladimir Putin, Jacques Chirac og Gerhard Schroeder finnst. Þeir, sem eru andvígir innrásinni af þessum ástæðum – umhyggju fyrir hinum saklausu borgurum, mörgum eða fáum, sem falla eða örkumlast – þeir verða þá bara alltaf á móti innrásinni og þá skiptir engu máli hvort hún er „samkvæmt samþykktum Sameinuðu þjóðanna“ eða „ólögmætt árásarstríð“. Fyrir slíkum mönnum verður hvorug fullyrðingin nokkuð annað en orðaleppar í áróðri.

En ef menn telja að sú staðreynd að einræðisherra – sem vitað er að hefur ráðist inn í grannlönd sín, skotið eldflaugum á fjarlægari ríki og beitt þegna sína miklu harðræði – réði yfir stórhættulegum vopnum og er árum saman ófáanlegur til að upplýsa um það hvað af þeim varð, verði til þess að réttlætanlegt geti verið, eftir margra ára þrýsting og fortölur, að ráðast inn í land hans til að koma honum frá völdum í eitt skipti fyrir öll – þá átta þeir sig líka á því að réttmæti innrásarinnar ræðst ekki af því hvað kemur svo í leitirnar. Fyrir þeim var innrásin í Írak ill nauðsyn.

Á þennan veg skrifaði Vefþjóðviljinn síðast liðið sumar, skrifar enn í dag og er vís til að skrifa aftur einhvern daginn ef blaðið nennir.