Laugardagur 20. mars 2004

80. tbl. 8. árg.

Í ár eru sex áratugir frá því að Friedrich August von Hayek ritaði bók sína The Road to Serfdom, eða Leiðina til ánauðar eins og hún heitir í íslenskri þýðingu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Í bókinni er minnt á þá staðreynd að frelsið tapast sjaldan allt í einu og að ef menn gæti sín ekki geti lýðræðisríki fetað leiðina til ánauðar. Þessi þróun verði ekki vegna illsku mannanna, heldur vegna þess að sumir vilji láta gott af sér leiða, en geri það á rangan hátt og á kostnað annarra. Þeir sem efast um réttmæti þessarar skoðunar ættu að leggja leið sína inn á vef Alþingis og skoða hvað sumir þingmenn hafa fyrir stafni. Þingmenn eru afar iðnir við að leggja fram fyrirspurnir, tillögur eða jafnvel lagafrumvörp þar sem saumað er að frelsi manna. Allt er þetta gert í nafni einhvers góðs málstaðar og sagt vera til hagsbóta fyrir einhvern tiltekinn sérhagsmunahóp, en ævinlega gleymist hinn almenni maður.

Einn þeirra þingmanna sem hvað duglegastur er að þrýsta á um sérkjör tiltekins hluta landsmanna er Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar. Kristján má eiga það að hann dregur ekki af sér, en það eru þó vafasamir mannkostir þegar dugnaðurinn birtist aðallega í tillögum þess efnis að láta hluta landsmanna njóta forréttinda umfram aðra landsmenn. Kristján leggur fram hverja tillöguna og fyrirspurnina af annarri í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að íbúar utan þéttbýlisins greiði fullt verð fyrir vöru eða þjónustu. Mismuninn eiga þá íbúar þéttbýlisins að greiða, og ef Kristján fær að ráða eiga þeir einnig að greiða niður atvinnu manna á landsbyggðinni með því að opinberum störfum utan þéttbýlisins verði fjölgað.

Ýmsir aðrir þingmenn eru einnig dugnaðarforkar þegar kemur að því að færa fé frá einum til annars eða einfaldlega að skerða frelsi allra. Sumir þrýsta á um byggingu skóla hér eða íþróttahúss þar og svo framvegis, og allt er þetta gert í afar göfugum tilgangi, að minnsta kosti ef marka má rökstuðninginn sem boðið er upp á. Líklegra er þó að þessi mál séu aðallega lögð fram til að kaupa atkvæði, að minnsta kosti er tæplega tilviljun að þingmenn koma gjarnan fram með mál sem þjóna tilteknum hópi kjósenda þeirra, en hafa sjaldan fyrir því að leggja fram mál sem gætu skaðað sérhagsmuni íbúa þeirra kjördæmis.

En fyrst minnst er á þingmál er ekki úr vegi að nefna mál sem sýna hve brýnt erindi sumir menn eiga á þing og hve vel menn nýta tíma sinn þar. Sérstaklega athyglisvert er þegar varaþingmenn detta inn og láta ljós sitt skína skamma stund. Þá sést stundum hvílík ógæfa það er að þessir menn skyldu ekki ná föstu sæti á Alþingi svo þeir mættu berjast fyrir fleiri þjóðþrifamálum. Einn þessara manna er Jón Kr. Óskarsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar. Til mikillar gæfu fyrir alla landsmenn tók Jón sæti á Alþingi á dögunum í forföllum Rannveigar Guðmundsdóttur, og það var ekki að spyrja að því, hann vakti máls á því sem allra brýnast er. Hann spurðist fyrir um danskennslu og kennslu í ræðumennsku og fundarsköpum í grunnskólum landsins, og taldi að með aukinni kennslu á þessum sviðum mætti ná fram miklum árangri í auknu heilbrigði ungmenna landsins. „Dansinn er mikil hreyfing, tjáning og tekur á ýmsum vöðvum líkamans,“ útskýrði varaþingmaðurinn og bætti um betur þegar hann benti á að hann byggi yfir vitneskju um það, að fyrir drengi væri sérstaklega mikið atriði að þora að bjóða stúlku upp og geta dansað, eins og hann orðaði það. Stúlkurnar séu að hans áliti opnari gagnvart dansinum, og á yngri árum hans hafi þær sumar hverjar dansað í frímínútum og rokkað alveg á fullu. „Við drengirnir vorum alveg dolfallnir yfir snilli þeirra,“ mælti varaþingmaðurinn, og sýndi þar með fram á mikilvægi þess að allir lærðu ræðumennsku svo þeir óttuðust ekki að fara í ræðustól og fylgja eftir helstu þjóðþrifamálum.