A lltaf naskur Óðinn. Og minnið maður, minnið. Þarna hefur Óðinn Jónsson setið uppi í útvarpshúsi og munað það að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði rekist á þennan leiðtoga spánskra sósíalista, Zapatero heitir hann víst, einu sinni á Benidorm. Og Óðinn sem allt man, hann man líka símanúmerið hjá Ingibjörgu úti í London. Og hringdi strax og píndi Ingibjörgu til að segja nokkur orð um þennan Zapatero, og þá kom í ljós að hann er svona „umræðustjórnmálamaður“. Það er ekki ónýtt að hafa þennan Óðin í útvarpinu til að þefa upp svona merkilega hluti og ekki síður til að fá Ingibjörgu Sólrúnu til að opna sig með þessum hætti, en hvort tveggja er mikil list.
Nema auðvitað að þetta hafi verið á hinn veginn. Að Ingibjörg Sólrún hafi hringt í Óðin og beðið um símtal. Þá fer nú mesti glansinn af þeim báðum.
Talandi um kosningarnar á Spáni. Nú getur hverjum og einum fundist það sem hann vill um spönsk innanríkismál. En að töluverður hópur manna hafi farið, þremur dögum eftir mannskæð hryðjuverk, og kosið eins og hryðjuverkamennirnir báðu um, það er hvorki meira né minna en óhugnanlegt. Menn geta alveg reynt að búa til einhverjar skýringar en þær verða aldrei annað en vangaveltur um aukaatriði. Það sem máli skiptir er að hryðjuverkamönnum eru send þau skilaboð sem þeir munu ekki misskilja. Skoðanakannanir, alveg fram að árásinni, höfðu sýnt að Lýðflokksmenn myndu sigra. Þeir höfðu einnig farið vel úr síðustu sveitarstjórnarkosningum, sem fóru fram eftir Íraksstríð, svo það var ekki innrásarákvörðunin í fyrra sem réði hér úrslitum. Frá sjónarhóli hryðjuverkamannanna hafa það að minnsta kosti verið sprengjurnar á járnbrautarstöðvunum sem öllu skiptu. Og svo kemur Zapatero – umræðustjórnmálamaðurinn – og tilkynnir að hann verði handfljótur að draga spánska herinn frá Írak. Ja það borgar sig aldeilis ekki að sprengja á Spáni!
Vitanlega er það rétt að Zapatero þessi segist jafnan hafa verið andvígur því að Saddam Hussein yrði beittur valdi og auðvitað getur hann spurt hvort menn ætlist til að hann skipti um skoðun bara til að láta ekki undan terroristum. Það eru ekki vitlausari sjónarmið en mörg önnur. En ef menn átta sig ekki á því hvílíkt lífsspursmál það er að senda ekki út þau boð að Evrópubúar muni jafnan hopa ef einhver beitir þá hörðu, muni aldrei taka erfiðar ákvarðanir án blessunar gallups – þá skilja þeir fátt. En vitanlega er það liðið sem mætti á sunnudaginn og skipti um skoðun eftir vilja sprengjumanna sem er verst. Jú og kannski þeir sem sitja í öðrum löndum og fagna. Eins og áður sagði, menn geta haft hvaða skoðun sem er á spönskum innanríkismálum. En eftir hryðjuverkaárás, þremur dögum fyrir kosningar, þá er ósigur spönsku stjórnarinnar ekki fagnaðarefni fyrir neinn sem ekki fagnar hryðjuverkum í vestrænum stórborgum.
Og eftir þetta, af hverju ættu menn eins og þeir sem sprengdu í Madrid ekki að snúa sér að til dæmis Lundúnum næst? Þeir sem ekki eru með öllu blindir hljóta að sjá að það liggur beint við. Hryðjuverkamenn munu algerlega örugglega snúa sér að almennum borgurum Lundúna; það eina sem menn vita ekki er hvort og þá hve lengi Lestrade og félögum hjá Scotland Yard tekst að hindra þá.