Þriðjudagur 16. mars 2004

76. tbl. 8. árg.

Ein spurning: Af hverju þrástagaðist fréttastofa RÚV á því í gærkvöldi að Ólafur Ragnar Grímsson hefði á blaðamannafundi fyrr um daginn „formlega lýst yfir framboði til embættis forseta Íslands“? Halda fréttamennirnir í raun að menn gefi formlegar yfirlýsingar á blaðamannafundum? Og fari í framboð á blaðamannafundi? Framboð eru formlega tilkynnt þegar yfirvöldum er afhent yfirlýsing forsetaefnis og meðmælenda þess. Það er ekkert formlegt við blaðamannafundi og alls ekki þá sem Ólafur Ragnar Grímsson efnir til. En þegar minnst er á Ólaf Ragnar og blaðamannafundi þá hverfur líklega hugur margra nokkur ár aftur í tímann, þegar alnafni núverandi sameiningartákns þjóðarinnar var fjármálaráðherra við blendnar undirtektir. Þá voru blaðamannafundir daglegt brauð í fjármálaráðuneytinu og fréttamenn látlaust að senda út yfirlýsingar og heitstrengingar fjármálaráðherrans um allskyns mál að ógleymdum árásum hans á hina og þessa. Það er aldeilis fagnaðarefni eða hitt þó heldur, ef sá stíll á að fara að ríkja á Bessastöðum á næstunni. Eða boðaði hann ekki stórfellda aukningu blaðamannafunda á næstunni? Já og talandi um Bessastaði, af hverju gerir enginn fjölmiðlamaður athugasemd við það að einstaklingurinn Ólafur Ragnar Grímsson hefji kosningabaráttu sína af opinberu forsetasetri lýðveldisins? Ekki það að Vefþjóðviljanum sé ekki sama, en þetta væri dæmigert hasarefni fjölmiðlamanna ef einhver annar ætti í hlut.

Já og muna menn þegar Ólafur Ragnar sóttist fyrst eftir kjöri til embættis forseta Íslands? Þá var nú aldeilis talað um það að forsetinn ætti ekki að standa í því að tjá sig um þjóðfélagsmál. Ótrúlegustu menn kusu Ólaf Ragnar og höfðu á orði að þeir hefðu minna en ekkert álit á skoðunum hans á þjóðmálum en væru einfaldlega að styðja hann og þáverandi eiginkonu hans til að koma fram fyrir landsins hönd. Einhverjir reyndu að benda á að þegar Ólafur væri kominn í embættið myndi hann að fáum árum liðnum reyna að nýta það til framdráttar skoðunum sínum með sérstakri þátttöku forsetans í þjóðfélagsumræðum. Það þótti nú ekki lítill kaldastríðsáróður. Auðvitað myndi Ólafur Ragnar ekki sæta færis að breyta eðli forsetaembættisins. – Nei auðvitað ekki. Hann? Að misnota forsetaembættið? Ólafur Ragnar Grímsson? Aldrei.

Á blaðamannafundi sínum í gær fullyrti Ólafur Ragnar Grímsson að auðvitað hefði forsetaembættið mikil völd og þyrfti ekki annað en að lesa stjórnarskrána til að sannfærast um það. Og undir þessu sat fjöldi andaktugra blaðamanna og enginn hafði sig í að spyrja Ólaf Ragnar þá til dæmis um það hvernig ráðherraembættum yrði ráðstafað um miðjan september. Eins og Vefþjóðviljinn rakti á dögunum, þá segir stjórnarskráin að „forsetinn“ skipti störfum ráðherra og ef Ólafur Ragnar trúir því í raun að það sé hann sjálfur – persónulega – sem stjórnarskráin á við þegar hún talar um „forsetann“, þá hlýtur hann að vera að búin að gera að minnsta kosti fyrstu drög að nýrri ráðherraskipan. Hann hlýtur að telja „forsetann“ – sjálfan sig – hafa þessi völd. Rétt eins og það er „forsetinn“ sem gerir samninga við erlend ríki, leggur fram lagafrumvörp, staðfestir þau að lokinni meðferð Alþingis og færir embættismenn milli starfa. Öll þessi völd eru víst í greipum Ólafs Ragnars – miðað við málflutning hans og þögn blaðamannanna í gær – svo eitthvað hafa þeir hlaupið á sig, allir þeir blessaðir menn sem árið 1996 töldu sig vera að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson fyrrverandi fjármálaráðherra til valdalauss sameiningarembættis.

Og í gær fullyrti Ólafur Ragnar auk þess – og líka við lotningarfulla þögn blaðamanna sem virtust komnir á Bessastaði til þess eins að taka glósur – að einhverjir menn hefðu „skotleyfi“ á forsetann. Við þessa furðulegu yfirlýsingu vakna tvær spurningar. Sú fyrri er: Hverjir eru eiginlega þessir menn? Hinnar síðari verður ekki spurt hér og nú.