Mánudagur 15. mars 2004

75. tbl. 8. árg.

Á

Nú er svo komið að það er minnihluti pilta sem leggur á þyrnum stráða braut loftskeytamannsins.

síðustu árum hefur heldur fækkað í mörgum góðum starfstéttum. Þannig eru sífellt færri sótarar á götum borgarinnar, loftskeytamönnum hefur fækkað töluvert og vitavörðum sömuleiðis. Lyftuverðir eru að verða undantekning en ekki regla í háhýsum. Smalatalið hefur ekki verið endurútgefið í fjölmörg ár. Jafnt og þétt fjölgar þeim bensínstöðvum þar sem kaupandinn afgreiðir sig sjálfur en hefðbundnir bensíndælumenn eru hvergi sjáanlegir.

Jájá, og hvað? Hvaða þrugl er þetta með sótara og lyftuverði? Smalatalið hvað? Ja það var eiginlega það síðasta í upptalningunni sem Vefþjóðviljinn ætlaði að minnast á, þó blaðið hafi auðvitað gleymt sér í þvaðri áður en að því kom. Bensínafgreiðslumönnum fækkar hratt, viðskiptavinurinn dælir sjálfur og fær afslátt í staðinn, það var það sem stóð til að nefna. Jájá, komdu þér að efninu, blaðsandskoti. Já fyrirgefiði, gott og vel já, það var þetta með þá á bensínstöðvunum, þeir hafa misst vinnuna einn af öðrum karlarnir. Kúnninn vill fremur frá afslátt, tvær þrjár krónur á lítrann, en að fá dælt á bílinn. Þannig „fækkar störfum“ á bensínstöðvunum.

Og svo að Vefþjóðviljinn komi sér nú að efninu, þá er rétt að blaðið spyrji: hver kannast ekki við sönginn um „samfélagslega ábyrgð fyrirtækja“ þegar forsvarsmenn fyrirtækis fá nóg af einhverjum taprekstri og vilja loka til dæmis verksmiðju eða fiskverkun sem ekki ber sig? Ætla kannski að sameina tvö vonlítil fyrirtæki í þeim tilgangi að úr verði eitt fyrirtæki sem á þó von? Verður þá ekki allt vitlaust? Upphefst þá ekki mikill söngur um að menn verði að „átta sig á samfélagslegri ábyrgð sinni“? Tekur ekki til máls hópur manna sem virðist álíta að eigendum þessara fyrirtækja beri að greiða úr eigin vasa – eða vösum fyrirtækja sinna – kostnaðinn af að halda úti vonlítilli starfsemi, eða starfsemi sem ekki skilar eins miklum ágóða og önnur, vegna þess að einhverjir hafa atvinnu af henni?

En hvað með þá sem fara frekar á sjálfsafgreiðslustöð en stöð þar sem vingjarnlegur eldri maður dælir á bílinn? Ætli þeir beri samfélagslega ábyrgð? Ætli þeir hafi einhvern tíma hugsað með hneykslun um peningapúkann í stórfyrirtækinu, þennan sem einn daginn lokaði fiskverkuninni sinni, bara af því að hann „græddi ekki nóg“ á henni – tapaði kannski milljón á dag – og skildi bara alls ekki samfélagslega ábyrgð sína? Ætli frasinn um „samfélagslega ábyrgð“ eigi bara við um stórfyrirtæki en ekki venjulegt fólk? Nú má auðvitað vel vera að þeir sem dæla sjálfir á bílinn séu ekkert í því að hneykslast á öðrum sem fara vilja vel með peningana sína. Að minnsta kosti væri hálf óviðkunnanlegt ef sjálfdælarar héldu miklar ræður um samfélagslega ábyrgð annarra. Þeir sem telja að eigendum fyrirtækja sé skylt að fjármagna vonlitla starfsemi svo að einhverjir aðrir geti unnið við hana, þeir ættu aldrei að dæla sjálfir á bílinn. Eiginlega ættu þeir aldrei að vera á eigin bíl. Hvar er eiginlega samfélagsábyrgðarkennd þessa fólks gagnvart leigubílstjórum?