Helgarsprokið 14. mars 2004

74. tbl. 8. árg.

Í

José María Aznar López yfirgefur spænska þingsalinn í síðasta sinn.

dag fara fram almennar þingkosningar á Spáni og það þótt kosningabaráttan hafi fengið skyndilegan endi við hryðjuverkin á fimmtudaginn. Það hefur legið formlega fyrir í um það bil ár að eftir þessar kosningar myndi einhver annar en José María Aznar, núverandi forsætisráðherra, leiða ríkisstjórnina. Ekki af því að flokki hans Þjóðarflokknum væri spáð slæmu gengi heldur vegna þess að hann tók ákvörðun um það fyrir löngu að hann myndi ekki gefa kost á sér í þriðja sinn í það hlutverk. Þessum forsætisráðherra Spánar hefur stundum verið lýst sem litlausum stjórnmálamanni að minnsta kosti á spænskan mælikvarða og lítt til stórræðanna. Það blasir þó ekki við þegar litið er yfir stjórnmálaferil hans, upphaf hans og endi. Þvert á móti mætti draga þá ályktun við þá skoðun að sem stjórnmálamaður hafi Aznar haft mjög mótaðar skoðanir og staðið fast á sínu og án þess að styðjast við skoðanakannanir um málefni líðandi stunda.

Aznar hóf fyrst þátttöku af stjórnmálum árið 1979 þegar hann gekk til liðs við Alianza Popular, stjórnmálaaflsins sem Galisíumaðurinn Manuel Fraga, fyrrverandi ráðherra Francos, stofnaði árið 1978. Árið 1982 komst Aznar svo á þing fyrir flokkinn sem seinna varð að Þjóðarflokknum, Partido Popular. Hann varð svo forsætisráðherraefni Þjóðarflokksins í kosningum árið 1989 en laut í lægra haldi fyrir Felipe González og félögum í Sósíalíska verkamannaflokknum, PSOE. Fáum hefði kannski þótt óeðlilegt þó að í framhaldi þess kosningaósigurs hefði Aznar vikið úr forystusveit flokksins. Það fannst honum að minnsta kosti sjálfum því hann kynnti strax afsögn sína sem formaður. Það vildu samflokksmenn hans þó ekki heyra minnst á og frægt er orðið hvernig Manuel Fraga reif afsagnarbréf Aznars á opinberum vettvangi. Aznar sat því sem fastast með dyggum stuðningi stofnanda flokksins, öldungsins frá Galisíu, og leiddi stjórnarandstöðuna í nokkur ár. Hann varð skotmark aðskilnaðarhreyfingar Baska, ETA, sem sýndi honum banatilræði árið 1995 og hefði það ekki átt að koma á óvart enda hafa hryðjuverkasamtökin ETA lagt sérstaka áherslu á að herja á unga, og sérstaklega upprennandi stjórnmálamenn.

„Í bókinni varar hann við þeirri leið sem sósíalistar höfðu valið til að fjármagna velferðarkerfið, með síaukinni skattheimtu á atvinnulífið. Um leið óx atvinnuleysi á Spáni að sama skapi og varð með því mesta sem þekktist í Evrópu.“

Það var svo árið 1996 sem Aznar og félagar báru sigur út býtum í almennum þingkosningum. Ekki náði PP þó hreinum meirihluta og þurfti því að byggja ríkisstjórnina á stuðningi frá þjóðernissinnuðum Katalónum. Sem er athyglisvert í ljósi þess að Aznar er stundum legið á hálsi fyrir að vera lítill þjóðernissinni. Í þingkosningum árið 2000 nær PP svo hreinum meirihluta. Fylgi PP hefur því vaxið jafnt og stöðugt undir forystu Aznars á meðan fylgi PSOE hefur dalað jafnt og þétt, og það þó hins vinsæla Felipe González hafi notið við.

Aznar er fæddur í Madrid árið 1953. Hann lærði lögfræði og starfaði við skattheimtu þar til hann hóf afskipti af stjórnmálum. Skattamál eru einmitt meðal umfjöllunarefna í bók sem hann gaf út árið 1994, España – La segunda transición (Spánn – Seinni breytingin) en með titlinum vísar hann til þess breytingaskeiðs sem hófst árið 1977 (La transición) og kallar eftir öðru breytingaskeiði. Í bókinni varar hann við þeirri leið sem sósíalistar höfðu valið til að fjármagna velferðarkerfið, með síaukinni skattheimtu á atvinnulífið. Um leið óx atvinnuleysi á Spáni að sama skapi og varð með því mesta sem þekktist í Evrópu. Að mati Aznars hlaut það að vera einna brýnast í umbótum á spænsku efnahagslífi að bregðast við þessu og laga skattkerfið að þörfum atvinnulífsins og þar með launþega. Hann hvatti til hóflegrar, gagnsærrar og einfaldrar skattheimtu. Árið 1994 þurfti enginn að velkjast í vafa um afstöðu Aznars til skattamála. Í bókinni fjallar hann einnig um nauðsyn þess að koma ríkisrekstrinum í hendur einkaaðila og um vanda lífeyrissjóðakerfisins sem hann leggur til að sé leystur með auknu valfrelsi launþega. Þegar litið er yfir átta ára stjórnartíð PP liggur alveg ljóst fyrir að margt af því sem Aznar lagði til í bók sinni árið 1994 hefur náð fram að ganga.

Í ljósi hryðjuverkanna í vikunni er rétt að nefna hér vangaveltur Aznars um þjóðernishyggju Spánverja. Hann hefur oft verið gagnrýndur fyrir að taka ekki undir málstað þjóðernissinna í norðurhéruðum Spánar. Aznar tekur fram í fyrrnefndri bók sinni að á Spáni búi vissulega fjöltyngd þjóð og að á Spáni sé vissulega margvísleg menning. Gjarnan er í þessum efnum litið til Katalóníu, Galisíu, Baskalands og Kastilíu en Aznar bendir á að jafnvel innan þessara héraða sé einnig að finna margvíslega menningu og því sé erfitt að ætla að aðgreina þjóðir Spánar einungis eftir þeim fjórum tungumálum sem þar eru töluð. Reyndar má jafnvel innan eins málsvæðis á Spáni finna nokkur afbrigði af því tungumáli sem þar er talað svo það væri að æra óstöðugan að ætla að nota tungumálið sem mælikvarða í þjóðernislegum tilgangi. Aznar taldi, og hefur alltaf talið, heillavænlegast að landamæri Spánar séu mörkuð af sögulegri arfleið. Aznar hafnaði hugmyndum um fjölmenningu Spánar í þeim skilningi að hún leiddi til aðskilnaðar menningarinnar en fagnaði hugmyndinni um fjölmenningu Spánar sem þátt í umburðarlyndi til góðs fyrir alla Spánverja. Strax árið 1996 tilkynnti Aznar að hann myndi ekki sitja sem forsætisráðherra lengur en tvö kjörtímabil. Hann víkur því eftir kosningarnar í dag sem eru þær níundu eftir fráfall Francos. Ekkert hefur komið fram um hvað hann muni taka sér fyrir hendur en fjölskylda hans hefur ekki sagt skilið við stjórnmálin því eiginkona hans, Ana Botella, er þegar í framvarðasveit PP og hyggur á frekari störf á þeim vettvangi. Aznar hefur hins vegar markað sér sess í sögu Spánar sem einn athyglisverðasti stjórnmálaleiðtogi þjóðarinnar.