T he Economist velti því upp í síðustu viku hvort að jöfnuður hefði aukist eða minnkað í heiminum og er tilefnið algengar vangaveltur um þetta álitamál, sérstaklega vegna alþjóðavæðingarinnar svokölluðu. Það er með þetta álitamál eins og svo mörg önnur að með góðum vilja má komast að svo að segja hvaða niðurstöðu sem er. Misvísandi hagtölur og margvíslegir möguleikar á samanburði gera þetta að verkum í þessu máli eins og í svo mörgum öðrum þar sem túlka þarf misjafnlega áreiðanlegar hagtölur. Þetta felur þó ekki í sér að þegar málið er skoðað af sanngirni megi ekki draga nokkra ályktun og að allt sé jafn rétt eða rangt eða jafnvel að engin leið sé að segja neitt um málið. Þegar litið er á kjör allra einstaklinga í heiminum, en ekki meðalkjör ólíkra ríkja sem eru eins og kunnugt er af afar ólíkri stærð, er engum blöðum um það að fletta að jöfnuður hefur aukist. Eða með öðrum orðum, fyrir þá sem kunna betur við þá framsetningu, að ójöfnuður hefur minnkað. Annað sem ekki skiptir síður máli er að þeim sem búa við lökustu kjörin, sem yfirleitt eru skilgreindir sem sá hópur sem lifir á innan við einum Bandaríkjadal á dag, hefur fækkað. Þeim hefur fækkað hlutfallslega án tillits til þess mælikvarða sem notaður er og einstaklingum sem lifa við þessi bágu kjör hefur einnig fækkað – og þá er ekki átt við hlutfallslega – þrátt fyrir fjölgun jarðarbúa. The Economist segir að opinberar tölur Alþjóðabankans, sem Sameinuðu þjóðirnar og aðrar stofnanir noti, bregði upp of neikvæðri mynd af ástandinu, en jafnvel tölur Alþjóðabankans sýna ekki fjölgun í þessum fátækasta hópi og raunar hlutfallslega fækkun þegar litið er til þess að jarðarbúum hefur fjölgað.
|
Ógæfa Afríku sunnan Sahara er ekki alþjóðavæðingin, heldur skortur á alþjóðavæðingu. |
Eins og The Economist bendir einnig á er hæpið, jafnvel þó að menn vilji trúa neikvæðustu tölunum, að kenna alþjóðavæðingunni um. Þau lönd sem draga meðaltalið niður eru nefnilega einmitt þau lönd sem ekki hafa tekið þátt í alþjóðavæðingunni. Þetta eru aðallega löndin sunnan Sahara, en slæmt stjórnarfar árum og áratugum saman er helsta ógæfa þessara landa. Fjöldi annarra ríkja, sem var mjög aftarlega á merinni fyrir fáeinum áratugum, hefur síðan bætt stöðu sína mikið og íbúarnir þar hafa komist í álnir. Þessi ríki, sem mörg eru í Suðaustur-Asíu, hafa ólíkt ríkjunum sunnan Sahara, nýtt sér alþjóðavæðinguna. Þau hafa opnað fyrir alþjóðleg viðskipti og njóta ávaxtanna af þeirri ákvörðun.
Hitt er svo annað mál hvort að umræðan um jöfnuð manna í heiminum skiptir miklu máli eða ekki. Er ástæða til að einblína á jöfnuð, eins og oft er gert í opinberri umræðu, eða er annar mælikvarði skynsamlegri? Ef valið stæði á milli þess að allir yrðu ríkari, en þeir sem væru ríkari fyrir yrðu ríkari hraðar en aðrir, eða að allir yrðu jafnari, en ekki ríkari að meðaltali, hvorn kostinn ætti að velja? Miðað við umræðuna virðast sumir hallast að því að síðari kosturinn væri betri, en það er vitaskuld fjarstæða. Meginmarkmiðið hlýtur að vera að hagur allra batni og markmiðið um jöfnuðinn hlýtur í besta falli að lenda í öðru sæti, jafnvel hjá þeim sem telja jöfnuðinn sérstakan kost í sjálfum sér. Þar sem það virðist vefjast fyrir sumum að taka skynsamlega afstöðu til þessa álitamáls er þó kostur að ekki þarf að taka afstöðu. Staðreyndin er nefnilega sú, eins og áður segir, að með auknum viðskiptum milli landa – aukinni alþjóðavæðingu – hafa jarðarbúar bæði orðið ríkari og jafnari.