Þriðjudagur 2. mars 2004

62. tbl. 8. árg.

N

Greiðslukort auðvelda ekki bara viðskipti við ókunnugt fólk heldur koma þau í veg fyrir að ókunnugir geti kynnst manni nánar en maður kærir sig um.

eytendafrömuðir hafa eðlilega miklar áhyggjur af því að neytendur fari sér að voða. Það er þeirra vinna. Nú hafa þeir til dæmis lýst yfir nokkrum áhyggjum af nýju greiðslukorti. Þeir telja að með því geti menn óvart gert einkalíf sitt að verslunarvöru.

Einn af kostum hins nýja korts er að notendum þess er boðið að bankinn vinni úr þeim upplýsingum sem kortanotkunin gefur af sér og sendi mönnum ýmis tilboð sem ætla má að þeir hefðu áhuga á að gefnum þessum upplýsingum og öðrum grunnupplýsingum um viðkomandi.

Þannig má gera ráð fyrir því að manni, sem sífellt er að kaupa plöntur, pallaefni, viðarvörn og óhemju magn af bensíni, gæti þótt vænt um að fá tilboð um fleira sem tengist sumarbústaðnum en síður um þriggja vikna ferð á Benidorm. Konu hans sem straujar kortið daglega í snyrtivöru- og fataverslunum þætti án efa gaman að því að fá tilkynningu um sérkjör á fatnaði og fegrunarkremum en ekkert frekar bæklinga frá byggingavöruverslunum.

Það er því ekki annað að sjá en að báðir geti haft nokkurt gagn að þessu fyrirkomulagi. Þó ekki væri nema það að fyrirtækin senda minni ruslpóst og notendur fá minna af óvelkomnum tilkynningum. Það er auðvitað undir hverjum og einum komið hvort hann vill að unnið sé úr þessum upplýsingum þótt þeir sem taugaveiklaðastir eru yfir þessu telji hinn almenna mann vart kunna fótum sínum forráð í þessum málum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn vara við greiðslukortum. Það er löng hefð fyrir því að varað sé við notkun þeirra vegna „persónuverndar“. Ljót samviskulaus fyrirtæki muni misnota upplýsingarnar, samkeyra þær við aðrar upplýsingar og á endanum verður ekkert einkalíf til. Kortunum til málsbóta má þó benda á korthafar geta nú orðið hringt hvaðan sem er hvert sem er og keypt næstum hvað sem er með því einu að gefa upp sextán stafa talnarunu og nafn kortafyrirtækisins. Greiðslukortin eru þannig einhver besta persónuvörnin í sögu verslunar. Fyrrnefndur sumarbústaðaeigandi getur þannig án frekari málalenginga hringt í Leyndardóm Viktoríu í Ameríku og pantað sér korselett og dansað íklæddur því í skjóli runna um fúavarinn sumarbústaðapallinn. Að vísu þarf hann að gera grein fyrir málinu í íslenska „tollinum“ en það er ekki einkalífsátroðningur sem kortafyrirtækin bera ábyrgð á heldur ríkisvaldið sem rekur sérstaka stofnun í nafni persónuverndar.