Mánudagur 1. mars 2004

61. tbl. 8. árg.
Verði bjórfrumvarpið samþykkt erum við Íslendingar að gera öðruvísi en allar aðrar þjóðir sem vilja færa sig nær betra mannlífi, betra umhverfi.
 – Karl Steinar Guðnason, þáverandi þingmaður Alþýðuflokksins, nú forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, í umræðum á Alþingi.

Þ

Það er ekki nóg með að fólk verði „óvirkt og sljótt“ af því að drekka bjór. Jafnvel snyrtilegustu menn verða allir útslettir á eftir.

eir stjórnlyndu verða ekki alltaf ofan á. Í dag eru fimmtán ár liðin frá því afnumið var bann við bruggun og sölu áfengs bjórs á Íslandi og forræðishyggjunni þar með greitt svolítið högg. En sú barátta hafði tekið tímann sinn eins og margir muna væntanlega enn, þó hinir yngstu átti sig kannski ekki á því umhugsunarlaust. Þó hinir og þessir stjórnmálamenn tali stundum fjálglega um nútímann og frelsið þá er það oft svo að það er bara tal. Þegar til á að taka þá er það stjórnlyndið og forræðishyggjan sem ræður enda er hugsunarháttur vinstrimanna iðulega óbreyttur þó ímyndarsmiðir hafi breytt orðaforðanum.

 

Ég hef ævinlega reynt að leggjast gegn því að menn fjölluðu um þetta mál í svarthvítum litum. Hlypu ofan í skotgrafirnar og væru annað hvort 100 % með eða 100 % á móti. … Fyrir mér hefur þetta mál tvær hliðar, eins og öll önnur. Aðra slæma og hina sem er ekki eins slæm.
– Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Alþýðubandalagsins, síðar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, við umræður á Alþingi.

Ein slæm og önnur ekki alveg eins slæm, já. En engin góð. Nei þessi mæti þingmaður sá nú ekki margt gott við þá hugmynd að borgararnir fengju sjálfir að ráða því hvort þeir fengju sér eins og einn bjór. Betra að stjórnmálamenn banni það bara. Og ef einhver heldur að Steingrímur J. Sigfússon hafi sagt þetta bara svona út í loftið að vanhugsuðu máli, þá var það nú ekki svo. Að baki var mikil hugsun leiðtogans:

Ég hef til viðbótar pólitískar ástæður fyrir því að ég vil ekki standa að breytingum í áfengismálum né annars staðar sem gera fólkið óvirkara og sljórra gagnvart umhverfi sínu. Það tel ég að stóraukin neysla bjórs, jafnvel þó að eitthvað dragi úr neyslu annarra áfengistegunda, mundi gera.

Og nú er rétt að taka fram að hér talar virðulegur alþingismaður og væntanlega í fullri alvöru. Fyrir utan hefðbundna forræðishyggju þá hafði hann „til viðbótar“ þá skoðun sína að ef fólk fengi að drekka bjór þá yrði það „óvirkara og sljórra gagnvart umhverfi sínu“. Já og jafnvel þó fólk drykki minna af öðru, bara ef fólk fær bjór þá verður það óvirkt og sljótt gagnvart umhverfi sínu. Og þess vegna vildi þingmaðurinn ekki leyfa fólki að fá bjór. Hvað ætli fylgismönnum hans þyki um þessa kenningu leiðtoga síns? Sennilega leiða þeir ekki einu sinni hugann að henni, þegar þeir setjast niður til að ræða landsins ógagn og nauðsynjaleysi yfir bjórglasi.

Á þessum tíma var Svavar Gestsson þingmaður Alþýðubandalagsins, varð síðar Samfylkingarmaður og styður vonandi vinstrigræna í dag. Hann var ekki mikið bjartsýnni en félagar hans og spurði:

Hvernig ætla þeir að verja unga fólkið í þessu landi fyrir þeirri öldu, flóðbylgju af áfengu öli sem skellur hér yfir ef þessi lög verða samþykkt? Ég skora á þá að gera grein fyrir því og láta þjóðina vita. Þeir hljóta að hafa ráð undir rifi hverju.

Einu sinni var til stjórnmálaflokkur sem nefndist Samtök um Kvennalista og síðar rann inn í það sem nú er kallað Samfylking og verður síðar kallað eitthvað enn annað. Þingmenn Kvennalistans voru yfirleitt eins og aðrir á vinstri vængnum fremur áhugalitlir um frelsi borgaranna og um frjálsa bjórsölu hafði Guðrún Agnarsdóttir meðal annars þetta að segja:

Það kunna að koma þeir tímar og þær staðreyndir byggðar á reynslu að réttlætanlegt sé að bæta við það úrval áfengis sem á boðstólum er. En ég get ekki sannfærst um að þetta sé kappsmál kvenna og barna, en hingað kom ég sem málsvari þeirra. Þess vegna mun ég ekki styðja þetta mál.

Strákar mínir! Þetta er ekki kappsmál kvenna og barna og þá er það bara svoleiðis. Hvernig sem þingmönnum Kvennalistans hefur nú gengið að styðja ekki önnur mál en þau sem sýnt hafði verið fram að á væru „kappsmál kvenna og barna“. En ef menn halda að þetta hafi verið óvæntustu rökin gegn því að leyfa fólki að kaupa sér bjór þá er rétt að ljúka þessari upprifjun á röksemdafærslu Margrétar Frímannsdóttur, núverandi þingflokksformanns Samfylkingarinnar, sem sló öll vopn úr höndum andstæðinga sinna með einföldum hætti:

Ég er móðir tveggja unglinga og segi þess vegna nei.