H ver hefði haldið að auglýsing á þvottaefni gæti hugsanlega orðið til þess að Ríkisútvarpið gerði um hana frétt á þeim forsendum að hún kynni að stangast á við jafnréttislög? Ja, líklega hefði enginn haldið að þetta væri möguleiki, nema ef vera kynni sá sem vissi að til er „staðalímyndarhópur Femínistafélagsins“ og að sá hópur hefur sérstaka „ráðskonu“. Þeir sem búa yfir upplýsingum um staðalímyndarhópinn og ráðskonuna, þeir eru líklegir til að láta ekki hvað sem er koma sér á óvart. Nú, hvað um það, í gær gerðist það að ríkið sendi undir kvöld út frétt þess efnis, að ráðskona staðalímyndarhóps Femínistafélagsins teldi að auglýsandi, sem sendi konum þvottaefni í pósti, kunni að hafa brotið jafnréttislög. Glæpurinn mun vera sá að flestar konur á aldrinum 25-33 ára, hafi undanfarið fengið senda prufu af þvottaefni. „Athygli vekur, að eingöngu konur fá þvottefnið sent,“ sagði í fréttinni. Nú er svo sem ekki ljóst hvort þetta vakti athygli annarra en ráðskonunnar, en það má út af fyrir sig segja að það sem hún taki eftir hafi vakið athygli. Og það er svo sem ekki óheimilt fyrir fréttastofu að gera frétt um þetta mál, en það hlýtur annaðhvort að vera afskaplega fátt raunverulegt í fréttum eða afskaplega mikill vilji til að segja frá sjónarmiðum Femínistafélagsins úr því að þessi frétt var bæði gerð og send í loftið.
Ráðskonan vísaði máli sínu til stuðnings til 18. greinar jafnréttislaga, en þar segir: „Auglýsandi, og sá sem hannar eða birtir auglýsingu, skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.“ Ráðskonan taldi koma til greina að sending á þvottaefni til kvenna á ákveðnum aldri stríddi gegn þessari lagagrein, en eins og fulltrúi auglýsingastofu benti á í samtali við fréttamann, þá felst engin niðurlæging í því fyrir karlmenn að fá ekki þvottaefnið sent. Auglýsandinn mat það einfaldlega svo að konur væru líklegri til að taka ákvörðun um kaup á þessari neysluvöru en karlmenn. Og ef út í það er farið þá var konum ekki heldur sýnd niðurlæging með því að senda þeim þessa vöru. Þetta var vitaskuld ekkert annað en hefðbundinn markpóstur, sendur þeim sem auglýsandinn telur líklegast að muni kaupa vöruna. Slíkur póstur getur verið hvimleiður, áhugaverður eða hvorugt, allt eftir því hvernig hver og einn er gerður, en sending hans getur tæplega talist glæpastarfsemi.
Það athyglisverða í þessu máli er ekki markpóstur til kvenna, heldur sú staðreynd að inn í jafnréttislögin skuli hafa slæðst jafn vitlaus grein og sú 18. augljóslega er. Vitaskuld er það áhyggjuefni, að minnsta kosti fyrir þá sem vilja hafa afskiptasemi löggjafans sem hóflegasta, að Alþingi skuli samþykkja slík lög. Ákvæði um auglýsingar eiga ekkert erindi inn í jafnréttislög, og það sem meira er, jafnréttislög eiga ekkert erindi inn í lagasafnið. Það eiga allir að vera jafnir gagnvart lögum, en jafnréttislög hafa allt annan tilgang. Þau eru til þess gerð að troða viðhorfum sumra upp á aðra.