F
Einn af svonefndum „fulltrúum almennings“ upplýsti á forsíðu sinni að morð hefði verið framið, skotsár væru á líkinu og morðinginn gengi laus. |
jölmiðlamenn eru ekki hressir með lögregluna í Neskaupstað. Og ekki með þá hjá ríkislögreglustjóra heldur, en það er svo sem ekki að marka, þeir eru það aldrei. En það er nýtt að fjölmiðlamenn eyði næstum heilum degi í að agnúast út í eitt lögregluembætti úti á landi. Og skýringin auðvitað tengd líksfundinum í Neskaupstaðarhöfn á dögunum. En það sem fjölmiðlamenn eru óánægðir með er ekki það að ekki sé búið að upplýsa málið og finna þá sem komu líkinu fyrir í höfninni. Neinei, það er ekki málið heldur það að lögreglan er ekki alltaf viðlátin þegar fjölmiðlamenn hringja. Það er ekki búið að halda nógu marga blaðamannafundi. Það er ekki sérstakur lögreglumaður bara í því að tala við fréttamenn. Lögreglan lætur bara eins og hún geti einbeitt sér að því að leysa málið í stað þess að sitja fyrir svörum um málið. „Á almenningur ekki rétt á að vita hvort morðingi gengur laus?“ spurði ævareiður fréttamaður í gær og virtist halda að lögreglan hafi allan tímann vitað allt sem hægt var að vita um málið en bara ekki viljað segja frá því. Og jafnvel þó hægt hefði verið að segja fyrr það sem sagt var á blaðamannafundi í gær og sjónvarpað var, hvað hefði „almenningur“ þá gert? Læst að sér í húsum sínum? Hvað var það í rannsókn málsins sem „almenningur“ átti slíka heimtingu á að fá skýrslu um þegar í stað að lögreglan átti að boða til blaðamannafundar?
Það var sjálfsagt ekki neitt. Ekkert af því sem fram kom í gær var þess eðlis að aðra en lögregluna varðaði um það. Það er ekki eins og lögreglan hafi lýsingu á mönnum sem fólk ætti að vara sig á eða svipast um eftir. Fólki liggur ekkert á að vita hversu mörg grömm af fíkniefnum fundust í manninum eða hvernig lík hans var farið. Hugsanlega má segja að ef teikningu af honum hefði verið dreift fyrr þá hefði það getað skilað einhverjum vísbendingum en „almenningur“ á enga heimtingu á slíkum myndasýningum og vitanlega verður lögreglan að hafa töluvert frelsi til að ákveða, í ljósi rannsóknarinnar hverju sinni, hvað hún segir og hvað ekki. Æsingur fréttamanna í gær virðist ekki í nokkru samhengi við eðli málsins heldur fremur til marks um óþolinmæði þeirra sem vilja láta allt fyrir sig gera, vilja fá allt upp í hendurnar og telja sig yfir aðra setta.
Sem þeir eru bara alls ekki. Má ekki nota þetta tækifæri til að minna á annað atriði og tengist hátíðleikasvipnum sem sumir fjölmiðlamenn setja gjarnan upp þegar einhver lætur eins og þeir séu ekki það merkilegasta í veröldinni. Fjölmiðlar eru ekki fulltrúar „almennings“ og hafa ekkert umboð frá honum. Að minnsta kosti er fráleitt að einkareknir fjölmiðlar hafi nokkurt slíkt umboð og varla aðrir heldur. Fjölmiðlar eru einfaldlega fyrirtæki sem haldið er úti af einhverjum hvötum, hvort sem þær eru að afla eigendunum fjár, áhrifa eða annars. Fjölmiðlafyrirtæki er einfaldlega fyrirtæki eins og önnur og hafa ekkert opinbert umboð til nokkurs hlutar. Þó einhver fjöldi fólks fylgist með fjölmiðlinum þá veitir það honum ekkert umboð heldur. Og áhugi á einhverju máli veitir heldur engan rétt til upplýsinga um það.
Auðvitað getur oft verið eðlilegt að lögregla upplýsi borgarana um það sem rannsókn hennar hefur leitt í ljós. Ef lögregla telur til dæmis að tiltekinn maður, eða maður sem tiltekin lýsing á við, gangi laus og sé borgurunum hættulegur, þá getur verið mjög eðlilegt að vara þá við honum og jafnvel óeðlilegt að gera það ekki. Þó yrði vitaskuld að taka ákvörðun um slíkt í samhengi við hagsmuni rannsóknarinnar og vel má vera að mikilvægara sé að hinn grunaði frétti ekki hvað lögreglan veit og hvað ekki. En fyrir utan atriði eins og þessi, atriði sem hafa sérstaka þýðingu fyrir borgarann, þá hvílir ekki upplýsingaskylda á lögreglunni og breytir engu þó bílar hennar og búningar séu greiddir með skattfé. Borgararnir eiga enga heimtingu á því að þegar í stað sé deilt með þeim upplýsingum um það hvenær talið sé að hinn látni hafi dáið, hvernig hann hafi verið klæddur þá og hvernig lík hans hafi verið útleikið.