V algerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra er ósátt við að orkuveitur í Reykjavík og nágrenni skuli ósáttar við að orkukostnaður um landið skuli jafnaður á kostnað íbúa þessa svæðis. „Ég er viss um að íbúar á suðvesturhorninu munu ekki veigra sér við því að taka nú með nokkrum hætti þátt í þessari jöfnun búsetuskilyrða,“ skrifar Valgerður í pistli á heimasíðu sinni og bætir því við að kostnaðurinn á hvern íbúa á svæðinu verði innan við 1.000 krónur á ári. Nú má það auðvitað vel vera að ráðherrann hafi rétt fyrir sér um það að íbúar Reykjavíkur og nágrennis muni ekki veigra sér við að styrkja landsbyggðarmenn um innan við 100 krónur á mánuði. Það er jafnvel hugsanlegt að þeir væru til í að styrkja þá um mun hærri upphæð, hver veit? En það er einmitt málið, hver veit? Valgerður veit það ekki og Vefþjóðviljinn treystir sér ekki heldur til að fullyrða um þetta atriði. Hitt er óhætt að fullyrða að ef sumir landsmenn þurfa á styrk að halda frá öðrum landsmönnum er eðlilegt að sá styrkur sé veittur af fúsum og frjálsum vilja en ekki með lagasetningu. Það er út af fyrir sig ekkert að því að Valgerður og aðrir áhugamenn um jafnt raforkuverð um landið stofni sjóð með frjálsum framlögum og niðurgreiði raforkuverð, en það er verulega aðfinnsluvert að ætla að neyða suma landsmenn til að niðurgreiða raforkuverð annarra landsmanna.
Hitt er svo annað mál að sumir eiga erfiðara með að kvarta yfir hækkun orkuverðs en aðrir. Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur, ekki síst aðalstjórnandi hennar og yfirborgarstjóri, Alfreð Þorsteinsson, eru í afar erfiðri stöðu til að kvarta undan hækkun orkuverðs. Nú eða nokkurri hækkun opinberra gjalda ef út í það er farið. Og slíkir menn eru líka í þeirri stöðu að eiga erfitt með að halda því fram að hækkun Valgerðar skipti sköpum um orkureikning Reykvíkinga. Alfreð og félagar í R-listanum hafa á síðustu árum sólundað fé Orkuveitunnar í alls kyns gæluverkefni, allt frá fjarskiptafyrirtækjum til rándýrrar montbyggingar og risarækjueldis. Alfreð lét jafnvel panta inn sérstök tré á uppsprengdu verði frá Svíþjóð til að hægt væri að gera nægilega glæsileg trjágöng að nýju Orkuveituhöllinni. Garðyrkjustjóri Orkuveitunnar – já, Orkuveita Reykjavíkur hefur á að skipa sérstökum garðyrkjustjóra – hefur látið hafa eftir sér að sambærileg trjágöng séu þekkt í Evrópu, „meðal annars í hallargörðum“!
Það er því miður ekki sannfærandi þegar framsóknarmenn, sem byggja sér hallir fyrir orkugjöld almennings, gagnrýna aðra framsóknarmenn fyrir að vilja nota orkugjöldin til að dreifa til kjósenda sinna út um landið. Og menn sem hafa hækkað orkugjöld vegna of hlýrrar veðráttu geta tæplega fært sannfærandi rök fyrir því að ekki eigi að hækka gjöldin til að greiða niður orkukostnað út um landið. Það virðist því sama hvernig á málið er litið; þegar framsóknarmenn leggjast á eitt í borgarstjórn og ríkisstjórn er ekki von á góðum tíðindum af orkukostnaði í Reykjavík.