Þriðjudagur 17. febrúar 2004

48. tbl. 8. árg.

Hvernig eru þau aftur þessi hugtök sem umvöndunargjörnum vinstrimönnum lætur svo vel að láta út úr sér þegar þeir þurfa að leggja áherslu á mál sitt? Nei, ekki „umhverfishygðin“ sem mun nú hrjá þá menn sem áður voru nefndir náttúruunnendur. Það er frekar græðgisvæðingin, lífsgæðakapphlaupið, peningahyggjan, gróðasjónarmiðin, ofurlaunin og ofsagróðinn.
En hafa menn tapað sér við að raka saman fé á undanförnum árum? Hefur ekkert annað komist að en að ná sér í fleiri krónur? Eru menn alltaf í vinnunni? Mætir fjölskyldan afgangi? Eru börnin, framtíð þjóðarinnar, útundan? Það mætti oft ætla af umræðunni.

Ef marka má rannsóknir Kjararannsóknanefndar var heildarvinnutími manna í fullu starfi tæpar 47 stundir á viku árið 1998 en 45 á síðasta ári. Á sama tímabili jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um ein 14%. Almennt fá menn því meira greitt fyrir minni vinnu. Það má auðvitað kalla það græðgi þegar menn láta minna af hendi en áður en fá samt meira í staðinn. Sérstaklega ef menn eru hallir undir vinnuverðgildiskenningar. En ef græðgin hefði verið allsráðandi á þessum síðustu og verstu tímum hefðu menn ekki unnið meira en áður? Hefðu menn ekki unnið myrkranna á milli til að raka saman sem mestu fé? Hefði græðgin ekki átt að birtast í meiri yfirvinnu svo kaupa mætti enn stærri jeppa, nýrra sófasett og flottari sólarlandaferðir?

Nei, í allri firringunni hafa menn bara tekið það rólega og minnkað við sig vinnu sem nemur tveimur vikum á ári.

Það hefur lengi tíðkast hér á landi að hafa virðisaukaskatt (og áður söluskatt) innifalinn í auglýstu verði vöru. Hann er með öðrum orðum falinn í verði vörunnar. Enda er óvíða hærri virðisaukaskattur en hér eða 24,5%. Í Bandaríkjunum er hins löng hefð fyrir því að skatturinn leggst á uppgefið verð vörunnar þegar hún er greidd. Víða í Bandaríkjunum er hann aðeins 5 til 7%. Virðisaukskatturinn þar er lagður við uppgefið verð þegar greitt er svo að menn komast ekki hjá því að finna rækilega fyrir honum þegar greitt er. Það er ekki aðeins æskilegt að skattar séu sýnilegir til að menn sjái hvað þeir eru að greiða heldur er sú kenning ekki vitlausari en hver önnur að þegar skattar eru vel sýnilegir geti það virkað letjandi á stjórnmálamenn að hækka þá.