Mánudagur 16. febrúar 2004

47. tbl. 8. árg.

Það er nóg til af hugmyndum til að vera á móti. Ekki svo að skilja að ekki sé líka til töluvert af góðum hugmyndum, en ef miðað er við það sem hæst ber í stjórnmálum, svo sem lagafrumvörp, tillögur og fyrirspurnir þá fer nú töluvert meira fyrir því sem eðlilegt er til að gagnrýna en því sem ástæða er til að fagna sérstaklega. En þó íslenskir stjórnmálamenn sjái kjósendum sínum og annarra fyrir mörgu gagnrýniefninu, þá er ekki sama hvaða rök eru notuð gegn tillögum þeirra. Tökum dæmi af máli sem Vefþjóðviljinn er á móti – eins og sagt hefur verið svo oft að það fer að verða ástæðulaust að nefna það. Blaðið er frá almennu sjónarmiði andvígt því að hið opinbera skipti sér af atvinnulífinu og hefur því ætíð verið andvígt svokölluðum samkeppnislögum og þar með einnig lagaákvæðum um svokallaða hringamyndun – en slík lög eru í eðli sínu einfaldlega útfærsla á samkeppnislögum. En þó færa megi skýr rök gegn samkeppnislögum, eins og blaðið hefur gert af og til undanfarin sjö ár, þá er ekki þar með sagt að allt sem sagt hefur verið gegn slíkum lögum eða þá lögum um hringamyndun, sé gagnlegt í umræðunni.

Á dögunum var rakið hversu hann er á skjön við staðreyndir sá málflutningur að aðilar eins og forsætisráðherra og Morgunblaðið hafi nýlega skipt um skoðun á hringamyndunarmálum eftir því hvernig vindar blása í viðskiptalífinu. Bæði ráðherrann og Morgunblaðið hafa nefnilega verið sömu skoðunar og talað með sama hætti um hringamyndun í meira en áratug, þó hinir og þessir virðist annað hvort hafa gleymt því eða vilji ekki muna eftir því. Önnur röksemd, sem missir einnig marks, er sú að „ekki megi breyta leikreglunum í miðjum leik“. Af röksemd eins og þessari mætti einna helst ráða að menn álíti að viðskiptalífið sé allt einn tiltekinn leikur sem nú sé í gangi. Eiginlega megi aldrei breyta leikreglunum. Sú kenning fær ekki staðist, þó frá almennu sjónarmiði sé auðvitað betra að reglum sé breytt sjaldan en oft. Ætíð þegar frelsi hefur verið aukið, höftum aflétt, reglur rýmkaðar, þá hafa menn verið að breyta leikreglum. Vafalítið hafa þær breytingar komið illa við einhverja sem hafa miðað áætlanir sínar við hið fyrra ástand. Hafa jafnvel komið sér vel fyrir í því kerfi sem skyndilega er breytt. Það er bara eins og það er. Það er ekki nægileg röksemd gegn breytingum á reglum að það sé verið að breyta reglum. Það sem meginmáli skiptir er breytingin sjálf, hvort hún telst til bóta eða ekki. Og ef samkeppnislögum verður breytt þannig að hert verður á hringamyndunarreglum, þá er auðvitað verið að breyta reglum. En ef menn sjá svo að sér einhverjum árum seinna og breyta reglunum til baka, þá er líka verið að breyta reglum „í miðjum leik“. Ætli þeir, sem nú eru á móti hringamyndunarlögum, með þeim rökum að það sé verið að breyta leikreglunum, vildu þá ekki breyta leikreglunum til baka?

Tökum annað dæmi. Auðvitað er frá almennu sjónarmiði betra að skattareglum sé breytt sjaldan en oft. En ekki dytti Vefþjóðviljanum í hug að vera á móti skattalækkunum, svona af því að ekki sé gott að vera alltaf að „fikta í lögunum“. Vefþjóðviljans vegna mega stjórnvöld lækka skatta eins oft og þau vilja. Og ef einhver myndi leggja til að skattar yrðu hækkaðir, þá yrði blaðið á móti þeirri hugmynd með betri rökum en að það eigi ekki alltaf að vera að breyta reglum. Kenningin um að breyta lögum sem sjaldnast er eingöngu almennt sjónarmið en einstakar breytingarhugmyndir verða aldrei vegnar eftir henni.

En af hverju er blaðið að tuða þetta. Skiptir máli hvernig menn þvælast fyrir hugmyndum sem rök standa gegn? Já það skiptir máli. Þegar menn færa haldlítil rök gegn einhverjum málstað, þá fer ekki hjá því að fólki þyki sem gegn honum séu þá varla önnur betri. Meðal annars þess vegna eiga menn að einbeita sér að efnislegum rökum gegn tillögum sem þeir eru andvígir.

ÞÞegar William Clinton barðist fyrir forsetaembætti Bandaríkjanna og aldrei skyldi verið hafa, þá var það eitt bragð hannara hans að taka þekkt dægurlag hljómsveitarinnar Fleetwood Mac, „Don’t stop“, og gera að nokkurs konar einkennislagi baráttunnar. Árið 1992 fór Clinton því um Bandaríkin og hvatti landa sína í sífellu til að hætta ekki að hugsa um morgundaginn. Nú mun annar demókrati, John Kerry að nafni, reyna að leika sama leik. Hann mun hins vegar ekki enn hafa komið sér upp sambærilegu lagi en þar sem Vefþjóðviljinn vill allt fyrir slíka menn gera, þá vill blaðið leggja sitt af mörkum og stingur því upp á að hann taki lagið „Long face“ með Mínusi traustataki og sjái hvort það gerir ekki gæfumuninn.