Föstudagur 20. febrúar 2004

51. tbl. 8. árg.

Síðustu daga hefur talsvert verið rætt um og deilt á þær hugmyndir að jafna raforkuverð milli landsmanna þannig að verðið hækki á höfuðborgarsvæðinu en lækki annars staðar. Eins og vænta mátti eru sveitarstjórnarmenn syðra ekki hressir og sjálfsagt eru fjölmargir sveitungar þeirra sama sinnis. Og svo augljóst má það vera lesendum þessa blaðs að Vefþjóðviljinn er á móti slíkum hugmyndum að blaðið nennir ekki einu sinni að nefna það. En að því sögðu – eða ekki sögðu – þá eitt og annað sem má velta fyrir sér þegar svona hugmyndir eru skoðaðar. Í raun er verið að taka fé frá einum og láta annan fá, þó það sé gert með þeim hætti að hækka orkureikning þess fyrra en lækka reikning hins. Auðvitað ættu þær orkuveitur sem telja á sig hallað með þessum hugmyndum að hafa kostnaðinn af þeim sem sérstakan lið á innheimtuseðlum sínum þegar þar að kemur. Það er gott að menn sjái hvað þeir eru að greiða. En, þegar grannt er skoðað, er svo mikill munur á þessari aðgerð og svo fjölmörgum öðrum sem hið opinbera stendur fyrir til lífskjarajöfnunar, sem kallað er? Er þessi kannski bara hreinlegri af því að hún dylst ekki og menn verða hennar sérstaklega varir í hvert sinn sem þeir greiða orkureikninginn sinn?

Er þetta í raun nokkuð verra en að leggja tekjuskatt á einn til þess svo að greiða öðrum vaxtabætur? Eða skattleggja tekjur eins – sem veldur því að hann þarf að vinna lengur til að afla þeirra tekna sem hann þarfnast – til þess svo að greiða öðrum fyrir að vera heima í fæðingarorlofi? Eða hvaða millifærsla hins opinbera sem menn vilja? Er orkuverðshækkunin kannski bara hreinlegri þegar allt kemur til alls? Er ekki skárra en hitt þegar slíkar aðgerðir eru jafn áberandi og orkuverðsjöfnunin yrði? Rétt eins og til dæmis afnotagjöld Ríkisútvarpsins, svo hvimleið sem þau eru, þau eru þó ekki falin í skattahítinni heldur er hver greiðandi minntur á þau í hverjum mánuði. Sjálfsagt væri margt skárra ef það væri almenn regla. Kostnaður við fæðingarorlofslögin nemur tæplega hálfum milljarði króna á hverjum einasta mánuði, allan ársins hring og hann þarf að fjármagna með sköttum. Hann myndi kannski aðeins minnka, lofsöngurinn um þessi lög, ef skattgreiðendur fengju gíró-seðil fyrir herlegheitunum, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, alla ævi.

Það var vikið að því í gær hvernig ýmsir fjölmiðlamenn hafa látið vegna þess að þeim fannst kynning lögreglunnar á rannsókn líkfundar í Norðfirði lítilfjörleg. Að þessu tilefni mætti fréttastjóri DV Kristján Guy Burgess í Ísland í dag á Stöð 2 í fyrrakvöld. Helst mátti á honum skilja að það væri lögreglunni að kenna að DV hefði birt rangar fréttir af rannsókn málsins því lögreglan hefði ekki gefið neinar upplýsingar og fjölmiðlar því neyðst til að birta fremur rangar fréttir en engar! Það er líklega óþarft að eyða mörgum orðum á þetta viðhorf. Það hefur enda aldrei verið orð að marka það sem KGB hefur látið frá sér fara um Litháa.

„Hver losaði sig við líkið af Vaidas Gucevicius?“ var svo spurt á forsíðu DV í gær. Það er áleitin spurning enda mun lögregla huga að henni um leið og hún hefur komist að því hvernig Vaidas Jucevicius komst í Neskaupstaðarhöfn.