Íslenzkir menn! Hvað öldin ber í skildi, enginn fær séð, hve feginn sem hann vildi. Eitt er þó víst: Hún geymir Hel og Hildi. Hlífi þér, ættjörð, Guð í sinni mildi. |
Hitt er og víst, að áfram áfram miðar. Upp, fram til ljóssins tímans lúður kliðar. Öldin oss vekur ei til værðarfriðar. Ung er hún sjálf, og heimtar starf án biðar. |
Starfið er margt, en eitt er bræðrabandið, boðorðið, hvar sem þér í fylking standið, hvernig sem stríðið þá og þá er blandið, það er: Að elska, byggja og treysta á landið. |
Þá mun sá Guð, sem veitti frægð til forna, fósturjörð vora reisa endurborna. Þá munu bætast harmasár þess horfna, hugsjónir rætast. Þá mun aftur morgna. |
Þ á mun aftur morgna, já. Nokkuð til í því. Ef ólíkum skeiðum Íslandssögunnar yrði raðað á sólarhring og miðað við hvort bjart hefði verið yfir eða dimmt, þá væri of mikið sagt að það hefði verið nótt um aldamótin 1900, þegar Hannes Hafstein orti aldamótaljóð sitt. Það voru engin móðuharðindi, enginn svartidauði, engin stórabóla. En það var ekki dagur heldur. Það var kannski þessi tími sólarhringsins þegar menn nenna ekki að vaka en það hefur svo sem ekkert upp á sig heldur að skjöklast í bælið. Það var svona drungi. Ísland var undir erlendri stjórn, framfarir hægar og strjálar og lítið um að hinn almenni maður hæfist úr aðstæðum sínum til stærri verka. En með nýrri öld skyldi aftur morgna á Íslandi.
Það morgnaði líka á Íslandi svo um munaði. Ætli það sé nokkurt svið, já nema kannski andagift skálda, þar sem framfarirnar hafa ekki verið ævintýri líkastar á Íslandi þá öld sem liðin er frá því Íslendingar fengu heimastjórn, íslenskan ráðherra, áðurnefndan Hannes Hafstein? Það skipti miklu að fá hina innlendu stjórn, mikilvægasti valdamaður landsins, á eftir konungi, varð nú innlendur ráðherra sem þurfti að styðjast við það þing sem Íslendingar gátu sjálfir kosið til. Nú var dómsmálaráðherrann í Höfn ekki lengur sá sem allt valt á, svo sem hinn skrautlegi Peter Adler Alberti sem allir höfðu mænt til, gapandi eins og fuglsungar í hreiðri. Eða eins og þeir Valdimar og Guðmundur skólaskáld orðuðu það í alþingisrímunum:
Allir mæna á Alberti Ás hins nýja siðar, ætla’ að renni’ upp öldin ný öldin ljóss og friðar. |
En það skipti ekki aðeins máli fyrir Íslendinga að fá stjórnina heim. Það skipti líka máli hver það var sem var fengin hún í hendur. Í upphafi heimastjórnaraldar þurfti að blása til sóknar, blása landsmönnum kjark og áræði í brjóst og til þess voru fáir betur fallnir en Hannes Hafstein. Hann var ekki aðeins stjórnmálamaður, einn sá glæsilegri sem menn höfðu haft spurnir af lengi; hann var einnig eitt helsta skáld landsins, hver sem skilur nú á dögum hvað í því fólst þá. Í ritgerð fyrir ljóðasafni Hannesar Hafstein, fyrir aldarþriðjungi, segir skáldið Tómas Guðmundsson svo:
Sennilega á kynslóð vorra daga erfitt með að gera sér fullkomlega ljóst, hversu þessi kvæði Hannesar stungu afdráttarlaust í stúf við ríkjandi tíðaranda. Sitthvað það, sem á sínum tíma var nýstárlegast í kvæðunum, anda þeirra og skáldskaparstíl, fer nú framhjá oss vegna þess, að vér erum fyrir löngu orðin handgengin því, það er orðið sjálfsagt mál, hluti persónulegrar reynslu, runnið saman við hugmyndaheim sjálfra vor. Þetta er skuld, sem öll list og allur skáldskapur, sem einhverju sinni hefur verið tímabær, hlýtur að gjalda. |
Auðvitað ræðst ekki allt af því hver situr inni í stjórnarráðinu hverju sinni. Það hefðu orðið framfarir á Íslandi þó örlögin hefðu gert aðrar ráðstafanir að þessu leyti. Og hversu tilkomumiklir eða gagnslausir sem æðstu menn eru hverju sinni, þá hlýtur auðvitað mest að ráðast af hinum almenna manni, vinnu hans, hugmyndaflugi og atorku. En það var Hannes Hafstein sem sló kordurnar þegar sókn Íslendinga hófst fyrir alvöru og enginn einn maður á meiri þátt í því hvernig upphafið tókst. Fyrir það, eins og fleira, er Íslendingum óhætt að minnast Hannesar með virðingu. Hannesi var reyndar sýnd mismikil virðing á stjórnmálaferli sínum. Eins og menn vita þá er drengskapur, einlægur vilji til góðra verka og góður árangur engin trygging fyrir því að nema hluti manna hafi stjórnmálamann í hávegum. Slíkir eiginleikar virðast meira að segja iðulega ná að magna upp heift og jafnvel hatur ákveðinna afla. Við því var ekki aðeins hætt á tímum Hannesar Hafstein; allir tímar virðast geta sagt sömu sögu að þessu leyti. Til að særa engan á hátíðisdegi má alveg sleppa því að nefna dæmi af umræðu og stjórnmálum nútímans, en í áðurnefndri ritgerð segir Tómas Guðmundsson meðal annars:
Ekki þarf að fara í grafgötur um það, að maður með stórbrotinni höfðingslund hefur oft þótzt undarlega settur mitt í stjórnmálabaráttu þessara tíma, sem oft einkenndist af smámunalegri illkvittni og rógshneigð, eiginleikum, sem Hannesi Hafstein voru víst ákaflega fjarskyldir og ógeðfelldir. En reyndar er það einn af fylgikvillum fámennra þjóðfélaga, að sæmilegir stjórnmálamenn eiga þar ekki alltaf hægt um vik að velja sér verðuga samherja, – hvað þá verðuga andstæðinga. Hannes Hafstein hlaut einnig að kynnast iðju músanagsins sem hann nefnir svo, og snemma gætir þess háttar lífsreynslu í kvæðum hans. |
Í kvæðum hans já. Þar gætir eins og annars. Margir munu hafa heyrt þá athugasemd að lífið sé dýrt og dauðinn þess borgun og réttast sé að drekka í kvöld og iðrast svo bara á morgun; en ekki er víst að þeir reki allir þessa dagskrártillögu til fyrsta ráðherra Íslands. Ekki þarf að efa að í dag og næstu daga munu ýmsir rifja upp nokkur tilkomumestu ljóð Hannesar Hafstein og vel mun fara á því. En fjölmargt mun liggja óhreyft og bíða þeirra sem til þess munu hjálparlaust rata síðar. Svo sem eins og litla ljóðið Að sumbli sem er að ytra byrði viðkunnanlegt drykkjukvæði en hefði hins vegar alveg eins getað verið sett saman kvöldið áður en Hannes Hafstein tók fyrstur Íslendinga við ráðuneyti Íslands og heimastjórnaröldin hófst:
Hver sólbjört meyja sofnuð er og sefur vært og rótt; vér skulum, sveinar, sitja hér að sumbli’ í alla nótt. Þótt annað allt sé dauft og autt og hljótt, vér glymja látum ungan óð í alla nótt. |
Á forna minnumst dáð og dyggð og drengilega menn, á manndómsþrek og meyjatryggð, sem margreynt lifir enn. Svo vakni dagur dýr með dáð í hug og hreki myrkur, hrindi deyfð og hefji dug. |
Sem vinir tökum vinarhönd og vaki saman drótt, því senn mun ljóma sól um lönd og sigruð flýja nótt. Því treystum allir enn, að Íslands þjóð hún eigi framtíð: föng og menn með framgjarnt blóð. |