E
ins og kunnugt er þá vill Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, ekki skera sig meira en nauðsyn krefur frá flokksfélögum sínum og leggur stundum nokkuð á sig til að sýna fram á að hann eigi heima í þeirra hópi. Nýjasta framlag hans var vitaskuld sú heldur óvænta tillaga hans á dögunum að „svína á Hellisheiðina, fara gegnum Þrengslin, lenda svo Spittfærnum á Kaldraðarnesmelum, fljúga svo norður í Eyjafjörð yfir Kjöl, sprengja Stebbafr og Halldór Blöndal til helvítis, snúa svo til baka yfir heiðina og bomba Björn Bjarna og borgarstjórnarminnihlutann hálfa leið til andskotans og lenda svo við gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og hrynja í það á kránum í Miðbænum“. Ekki hefur Vefþjóðviljinn nennt að fjalla um þessar ráðagerðir þingmannsins, en Fréttablaðið gerði það þó stuttlega á dögunum og gat þess að Sverrir Hermannsson, fyrrverandi formaður Frjálslynda flokksins, hefði lýst því yfir opinberlega að hann gæti hugsað sér að „heilsa upp á nokkra góðborgara vopnaður haglabyssu“. Segir í blaðinu að lögreglan hafi séð ástæðu til að ræða við Sverri út af þessu, en bætir svo við að „[s]prengjuhótun Magnúsar virðist ekki hreyfa við yfirvöldum.“
Hér hefur Fréttablaðið óþarfar áhyggjur af aðgerðaleysi yfirvalda. Lögreglan er einfaldlega betur að sér en Magnús og veit vel að spitfire voru orrustuvélar en ekki sprengjuvélar. Hættan af Magnúsi er því ekki eins mikil og ætla mætti í fyrstu, nema vitaskuld að hann hyggist skipta um vél á „Kaldraðarnesmelum“. Þá horfir málið auðvitað allt öðruvísi við.
S alvörður nokkur á Þjóðskjalasafni Íslands, Alþýðubandalagsmaðurinn Jón Torfason, er einn þeirra sem kosið hefur að veitast opinberlega að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, eins og hér var sagt frá í gær. Jón er líka einn þeirra fjölmörgu gagnrýnenda sem ekki hafa haft fyrir því að lesa bókina áður en þeir hófu upp raust sína. Frænka Jóns, Ragnhildur Kolka, MA í bókmenntafræði, og Hannes sjálfur hafa svarað árásum Jóns og miðað við málatilbúnað Jóns og svör Ragnhildar og Hannesar er hætt við að Jóni þyki árásin ekki hafa verið sérstök sigurför. En hann getur þó glaðst yfir einu, honum var svarað. Það er nefnilega nokkuð sem hann á ekki alltaf að venjast þegar hann stingur niður penna opinberlega.
Jón Torfason er í hópi margra Alþýðubandalagsmanna sem furðuðu sig fyrir nokkrum árum á fjármálum flokksins og spurði formann flokksins, Margréti Frímannsdóttur, nokkurra einfaldra spurninga um skyndilega skuldasöfnun hans. Málavöxtu rakti Vefþjóðviljinn fyrir rúmum þremur árum og þarf ekki að endurtaka það sem þá var sagt, en leyfir sér að benda á að enn bíður Jón svars.