Mánudagur 2. febrúar 2004

33. tbl. 8. árg.

Þegar Ísland fékk heimastjórn fyrir hundrað árum og einum degi, þá urðu fleiri breytingar en þær að Hannes Hafstein fékk sverð og Íslendingar ráðherra sem kunni íslensku og það betri en flestir. Með heimastjórninni komst á svokölluð þingræðisregla, það er að segja sú regla að ríkisstjórn þarf að styðjast við meirihluta þingmanna eða að minnsta kosti haga sér svo vel að meirihlutinn setji hana ekki af. Þetta er þýðingarmikil regla, þó hún sé út af fyrir sig ekki nauðsynleg, svona lýðræðisins vegna. En allt um það, frá 1904 hefur verið talið að Íslendingar byggju við þingræði, þó önnur ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, þessi sem studdist við huldumennina, hafi reyndar verið undarlegur variant af þingræði og í raun rannsóknarefni að forseti Íslands hafi tekið í mál að standa að hlutunum eins og þar var gert.

En semsagt, ráðherrar styðjast við meirihluta alþingismanna, þingmanna sem sækja umboð sitt í frjálsar kosningar borgaranna. Reyndar er það vitaskuld svo að flestir kjósendur eru að kjósa flokka og einstaka helstu forystumenn en ekki einstaka þingmenn. Og margir hugsa vafalaust einkum um að hindra að einhverjir tilteknir flokkar eða forystumenn komist til valda. Þó þingmenn tali um sig sem þjóðkjörna fulltrúa og telji sumir sig næstum heilaga þessvegna, þá er það ekki þannig að „þjóðin“ hafi sest niður og ákveðið að velja úr sínum hópi Katrínu Júlíusdóttur, Magnús Stefánsson, Þuríði Backman og Guðmund Hallvarðsson til að ráða sínum málum. En þó þingmenn geri oft óþarflega mikið úr umboði sínu frá „þjóðinni“, þá er skipulagið vitaskuld það að hver þeirra ræður sínu atkvæði og er ekki bundinn af fyrirmælum frá þeim flokki sem bauð hann fram eða þeim kjósendum sem kunna að hafa kosið hann. Þingmenn hafa einhvers konar umboð til starfa sinna og frá lýðræðissjónarmiðum er skárra að slíkir menn – eða ráðherrar sem þurfa að njóta trausts þeirra – ráði þeim málum sem hið opinbera er þó að vasast í en að einhverjir allt aðrir menn og með öllu ókosnir fái þau völd í hendur.

En á undanförnum árum hefur orðið vaxandi stemmning fyrir því að færa völd frá þessum sem þó hafa eitthvert umboð og yfir til þeirra sem ekkert hafa. Dómarar hafa svo einfaldlega farið í að taka sér völd sem þeir ekki hafa haft áður og enginn hefur fært þeim. Þeir sem aðhyllast lýðræði hljóta að hafa af því áhyggjur í hvert sinn sem dómari – sem enginn maður hefur kosið og enginn getur kosið frá embætti sínu – tekur að teygja sig yfir á það svið sem hingað til hefur verði ætlað hinum kosnu einum. Eitt er að vera nokkurs konar öryggisventill á hina kosnu, gæta þess að þeir fari ekki fram úr sínum heimildum, en jafnvel þó samþykkt sé að dómstólar hafi slíkt vald, þá verða þeir að fara afar sparlega með það og þá aðeins að telja megi hafið yfir allan skynsamlegan vafa að nauðsynlegt sé að beita því. Það, að dómarinn sjálfur hefði viljað hafa lög öðruvísi eða að hann telji hægt að teygja annars vegar lagaákvæði og hins vegar almennt orðað stjórnarskrárákvæði svo til að með nægilegum orðhengilshætti megi finna út að þau samrýmist ekki, það er annar hlutur. Lýðræðislega kjörnir valdhafar þurfa að leita til kjósenda á fárra ára en dómari er óhagganlegur í embætti sínu eftir að hann er þangað kominn. Slíkur maður hlýtur að þurfa að fara sparlegar en aðrir með vald sitt.

Sama má segja um stofnanir og „úrskurðarnefndir“ sem nú þykir mjög fínt að setja á stofn. Það þykir svo „faglegt“. Allt er það hins vegar umdeilanlegra en oft mætti ætla. Það er oft betra að það sé einfaldlega stjórnmálamaður, sem hefur umboð frá kjósendum og hyggst leita slíks umboðs að nýju, sem taki þær ákvarðanir sem máli skipta. Nafnlausar nefndir eru nefnilega bara nafnlausar og ábyrgðarlausar. Þær eru hins vegar ekki mannlausar. Í þeim situr fólk af holdi og blóði – já „fagfólkið“ er fólk af holdi og blóði með sín sérsjónarmið, tengsl, vináttubönd og hagsmuni – og er ekki endilega neitt betra þrátt fyrir að geta brugðið yfir sig hjúpi „fagmennskunnar“ þegar það tekur vildarákvarðanir sínar.

En best er auðvitað að nota hvoruga aðferðina. Að færa völdin einfaldlega frá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, yfir til borgaranna sjálfra. Almennt má segja að því minna sem menn þurfi að sækja til hins opinbera, því betra. En það sem þó er hjá hinu opinbera, menn ættu að hugsa sinn gang áður en þeir færa þau mál frá hinum kosnu til hinna ókosnu.