Laugardagur 27. desember 2003

361. tbl. 7. árg.

Þ

Unnið að því að stöðva straum flóttamanna til vestursins með byggingu Berlínarmúrsins árið 1961.

að var fróðlegt að hlusta á félagana Svavar Gestsson, fyrrverandi formann Alþýðubandalagsins og núverandi sendiherra, og Sigurð G. Tómasson, fyrrverandi borgarfulltrúa Alþýðubandalagsins og núverandi þáttastjórnanda á Útvarpi Sögu, ræða saman um ævi og pólitískan feril þess fyrrnefnda. Þetta viðtal var sama marki brennt og önnur slík. Viðmælandinn, sem áratugum saman barðist í framlínu þeirra pólitísku afla hér á landi sem lengst vildu ganga í átt til sósíalísks þjóðskipulags, hafði að eigin sögn í raun miklar efasemdir um þetta skipulag. Þannig kom til að mynda fram í samtali samherjanna að Svavar Gestsson hefði nokkru eftir stúdentspróf tekið sér frí frá störfum á Þjóðviljanum til að leggja stund á háskólanám í Austur-Þýskalandi. Þar hafi hann hins vegar ekki getað hugsað sér að staldra lengi við og í raun komið heim aftur sem „pólitískur flóttamaður“ eins og hann orðaði það. Ástæða „flóttans“ mun hafa verið sú að fylgst var með honum og Flokknum gefin skýrsla um hvað hann sagði, hvort sem var á krám eða öðrum mannamótum.

Þetta er nú reyndar ekkert sem hefði þurft að koma hinum unga Svavari á óvart, því íslenskum sósíalistum var vel kunnugt um ástandið í Austur-Þýskalandi og fleiri löndum sósíalismans, enda hafði fjöldi þeirra dvalið þar og kynnst þjóðfélaginu vel. Hefði Svavar verið í sporum almennings á Íslandi hefði honum að vísu verið vorkunn, því þeir sem best þekktu til ástandsins í sósíalísku ríkjunum gerðu sér far um að halda vitneskju sinni fyrir sig og deila henni ekki með almenningi hér á landi. Svavar var hins vegar ekki í sömu sporum og aðrir Íslendingar, því hann hafði um árabil verið inn undir hjá forystu flokksins og hafði meðal annars setið vikulega sellufundi með Einari Olgeirssyni, foringja íslenskra sósíalista til margra ára og manni sem Svavar hafði alla tíð miklar mætur á. Í Rauðu bókinni – leyniskýrslum SÍA, sem Heimdallur gaf út árið 1963 og aftur árið 1984 má lesa það sem íslenskir sósíalistar sendu sín á milli um ástandið fyrir austan Járntjald. Í leyniskýrslum SÍA, Sósíalistafélags Íslendinga Austantjalds, kom meðal annars fram í skýrslu frá fyrrnefndum Einari, að stúdentar hafi ekki getað um frjálst höfuð strokið, ásamt fjölmörgu öðru sem lýsti hörmulegu ástandi þessara ríkja. Þessum upplýsingum héldu þeir fyrir sig og deildu ekki með öðrum, en eins og áður sagði verður þó að telja ótrúlegt að Svavar Gestsson hafi enga grein gert sér fyrir ástandinu í sósíalísku ríkjunum.

Hefði Svavar snúist gegn sósíalismanum eftir að hann „flúði“ heim úr harðræðinu mætti að vísu trúa því að hann hafi orðið fyrir miklu áfalli í Austur-Þýskalandi og líkað illa það sem hann sá. Raunin varð þó önnur. Hann gerðist einn helsti penni Þjóðviljans um árabil, settist á þing og varð einn helsti forystumaður Alþýðubandalagsins allt fram til ársins 1999 þegar hann settist í sendiherrastól. Alþýðubandalagið, sem flóttamaðurinn kaus að styðja af alefli strax eftir flóttann, reisti stefnu sína „á fræðikenningu sósíalismans“, eins og flokkurinn orðaði það sjálfur. Flokkurinn var lítið hrifinn af séreignarréttinum og setti sér „það markmið að afnema auðvaldsskipulagið, sem felur í sér arðrán einnar stéttar á annarri,“ eins og það hét hjá flokki flóttamannsins.