Föstudagur 26. desember 2003

360. tbl. 7. árg.

Hvað er þetta eiginlega með unga framsóknarmanninn? Nú vill hann að einhverjir allt aðrir en háskólastúdentar greiði að öllu leyti fyrir nám þeirra. Það má raunar einnig líta þannig á þessa kröfu hans, um að skattgreiðendur beri allan kostnað af rekstri Háskóla Íslands, að hann vilji ótakmarkaða framleiðslustyrki til háskólakennara. Þeir eigi að fá allar sínar tekjur frá skattgreiðendum en ekki þeim sem nýta sér þjónustu þeirra. Framsóknarmenn hafa áður fengið slíkri kröfu framgegnt í íslenskum landbúnaði með þeim afleiðingum að bændur eru ein tekjulægsta stétt landsins og íslenskar landbúnaðarafurðir með þeim dýrustu í heimi.

Þeir sem ákveða að verja nokkrum árum af ævi sinni til háskólanáms eru ekki að því fyrir aðra en sjálfa sig. Þess eru jafnvel dæmi að róttækir vinstrimenn hafi hætt háskólanámi því þeir trúðu því að heimsendir væri í nánd vegna mengunar eða vígbúnaðarkapphlaups og því til lítils að fylla heilabúið af fræðum. Það hlýtur fyrst og fremst að vera ávinningur þess sem stundar námið sem leiðir til þess að menn stunda nám. Sá ávinningur verður ekki alltaf mældur í krónum og aurum þótt oft megi gera ráð fyrir að sú sé raunin. Menn telja sig ef til vill fá betra starf þótt það sé ekki betur maunað. Eiga skattgreiðendur skilyrðislaust og alfarið að bera kostnaðinn af slíkum ákvörðunum einstaklinga?

Á undanförnun árum hafa sprottið upp skólar sem bjóða háskólamenntun. Ýmsir þeirra eru ekki reknir af ríkinu heldur einstaklingum og félögum þeirra. Flestir taka þeir gjöld af nemendum sínum og enginn hefur kvartað yfir því að greiða nokkur hundruð þúsund krónur fyrir menntun sem nýtist ævilangt. Háskóli Íslands getur ekki ætlast til að nemendur sínir njóti sambærilegrar þjónustu alfarið á kostnað skattgeiðenda. Annað tveggja hlýtur að gerast. Skólagjöld verða tekin upp í Háskóla Íslands eða hann dregst aftur úr öðrum skólum sem bjóða sambærilega menntun.

Úr því málefni Háskóla Íslands eru hér til umfjöllunar má geta þess að skólinn efnir nú til samkeppni um nafn á nýtt náttúrufræðahús sitt sem hefur verið í byggingu um allnokkurt skeið svo ekki sé meira sagt. Hefur kostnaður við bygginguna einnig þótt allnokkur og til að undirstrika það eru vegleg peningaverðlaun veitt fyrir besta nafnið á húsið. Kemur nokkuð annað til greina en að svo dýrkeypt hús um náttúrufræðin heiti Dýrahúsið?