Helgarsprokið 28. desember 2003

362. tbl. 7. árg.

Þótt endurvinnsla hafi verið stunduð frá örófi alda hefur hún líklega aldrei skipað jafn veglegan sess og síðustu þrjá áratugi. Lengst af var fór endurvinnsla fram af venjulegri lífsnauðsyn en hin síðari ár hefur hið opinbera tekið endurvinnslu upp á arma sína. Ýmist með því að mæla fyrir um hana í lögum og reglum eða með því að stunda hana á eigin vegum. Endurvinnsla er orðin jafn sjálfsagt verkefni hins opinbera og löggæsla, landvarnir og Lína.net.

Í haust kom út ritið Eight Great Myths of Recycling eftir Daniel K. Benjamin prófessor við Clemson háskóla. Þar rekur hann stuttlega sögu sorpsins og tekur svo fyrir nokkur atriði varðandi endurvinnslu sem hann telur að valdi oft misskilningi.

Í fyrsta lagi er því oft ranglega haldið fram að við séum að drukkna í sorpi. Bandaríkin eru mesta neyslusamfélag í heimi. Hvorki fyrr né síðar hafa þau framleitt jafnmikið af sorpi og einmitt í dag. Benjamin bendir á að engu að síður hafi aldrei verið jafnmikið pláss til reiðu fyrir sorp og einmitt nú. Þrátt fyrir að sorphaugum hafi fækkað hafi afköst þeirra sem eftir eru aukist. Á síðasta ári var tilbúið pláss fyrir 18 ára skammt af sorpi. Það þýðir auðvitað ekki að allir haugar verði fullir eftir 18 ár því árlega bætast við ný svæði. En er þá ekki stutt í að allt rými verði á þrotum? Nei reyndar ekki því svæðið sem fer undir allt sorp í Bandaríkjunum á 21. öldinni mun taka um 10 mílur á kant. Með öðrum orðum mun miklu meira sorp en ástæða er til að hafa áhyggjur af rúmast á miklu minna svæði en ástæða er til að hafa áhyggjur af.

„Meðalheimili í Bandaríkjunum framleiðir minna sorp en meðalheimili í Mexíkó. Hluti af skýringunni er að Bandaríkjamenn nota meira af umbúðum en umbúðir koma í veg fyrir að matur skemmist.“

Ef að sorpið færir okkur ekki í kaf spillir það heilsu okkar! Því er oft haldið fram að sorphaugar spilli heilsu okkar, mengi drykkjarvatn og skaði umhverfið á annan hátt. Ýmsir hafa áhyggjur af metaninu sem stígur upp af rotnuninni á haugunum og líka af afrennslinu sem getur innihaldið spilliefni. Bandaríska umhverfismálastofnunin (EPA) telur að á næstu 300 árum muni 5,7 einstaklingar látast úr krabbameini sem rekja megi til sorphauga. Mun fleiri muni hins vegar látast vegna þeirrar hættu á krabbameini sem stafar af selleríi, perum og káli svo þessar tölur séu settar í samhengi.

Umbúðir fá það oft óþvegið enda er því haldið fram að sorpið sem við munum drukkna í eigi rætur sínar að tekja til óhóflegra umbúða. Benjamin bendir hins vegar á að umbúðir geti dregið úr sorpi. Meðalheimili í Bandaríkjunum framleiðir minna sorp en meðalheimili í Mexíkó. Hluti af skýringunni er að Bandaríkjamenn nota meira af umbúðum en umbúðir koma í veg fyrir að matur skemmist. Þegar kjúklingur er keyptur á fæti, verkaður og matreiddur inn á heimili falla til leifar sem enda á sorphaugunum. Þegar kjúklingurinn er verkaður og pakkað inn í verksmiðju eru afgangar gjarnan nýttir í gæludýrafóður eða á annan hátt í stað þess að lenda á haugunum. Verksmiðjuframleiðsla og -pökkun á 1.000 kjúklingum þarf um 9 kílógrömm af umbúðum en við framleiðsluna eru að minnsta kosti 1.000 kílógrömm af frákasti og afgöngum nýtt í stað þess að enda á sorphaugunum. Umbúðir hafa líka tekið stórkostlegum framförum. Tveggja lítra gosflaska úr plasti vegur nú 30% minna en hún gerði fyrir 25 árum. Áldósir eru 40% léttari og innkaupapokar 70% léttari.

Endurvinnsla er oft réttlætt með því að annars göngum við á óendurnýjanlegar auðlindir. Benjamin bendir á að ef markaðverð sé vísbending um hversu mikill skortur sé á náttúruafurðum sé augljóst að framboð á flestum þeirra hafi aukist umfram eftirspurn. Þessa þróun megi meðal annars þakka nýjungum eins og ljósleiðara sem beri 625 símtöl á móti hverju símtali sem koparþráður bar fyrir 20 árum. Almennt séð framleiði menn nú tvöfalt meira en fyrir 50 árum á hverja orkueiningu.

Benjamin bendir jafnframt á að endurvinnsla krefjist eins og annar iðnaður orku og hráefna. Endurvinnsla sé að jafnaði 35 – 55% dýrari en að urða sorp. Kostnaðurinn endurspeglar hve mikill skortur er á því sem til þarf í hvoru tilfelli. Ef endurvinnslan er dýrari en urðun er það vegna þess að meiri skortur er á orkunni og hráefnunum sem til þarf. Þess vegna eigi ekki að mæla fyrir um endurvinnslu í lögum og reglum heldur stunda hana þar sem hún er ódýrasti kosturinn.