Þriðjudagur 16. desember 2003

350. tbl. 7. árg.
Þótt nokkru hafi verið til kostað vegna samgönguvikunnar er auðvelt að reikna verulega arðsemi vegna bíla sem stóðu heima ónotaðir. Má þar nefna slit á malbiki, minni slysa- og tjónshættu með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið, minni tafir, minna álag og minna vinnutap.
 – Árni Þór Sigurðsson forseti borgarstjórnar Reykjavíkur um þátttöku Reykjavíkur í „Evrópskri samgönguviku“ í Morgunblaðinu í gær.

H

Samkvæmt nýjustu kenningum geta menn notið verulegrar arðsemi, minnkað álag og sparað tíma með því að skilja bílinn sinn eftir heima – ónotaðan.

vað varð um þá lífssýn íslenskra vinstri manna að það væri ekki hægt að mæla allt í krónum og aurum? Er lífið orðið eitt arðsemislíkan hjá þeim eins og öllum öðrum? Forseti borgarstjórnar kemur ekki aðeins á óvart með því að taka arðsemi upp á arma sína heldur er túlkun hans á arðsemi nýstárleg. 
Bílar geta vissulega haft söfnunargildi og þá getur verið gott að þeir séu ekki útjaskaðir og eknir í botn. Það er þó heldur hæpin fullyrðing almennt að því minna gagn sem menn hafa af hlutum því meiri arðsemi megi reikna af þeim. Svona venjuleg Corolla árgerð ‘98, ekin 75 þúsund, með dráttarkrók, ABS og samlæsingu er sennilega ekki að sýna „verulega arðsemi“ með því að standa heima á hlaði þótt hún sé ekki að spæna upp malbikið á meðan. Bíleigendur greiða margfalt fyrir þá þjónustu sem þeir fá með gatnagerð. Það yrði þeim mjög í hag ef öllum sérstökum gjöldum og sköttum væri létt af bílum og eldsneyti og þeir greiddu beint fyrir notkun sína á vegum. Útgjöld meðalbíleigandans myndu lækka um nokkur hundruð þúsund krónur á ári ef hið opinbera hætti alveg að skipta sér af vegagerð og aflétti öllum  sérsköttum af bílum og notkun þeirra.

Svo mikið liggur við að menn hætti að fara af bæ á bílnum að þeir eiga ekki aðeins að skilja hann eftir heima heldur fer best á því, að mati forsetans, að bíllinn sé ónotaður á meðan menn eru í burtu. Bíllinn sé bæði heima og ónotaður. Það myndi rugla arðsemislíkan forsetans ef bíllinn væri í notkun heima á meðan bílstjórinn væri úti í bæ, til dæmis sem kartöflugeymsla eða  sjónvarpssófi. Og svo eru það minni tafir, minna álag og minna vinnutap sem forsetinn fullyrðir að fylgi því að skilja bílinn eftir heima, nb. ónotaðan. Þess vegna skilur Árni forseti bílinn sinn gjarnan eftir heima og fer bara á bíl forseta borgarstjórnar í staðinn eins og á bíllausa daginn. Þetta er því tímamóta upplýsing því flestir íbúar höfuðborgarsvæðisins halda í einfeldni sinni að bíllinn komi þeim skjótar milli staða en aðrir kostir. Þeir sem búa í einum borgarhluta og vinna í öðrum spara líklega vel á aðra klukkustund á hverjum degi með því að nota bíl í stað strætó til að fara í og úr vinnu, gera innkaup og skutlast með krakkana. Tíminn sem sparast er ekkert annað en minna vinnutap og minna álag. En þegar forsetinn hefur reiknað arðsemina er ekki um að villast; menn spara tíma og minnka álag með því að eyða rúmri klukkustund aukalega af hverjum degi ævi sinnar í ferðalög innanbæjar sem auðveldlega má komast hjá.

Í liðinni viku var kynnt ný áætlun fyrir vagna Strætó bs en sem kunnugt er hefur nýting þeirra verið afar léleg hin síðari ár. Í tilefni af nýju áætluninni sem taka á gildi næsta sumar sagði forstjóri Strætó bs að ætlunin væri að „kynna almenningssamgöngur sem raunhæfan og góðan valkost andspænis einkabílnum“. Það er að sjálfsögðu rétt að vona að nýting vagnanna verði betri með nýrri áætlun, annaðhvort með því að vögnunum fækki verulega eða farþegum fjölgi. Hins vegar er ekki útlit fyrir að það verði neitt raunhæft í samanburði á strætó og einkabílnum á næstunni. Strætó bs þiggur á annan milljarð króna í styrki frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu á ári hverju. Bíleigendur greiða aftur á móti himinháa skatta. Það er því ekkert raunhæft í samanburði á þessum kostum. Annar er stórkostlega niðurgreiddur af skattfé og hinn skattpíndur út í hið óendanlega.