Mánudagur 15. desember 2003

349. tbl. 7. árg.

Meiri dellan. Hversu oft verður þetta andvarp ekki nærtækara en önnur þegar íslenskir þjóðmálagasprarar ná sér á strik. Eigum við að líta á eins og þrjár frá síðustu dögum? Núnú, í gærkvöldi eyddi Sigmundur Ernir Rúnarsson tæpum klukkutíma í að fá það út úr Ómari Ragnarssyni að svo miklir steinar hefðu verið lagðir í götu hans við gerð kvikmyndar hans um virkjunarframkvæmdir að ljóst væri að ekki væri tjáningarfrelsi hér í borg eymdarinnar, höfuðborg ríkis óttans. Þegar svör Ómars voru skoðuð kom í ljós að ráðamenn landsins höfðu ekkert gert til að hindra Ómar í kvikmyndagerð hans og Landsvirkjun hafði veitt Ómari alla þá aðstoð sem hann hafði viljað og samskipti hans og fyrirtækins ætíð verið hin eðlilegustu. Málið var á endanum það að einhver eða einhverjir menn, vinveittir Ómari, höfðu spáð því við hann að einhverjir aðrir myndu reyna að „stöðva hann“ og svo höfðu einhverjir vísindamenn veigrað sér við að koma fram í myndinni eða láta Ómar hafa eitthvað eftir sér. Hvorki Ómari né Sigmundi virtist koma til hugar að á hvoru tveggja kynnu að vera einfaldar skýringar sem ekki réttlæta miklar upphrópanir. Hvorugum virtist koma til hugar, að ítrekaðar paranoiukenningar og traustsundangröftur sem ákveðinn hópur fólks hefur endurtekið í síendurunnum dagblaðapistlum eða þá í ræðum sem hann hefur haldið innan og utan Borgarness, hafi einfaldlega komið einhverju fólki til að hugsa með þessum hætti. Svo virtist hvorugum koma til hugar að eðlilegar skýringar gætu legið að baki því að einhverjir vísindamenn hikuðu við að koma fram eða tengjast mynd sem Ómar Ragnarsson gerir um virkjanaframkvæmdir þegar hann gerir hana á eigin vegum en óbundinn af þeim vinnureglum sem einhverjir ímynda sér eflaust að gildi um það sem gert er á vegum hefðbundinnar fréttastofu.

Jæja, förum þá yfir í næstu. Undanfarna daga hefur söngurinn um „sannfæringu þingmanna“ verið sunginn óvenju hátt og mikið. Stjórnmálaskýrandi eins og Ágúst Ágústsson þingmaur Samfylkingarinnar og aðrir utan þings hafa til dæmis skammast í Dagnýju Jónsdóttur, þingmanni Framsóknar, fyrir að hafa sagst greiða atkvæði á alþingi sem hluti af ákveðinni liðsheild. Þetta þykir þeim mönnum stjórnarskrárbrot sem hafa lesið en ekki skilið þau orð stjórnarskrárinnar að þingmaður skuli greiða atkvæði eftir „sannfæringu sinni“ en ekki við „reglur frá kjósendum sínum“. Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður tekið fram þá á stjórnarskráin hér ekki við að þingmaður þurfi að vera gríðarlega „sannfærður“ í hverju einasta máli heldur það að hann sé sjálfráða um atkvæði sitt. Það er svo hans sjálfstæða ákvörðun hvaða rök og sjónarmið hann lætur ráða atkvæði sínu. Auðvitað hafa þingmenn ólíkar áherslur og ekki sömu forgangsröð. Til að mál náist fram þá þarf meirihluti þeirra að semja um þá heildarniðurstöðu sem hópurinn kemst næst að geta gert að sinni. Auðvitað myndu einhverjir í hópnum, ef þeir mættu einir ráða, kannski vilja að einhver skattur yrði hálfu prósentinu hærri eða lægri en samstaða náðist um og svo framvegis, en ef allir ættu að svo að stökkva á allar breytingartillögur sem stjórnarandstaða hvers tíma leggur fram til þess að ganga í augun á hagsmunahópi eða sundra stjórnarmeirihlutanum, þá næðist aldrei sameiginleg niðurstaða um neitt.

Þriðja dellan má svo vera margt af því sem hefur verið hrópað í tilefni frumvarps um eftirlaun og starfskjör þingmanna, ráðherra og hæstaréttardómara síðustu daga. Hefur þar ýmislegt verið sagt umfram efni og ástæður. Sjálfsagt á Sigurjón Þórðarson, flutningsmaður og andstæðingur frumvarpsins, undarlegheitametið. Hann styður nú ekki frumvarpið og gefur á því þá skýringu að því hafi ekki verið breytt frá því sem það var þegar hann lagði það fram. Nótabene, málið er ekki það að frumvarpinu hafi verið breytt frá því hann lagði það fram, þá hefði nú mátt skilja að flutningsmaður léti af stuðningi sínum, nei frumvarpið er í meginatriðum eins og það var þegar Sigurjón gerðist flutningsmaður og það er víst það sem hann getur ekki sætt sig við. Síðastliðinn föstudag reyndu til dæmis sex þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu að rökstyðja frumvarpið í fjölmiðlum og allt í lagi með það. Sama dag var einn þingmaður, Ögmundur Jónasson, sem talaði í fjölmiðlum gegn frumvarpinu og hefur verið sjálfum sér samkvæmur allan tímann. Tveir aðrir þingmenn lýstu svo yfir andstöðu sinni í þingumræðum sama dag. Allt í lagi með þetta líka, hvort tveggja bara afstaða sem menn geta tekið; það sem hins vegar er ekki nothæf afstaða er að vera andvígur eigin frumvarpi á þeim forsendum að því hafi ekki verið breytt frá því maður lagði það fram. Og vel að merkja, það er ekki eins og Sigurjón Þórðarson hafi einfaldlega skipt um skoðun, fallist á einhverjar röksemdir, það hefði líka verið í lagi. Nei, ekkert slíkt, hann er bara á móti frumvarpinu fyrst það er eins og það var þegar hann var með því. Og til að tengja dellu tvö við dellu þrjú, þá er gaman til þess að vita að enginn rifjar nú upp frasana um „sannfæringu þingmanna“ þegar hinir og þessir virðast skipta um skoðun vegna hótana úti í bæ en ekki vegna þess að þeir hafi fallist á efnisleg rök.