Helgarsprokið 14. desember 2003

348. tbl. 7. árg.

Evrópusambandið er í tilvistarkreppu. Það hefur jafnan átt erfitt með að ná til almennings í aðildarríkjunum og hefur ætíð borið keim af því að vera gæluverkefni hinnar pólitísku elítu fremur en að eiga uppruna sinn meðal alþýðunnar. Enda hefur það sjaldan notið óskoraðrar hylli fjöldans og hefur stuðningur við það að jafnaði verið meiri meðal þingmanna og ráðherra. Í helgarsproki dagsins verður farið yfir nokkur atriði varðandi ESB sem verið hafa í fréttum undanfarnar vikur. Vefþjóðviljinn telur þessi atriði draga upp ágætis mynd af ýmsum ágöllum við uppbyggingu stofnana, feril ákvarðana og lýðræði í ESB sem meðal annars hafa átt þátt í að draga úr tiltrú óbreyttra borgara á sambandinu.

„Þegar stórveldin brjóta í bága við stöðugleika- sáttmálann, beita þau yfirburðastöðu sinni til að þvinga fram vilja sínum og eru veittar undanþágur. En þegar smáríkin Írland og Portúgal lentu í vandræðum var enga náð að fá og var hart gengið eftir því að þau uppfylltu skilyrði sáttmálans.“

Tveir þættir varðandi ESB sem fylgismenn þess hafa oft bent á sem dæmi um ágæti sambandsins, hafa verið í fréttum undanfarið. Annars vegar stöðugleikasáttmáli Efnahags- og myntbandalagsins sem koma á í veg fyrir að ríkisstjórnirnar freistist til að hafa mikinn fjárlagahalla og hins vegar aukin áhrif Evrópuþingsins á löggjöf sambandsins sem hafi það að markmiði að betrumbæta lýðræðið í ESB.

Stöðugleikasáttmálinn setur ríkjum ESB, sem taka þátt í Efnahags- og myndbandalaginu, strangar leikreglur í efnahagsmálum. Ein grundvallarreglan er að halli ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu. Hugmyndin með sáttmálanum er að stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum og halda verðbólgu niðri. Fari ríki fram úr þessum viðmiðum, er heimilt að beita viðurlögum svo sem sektum. Hafa til dæmis bæði Írland og Portúgal fengið gula spjaldið fyrir meiri fjárlagahalla en sáttmálinn leyfir. Fylgismenn sáttmálans hafa lagt áherslu á að það veiti ríkisstjórnum sérstakt aðhald og sé einkar velheppnað tæki til að koma í veg fyrir að ríkisstjórnir mæti efnahagsniðursveiflu með auknum ríkisútgjöldum og þar með auknum fjárlagahalla. Gott og vel. Nú skal ósagt látið hvort um er að ræða áhrifamikið tæki til að ná nefndum markmiðum. Aðalatriðið er að ríkin hafa komið sér saman um ákveðnar leikreglur og það er grundvöllur vel heppnaðs og metnaðarfulls samstarfs að sömu reglur gildi fyrir öll ríkin í samstarfinu og sömu viðurlög þegar brugðið er út frá reglunum. Og því víðtækara og umfangsmeira sem samstarfið er, þeim mun mikilvægari er þessi þáttur.

ESB samstarfið á sér enga hliðstæðu. Það er samstarf sjálfstæðra ríkja (ekki orðið að ríki) en gengur jafnframt lengra en annað alþjóðlegt samstarf. Það er eins konar blendingur hefðbundins milliríkjasamstarfs og ríkis. ESB hefur þannig yfirþjóðlegt vald, lög sambandsins á ákveðnum sviðum eru æðri lögum hvers aðildarríkis. Sum taka gildi í aðildarríkjunum um leið og þau eru sett en önnur staðfesta ríkin, efnislega óbreytt. Sviðunum sem ESB hefur heimild til að setja lög og reglur á, fjölgar sífellt. Í slíku samstarfi er ærin ástæða til að aðildarríkin geti treyst því að sömu reglur gildi fyrir alla.

Þannig er því ekki alltaf farið. Stórveldin í ESB, Frakkland og Þýskaland, kröfðust þess til dæmis í nóvember að fá undanþágur frá ákvæðum stöðugleikasáttmálans. Fram að því hafði framkvæmdastjórnin ítrekað varað löndin við því að þau yrðu beitt sektum ef þau héldu sig ekki innan 3% fjárlagahallamarkanna. Í krafti stöðu sinnar sem mestu þungavigtarríkin í ESB, tókst þeim að knýja fram samkomulag á fundi ráðherra Evru-landanna, við litla ánægju margra aðildarríkja og framkvæmdastjórnarinnar. Það fól í sér að þau komast hjá að greiða gífurlegar sektir fyrir að hafa meiri halla en sáttmálinn kveður á um.

Það er því ekki sama Jón og séra Jón í samstarfinu. Hver er tilgangurinn að hafa reglur, sem hugsaðar eru sem aðhaldstæki fyrir ríkisstjórnir ESB-landanna, ef þær eru virtar að vettugi, einmitt þegar þeirra er þörf? Þegar stórveldin brjóta í bága við stöðugleikasáttmálann, beita þau yfirburðastöðu sinni til að þvinga fram vilja sínum og eru veittar undanþágur. En þegar smáríkin Írland og Portúgal lentu í vandræðum var enga náð að fá og var hart gengið eftir því að þau uppfylltu skilyrði sáttmálans. Auk þess að eyðileggja samstarfsandann í ESB, hefur þetta í för með sér að tiltrú og traust borgaranna á ESB minnkar. Gerhard Schröder, kanslara Þýskalands, finnst þetta þó ekkert stórmál og hefur sagt að ekki beri að túlka þessar reglur allt of kreddufast. Það var þó gert þegar Írland og Portúgal áttu í hlut. Nú hefur Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagt að réttast væri að aðlaga stöðugleikasáttmálann svo að hann verði áhrifameira tæki. Það er með öðrum orðum í lagi að breyta sáttmálanum, þegar hann passar stórveldunum ekki lengur.

Nóg um það. Hvernig skyldi lýðræðinu vera komið í ESB? Eftir því sem ESB hefur fengið heimild til að setja lög og reglur á fleiri sviðum, hefur gagnrýnin aukist á að lýðræðislegu stjórnarfari ESB sé ábótavant. Helst hefur verið reynt að bæta lýðræðið með að auka áhrif Evrópuþingsins sem er eina stofnun ESB sem kosið er til í beinum lýðræðislegum kosningum. Reyndar er þátttaka í Evrópuþingskosningum í löndunum jafnan lág enda er þingið valdalítið í samanburði við þjóðþingin. Ólíkt þjóðþingunum hefur Evrópuþingið ekki heimild til að leggja fram lagafrumvörp, en áhrif þess hafa verið aukin með því að veita því neitunarvald og rétt til að setja fram breytingartillögur varðandi löggjöf á ákveðnum sviðum. Þróunin hefur verið sú að þingið hefur fengið neitunarvald á æ fleiri sviðum og enn fleiri munu bætast við, ef nýi stjórnarskrársáttmálinn nær fram að ganga. Þrátt fyrir að þessu auknu völd Evrópuþingsins hafi ekki skilað sér í aukinni þátttöku í Evrópuþingskosningum, hafa lobbíistar komið auga á þessa staðreynd. Í nýrri greinargerð Austurríkismannsins og Evrópuþingmannsins Hans-Peter Martin, er bent á að lobbíistar í Brussel beini spjótum sínum í æ ríkari mæli að Evrópuþinginu. Það sé þekkt staðreynd, að þingmenn geri tillögur lobbíista að sínum og leggi þær orðrétt fram sem eigin breytingatillögur við ESB-löggjafarfrumvarp. Flestum kemur svona ógagnrýnin afritun texta spánskt fyrir sjónir. Sérstaklega þegar haft er í huga að hann kemur frá aðilum sem eiga mikið undir því að hafa áhrif á löggjöf ESB. Þetta er enn meira áhyggjuefni í ljósi þess að ólíkt því sem er í Bandaríkjunum, sem eiga langa hefð fyrir lobbíisma, eru reglurnar í sambandi við starfsemi lobbíista í ESB takmarkaðar. Hættan á að óeðlilega geti verið staðið að málum eykst. Það getur jafnframt reynst erfitt að fylgjast með og hafa eftirlit með hvort svo sé. Ljóst er að sjónarmið hins almenna borgara eiga ekki auðveldara uppdráttar með auknum áhrifum lobbíista sem starfa í umhverfi með fáum reglum. Þetta vekur upp þær spurningar hverjum aukin völd Evrópuþingsins koma til góða. Almenningi eða gæslumönnum og gæslustofnunum sérhagsmuna?

Þetta eru ekki einu vandamálin sem ESB á við að etja. Þessa dagana eru ríki ESB að reyna að berja saman stjórnarskrársáttmála sambandsins en eiga erfitt með að ná sátt um helstu ágreiningsatriði. Einna erfiðlegast gengur þeim að ná saman um samsetningu og stærð framkvæmdastjórnar ESB og vægi atkvæða ríkjanna í ráðherraráðinu. Meðalstóru ríkin og smáríkin hafa haft hlutfallslega mörg atkvæði í ráðherraráðinu í samanburði við stórveldin, miðað við fólksfjölda. Það kemur smáríkjunum jafnframt vel að enn er að minnsta kosti einn frá hverju þjóðríki í framkvæmdastjórn ESB. Þetta hefur veitt smáríkjunum hlutfallslega mikið vægi. Smærri ríkin telja fyrirhugaðar breytingar á stofnunum sambandsins, koma stóru ríkjunum til góða en ganga á hagsmuni hinna smærri. Og vitanlega finnst stórveldunum á hlut sinn hallað, þegar atkvæðavægi þeirra er hlutfallslega margfalt minna en sumra smærri ríkjanna. Ef marka má fréttir í gær af slitum á viðræðum leiðtoga ríkja ESB virðast stórveldin ekki ætla að gefa eftir og ákvörðunum um helstu álitamál hefur nú verið slegið á frest. Vonir smærri ríkjanna um að fá aukin áhrif eða halda þeim sem þau hafa, með tilkomu stjórnarskrársáttmála ESB, dvína. Hlutfallslega sterk staða í framkvæmdastjórninni og ráðherraráðinu hefur kannski líka takmarkað gildi ef stærri ríkin þvinga hvort eð er vilja sínum í gegn í krafti stærðar sinnar og valds þegar á reynir og ráða þannig í raun ferðinni. Hlutfallslegt afl er á endanum ekki það sem máli skiptir, heldur raunverulegt afl.

Pólitíska elítan er áhugasöm um Evrópusambandið, en almenningur miklu síður. (Mynd: Lennart Perlenhem)

ESB er fyrst og fremst gæluverkefni pólitískrar elítu og aðeins að takmörkuðu leyti almennings. Það er langur vegur á milli þeirra sem taka ákvarðanirnar í ESB og almennra borgara í aðildarríkjunum, sem eru undir reglurnar settir. Aðeins í undantekningartilfellum hafa ríkisstjórnir aðildarríkjanna þorað að spyrja borgarana álits um málefni er varða ESB. Einungis 7 af 15 aðildarríkjum hafa lagt stærri ESB málefni fyrir dóm þegna sinna. Í flestum tilfellum var um að ræða spurninguna um aðild að sambandinu. Einu ríkin, sem hafa hefð fyrir því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stærri breytingar á samningum samstarfsins, eru Írland og Danmörk. Allt er hins vegar á sömu bókina lært. Ef niðurstaðan er ekki í samræmi við vilja pólitísku elítunnar, nú þá er bara kosið aftur. Í þau skipti sem Danir og Írar hafa hafnað nýjum samningum samstarfsins í þjóðaratkvæðagreiðslu, hefur verið kosið aftur. Þjóðaratkvæðagreiðslurnar hafa valdið ríkisstjórnum beggja landa vandræðum, bæði innanlands og í samstarfinu. Það féll ekki heldur frönsku ríkisstjórninni í geð, þegar Frakkar samþykktu Maastricht samninginn naumlega 1992, samning sem Danir felldu. Sporin hafa sjálfsagt hrætt önnur ríki frá því að halda þjóðaratkvæðagreiðslur enda hafa skoðanakannanir oft sýnt að stuðningur við samstarfið og einstaka samninga þess er takmarkaður. Ríkisstjórnirnar hafa takmarkaða löngun til að taka áhættuna. Auk þess er dýrt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, svo ekki sé talað um ef hætta er á að það þurfi að endurtaka hana til að fá viðunandi niðurstöðu.

Elítan kann því engan veginn að almenningur hafni því sem hún setur fram. Þegar haldnar hafa verið þjóðaratkvæðagreiðslur hefur stundum verið gripið hótana á borð við að hafni þjóðin samningnum, sem kosið er um, verði það hugsanlega fyrsta skrefið á leið úr samstarfinu. Romano Prodi sagði í viðtali við Irish Times 3. desember, að ef eitthvert ESB-ríkjanna samþykkti ekki stjórnarskrárdrögin, gæti viðkomandi ríki þurft að segja sig úr ESB. Það gangi ekki að eitt ríki geti stöðvað samrunaferli ESB. Hann segir hins vegar ekkert um það hvar sanngirnismörkin liggi. Hvað ef fimm lönd eða tíu samþykkja ekki drögin?

Þetta lýsir ekki beinlínis lýðræðislegum þankagangi. Þegar allt þetta er skoðað í samhengi er ekki skrýtið þó að almenningur hafi efasemdir í garð samstarfsins. Stundum reyndar svo miklar að minnihluti ESB borgara er fylgjandi þátttöku í samstarfinu. Það þarf ekki að koma á óvart að baslið í kringum stjórnarskrársáttmálann, umræðan um lýðræðið í ESB og frekjugangur stærri ríkjanna skilar sér í nýrri skoðanakönnun sem Eurobarometer hefur gert. Einungis 48% íbúa ESB ríkja telur jákvætt að eiga aðild að ESB samkvæmt könnuninni sem 16.000 manns tóku þátt í.

Í helgarsproki dagsins hefur verið bent á að:

  • Smærri og stærri ríkin í ESB hafa ólíka og jafnvel andstæða hagsmuni. Það gerir þeim erfitt að ná samkomulagi um mörg álitamál, eins og til dæmis það sem lýtur að atkvæðavægi hvers ríkis í ráðherraráðinu ásamt stærð og samsetningu framkvæmdastjórnarinnar.
  • Ríkjunum í samstarfinu er mismunað. Stórveldin geta í krafti yfirburðastöðu sinnar komið sér undan grundvallarreglum sambandsins og fengið ákvörðunum um ágreiningsmál slegið á frest.
  • Stóru ríkin ráða ferðinni, þegar mikið liggur við.
  • Það vantar reglur um starfsemi lobbíista. Ýmislegt bendir til þess að áhrif þeirra séu óeðlilega mikil.
  • Í ljósi þess hversu víðtæk áhrif ESB hefur á daglegt líf borgaranna í aðildarríkjunum, er lýðræðislegu stjórnarfari verulega ábótavant.

Ekki þarf að undra að Vefþjóðviljinn hefur efasemdir um ágæti uppbyggingu stofnana ESB, ákvarðanaferil og ástand lýðræðisins í sambandinu. Hér hafa verið raktar nokkrar geysilega margra ástæðna þess að Vefþjóðviljinn telur aðild Íslands að ESB ekki koma til greina. ESB aðild þjónar ekki hagsmunum smáríkis eins og Íslands. Áhrif landsins innan sambandsins yrðu hverfandi og Ísland myndi hljóta minni hlutdeild í fullveldi annarra ríkja en landið þyrfti að gefa upp af fullveldi sínu. Jafnframt yrði kostnaður er fylgdi aðildinni væntanlega meiri en ávinningurinn

Þó að engum detti í hug að halda því fram að EES-samningurinn sé fullkominn, þá veitir hann Íslandi aðgang að því sviði samstarfsins sem er mikilvægast fyrir Ísland; innri markaði ESB. Jafnframt sleppur Ísland við að taka þátt í samstarfi á sviðum sem fela í sér fleiri ókosti og síður samrýmast hagsmunum Íslands.