Miðvikudagur 17. desember 2003

351. tbl. 7. árg.

Ígær staðfesti matsfyrirtækið Standard & Poor lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins, vegna lána í erlendri mynt sem íslenskri. Einkunnirnar hljóma jafn skiljanlega og A+/A-1+ fyrir lán í erlendri mynt og AA+/A-1+ fyrir lán í íslenskum krónum, en þó hér sé gefið á öðrum kvarða en margir eru vanir þá eru þessar einkunnir afar góðar. Og fyrirtækið bætti um betur og tilkynnti að það mæti horfur hér nú „jákvæðar“ en ekki „stöðugar“ eins og áður. Skýringarnar á þessum vitnisburði um ástand og horfur á Íslandi voru meðal annars sagðar sterkt stjórnkerfi, traustar samsteypustjórnir, auðugt og sveigjanlegt hagkerfi og góð staða opinberra fjármála sem stæðu traustum fótum. Þetta er ekki slæm lýsing og nokkuð önnur mynd en sumir hafa reynt að draga upp af ástandi mála. En það er svo sem ekki nýtt að erlendar stofnanir sjái íslensk málefni í öðru ljósi en margir sem lætur hátt í hér heima.

Alþjóðleg samtök blaðamanna hafa gefið það út að hvergi sé tjáningarfrelsi betur varið en á Íslandi. Íslenskir fjölmiðlamenn láta hins vegar stundum eins og hér sé tjáningarfrelsið fótum troðið og dagblöð og sjónvarpsþættir eru full af mönnum sem segja að þeim sé bannað að tjá sig. Alþjóðlegar stofnanir setja Ísland í annað sætið á lista þeirra ríkja þar sem minnst spilling sé í heiminum. Hér heima er daglega einhver sem hrópar bananalýðveldi bananalýðveldi. Nýlega fékk Ísland að utan þá einkunn að jafnrétti kynjanna væri óvíða tryggara en hér. Þeir sem á hinn bóginn sækja heimsmynd sína í til dæmis forystugreinar Morgunblaðsins, sem stundum kemur fyrir sjónir sem dagblaðsútgáfa Veru, ganga hins vegar eflaust í þeirri trú að á Íslandi sé þvert á móti brotið á konum á flestum sviðum. Og að það þurfi að auka verulega opinberar aðgerðir til að hygla konum og þá um leið að halda karlmönnum niðri.

Reyndar er sérstaklega óviðkunnanlegt hvernig sumir fjölmiðlamenn láta eins og tjáningarfrelsi sé síst virt á Íslandi. Það eru nefnilega til fjölmörg lönd þar sem tjáningarfrelsi fólks nær ekkert. Og fyrir fáum árum voru þau lönd mun fleiri en nú er. Fáir ættu að finna meira til þess en blaðamenn og rithöfundar hversu tjáningarfrelsið er dýrmætt og fáum ætti að vera þverar um geð að nota hugtök eins og „skerðing á tjáningarfrelsi“ og „skoðanakúgun“ af þeim óþarfa sem hér er iðulega gert. Þessir menn sem aldrei virðast fá nóg af því að úthúða óskilgreindum öflum fyrir að skerða „skoðanafrelsi“ sitt mættu hugsa til þess að í þeim löndum þar sem menn geta sér að refsilausu haldið því fram að þeir njóti ekki tjáningarfrelsis, þar njóti þeir kannski tjáningarfrelsis.