Ádögunum hurfu um 400 milljónir manna sporlaust. Þótt Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra hafi meitlað kenninguna „Árdegið kallar – áfram liggja sporin!“ breytir það því ekki að þessar milljónir hafa aldrei skilið eftir sig spor því þær voru aðeins til í spálíkönum mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNPD). Stofnunin lækkaði nýlega miðgildi spár sinnar um mannfjölda á jörðinni árið 2050 um 400 milljónir. Þessi lækkun á spánni er frá annarri spá sem er aðeins tveggja ára gömul. Stofnunin gerir nú ráð fyrir að 8,9 milljarðar manna búi á jörðinni árið 2050. Opinberar stofnanir eiga sér langa sögu í því að skjóta yfir markið í þessum efnum og ef marka má reynsluna verða menn 8 til 8,5 milljarðar að tölu árið 2050. Til að mynda gerði utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna ráð fyrir því árið 1969 að fólksfjöldinn færi í 7,5 milljarða árið 2000 en samkvæmt UNPD hrærast nú 6,3 milljarðar manna á jörðinni.
„Nú búa nær tvöfalt fleiri á jörðinni en þegar Hardin ritaði „The Tragedy of the Commons“ og aldrei áður hafa jafn margir haft það jafngott. Flestir mælikvarðar á mengun sýna að mengun á Vesturlöndum hefur farið minnkandi áratugum saman þótt Hardin teldi það óhugsandi. Litlar spurnir eru af þeirri auðlindaþurrð sem Hardin taldi blasa við.“ |
Á síðustu áratugum síðustu aldar höfðu menn miklar áhyggjur af „mannfjöldasprengingunni“. Þessar áhyggjur hafa fylgt manninum um aldir og af og til hefur verið mjög í tísku að óttast sprenginguna. Marxistar voru mjög áhyggjufullir yfir því að kapítalisminn myndi leiða til hungurs og vosbúðar. Margir marxistar urðu síðar að græningjum og héldu áfram að hafa áhyggjur af þessu. Voru þessar áhyggjur mjög áberandi á sjöunda og áttunda áratug 20. aldarinnar. Voru margir – ekki síst menntamenn – á því að innan nokkurra ára færi allt fjandans til vegna offjölgunar mannkyns, mengunar og auðlindaþurrðar. Svo menn átti sig á því hversu geggjaðar þessar heimsendakenningar voru má jafnvel segja að spár Þorvaldar Gylfasonar prófessors, um að á Íslandi færi allt norður og niður ef ekki væri farið að ráðum sínum, hafi verið þokkalega gáfulegar í samanburði við það sem græningjarnir boðuðu. Þorvaldur ritaði heila bók, Síðustu forvöð, fyrir nokkrum árum þar sem hann sagði allt stefna norður og niður ef ekki yrði farið að sínum ráðum. Það væru síðustu forvöð. Í engu farið að ráðum Þorvaldar en við tók einn mesti fjörkippur í íslensku efnahagslífi sem um getur.
Meðal þeirra sem höfðu áhyggjur af mannfjöldasprengingunni var heimspekingurinn og líffræðiprófessorinn Garret Hardin sem þekktastur er fyrir ritgerð sína „The Tragedy of the Commons“ en hún olli miklu uppnámi þegar hún birtist í tímaritinu Science árið 1968. Í ritgerðinni rökstyður Hardin nauðsyn þess að taka upp einhvers konar opinbera mannfjöldastýringu því aðeins með því að takmarka fólksfjölgun mætti koma í veg fyrir rányrkju í almenningum jarðar og yfirþyrmandi mengun. Hardin eyddi stórum hluta ævi sinnar í baráttuna gegn fólksfjölgun. „Frelsi til fjölgunar er óþolandi“, voru hans orð. Hann var einarður stuðningsmaður fóstureyðinga, ekki aðeins rétti konunnar til að láta eyða fóstri, heldur því góðverki sem í því fælist að koma í veg fyrir nýtt líf. Hardin hafði samúð með aðgerðum stjórnvalda í Kína, bæði banni þeirra við barneignum og þvinguðum ófrjósemisaðgerðum og vildi að ófrjósemisaðgerðir næðu til allra þróunarlandanna.
Nú búa nær tvöfalt fleiri á jörðinni en þegar Hardin ritaði „The Tragedy of the Commons“ og aldrei áður hafa jafn margir haft það jafn gott. Flestir mælikvarðar á mengun sýna að mengun á Vesturlöndum hefur farið minnkandi áratugum saman þótt Hardin hafi talið það óhugsandi. Litlar spurnir eru af þeirri auðlindaþurrð sem Hardin taldi blasa við. Þótt Hardin hafi haft rangt fyrir sér um margt voru ýmis varnaðarorð hans um óhefta efnishyggju ágæt áminning en frægust þeirra eru líklega „The maximum is not the optimum“.
Hardin hélt fast við sinn keip allt til dauðadags. Síðasta verk hans var vissulega liður í langri baráttu gegn of mörgu fólki. Hann svipti sig lífi ásamt eiginkonu sinni til 62 ára í september síðastliðnum en þau voru bæði farin að heilsu. Í bandaríska dagblaðinu The Wall Street Journal var Hardins minnst með þeim orðum að þrátt fyrir allt væri gott að foreldrar Hardins hefðu ekki farið að þeim ráðum sem Hardin síðar hélt svo mjög að mönnum. Heimurinn hefði ekki orðið betri án hans.