Mánudagur 10. nóvember 2003

314. tbl. 7. árg.
Lifandi sædýrasöfn eru vinsæl um allan heim og höfða til breiðs hóps. Slíkt safn hér yrði í senn safn lifandi fiska og fróðleiksnáma fyrir unga og aldna um lífríki Norður-Atlants hafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna, mengun og umgengni um hafið. Þar mætti fræðast um ástand fiskistofna, umhverfismál og fleira sem snertir Ísland og hafið á lifandi og áhrifaríkan hátt, sögu fiskverndar, fiskifræði og hafrannsóknir. Sædýrasafn af þessum toga yrði og ætti að vera óður okkar Íslendinga til hafsins.
 – Úr greinargerð með tillögu til þingsályktunar um að kanna „kosti og hagkvæmni“ veglegs sædýrasafns.

Ó

Þessi verður von bráðar kominn á opinbera stofnun.

hamingju skattgreiðenda verður allt að vopni. Ríkisútgjöldin vaxa með ógnarhraða og boðuðum skattalækkunum hefur verið slegið á frest. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa því ákveðið að nú þegar allar skattalækkanir eru hvort eð er komnar út í hafsauga sé ekkert annað að gera en að ausa hafinu á land og setja á safn á kostnað skattgreiðenda. Þeir hafa því lagt fram tillögu þess efnis að Alþingi feli ríkisstjórninni að láta „kanna kosti og hagkvæmni þess, með tilliti til ferðaþjónustu og almannafræðslu um lífríki hafsins, að byggt verði upp á höfuðborgarsvæðinu veglegt sædýrasafn sem yrði í senn lifandi fiskasafn og fróðleiksnáma um lífríki Norður-Atlantshafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna og umgengni um hafið. Ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis um kosti og galla slíks safns ásamt kostnaðarútreikningi og tillögu að mögulegri fjármögnun, rekstrarformi og eignarhaldi fyrir 1. september 2004.“

Kannski er það rétt hjá flutningsmönnum að Alþingi og ríkisstjórn þurfi að láta kanna það fyrir sig hvort veglegt sædýrasafn er hagkvæmt. Það blasir augljóslega ekki við þingheimi eins og öllum öðrum. Enginn annar hefur sýnt því áhuga að hætta fé í slíkan rekstur. Ef sædýrasafn væri hagkvæmt mætti ætla að einhver framtaksamur maðurinn léti verða af því að byggja slíkt safn og græddi á sporði og ugga. Þingmennirnir tveir gætu jafnvel fengið fundarlaun fyrir að hitta á þessa gullnámu. Hver einasti landsmaður hefur hins vegar látið slíkan rekstur eiga sig um árabil. Hver einasti landsmaður hefur ákveðið að hætta ekki fé sínu í rekstur á „veglegu sædýrasafni“. Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir. Það er ekki nokkur einasti maður tilbúinn til að skrifa upp á hagkvæmni veglegs sædýrasafns.

Hins vegar er allt eins líklegt að skipuð verði opinber nefnd til að kanna hagkvæmnina. Hún mun á fyrsta fundi komast að sömu niðurstöðu og allir aðrir: það verður stórtap á veglega sædýrasafninu. Þá hefur nefndin um tvennt að velja. Hún getur annað hvort sagt satt eða haldið því fram að safnið verði „þjóðhagslega hagkvæmt“. Til að fá þjóðhagslega hagkvæmni má til að mynda fara leið Alfreðs Þorsteinssonar stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur þegar hann reiknaði út hagkvæmni lestar á milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Þá var allur stofnkostnaður einfaldlega settur til hliðar enda skemmdi sú leiðindatala útkomuna. Svo verður því slegið upp í öllum helstu fjölmiðlum að veglega sædýrasafnið muni standa undir sér alveg eins og tónlistarhúsið, Héðinsfjarðargöngin og Lína.net.