Þær eru ekki geðslegar aðstæðurnar sem margir námaverkamenn í fyrrum Sovétríkjunum vinna við. Kolaryk, vatnsflóð, grjóthrun og banvænar lofttegundir úr iðrum jarðar ógna heilsu þeirra og sumum tilvikum lífi. Eitthvert sjálfskipað góðmennið myndi kannski segja að þeir sem sitja í hlýjum stofum sínum og orna sér við ylinn frá kolabrunanum eða sjóða sér dýrindis kjötsúpu séu að gera sér mat úr eymd annarra. Ef íslenskir kvenkyns þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki fengju málið til meðhöndlunar myndu þeir sennilega byrja á því að gera kaup á kolum refsiverð. Ekki framleiðsluna og söluna heldur kaupin.
Væru ekki allir ánægðir ef námuverkamennirnir misstu vinnuna og þyrftu ekki framar að krafsa upp kolamola mörg hundruð metra undir yfirborði jarðar? Nei, reyndar ekki. Þeir fyrstu sem yrðu óánægðir væru kolanámumennirnir sjálfir. Þeir eiga sjálfsagt ekki margra kosta völ en þeir hafa með eigin dómgreind ákveðið að starf í námunum sé skásti kosturinn. Þeir þekkja aðstæður sínar betur en nokkur annar. Er hægt að kalla það nokkuð annað en fullkominn hroka og yfirgang ef einhver vildi hafa vit fyrir þeim í þessum efnum og taka ef þeim einn af fáum kostum sem eru í boði? Og það þann kost sem þeir hafa metið skástan! Sá sem gerir það er fyrst og fremst að hugsa um að sér líði sjálfum betur að þurfa ekki að hugsa til mannanna niðri í námunni þótt það hafi kostað þá vinnuna sem þeir töldu sinn besta kost.
Það er víða sem góðmennin vilja taka ráðin af einstaklingunum og ákveða hver á að vinna hvaða störf og hver ekki. Í fyrradag ritaði Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna grein í síðasta tölublað DV í bili þar sem hún gerir að umtalsefni frumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur og fleiri um að kaup á kynlífsþjónustu skuli varða fangelsisvist allt að tveimur árum. Þorbjörg segist á móti vændi en er engu að síður andvíg frumvarpinu. Eins og Þorbjörg bendir á er í frumvarpinu ekki gerð tilraun til að skilgreina hvað átt er við með kynlífsþjónustu. Erótísk símaþjónusta, nektardans, klámefni af ýmsu tagi og vændi getur allt fallið undir „kynlífsþjónustu“. Þorbjörg telur jafnfram mikið vafamál að staða þeirra einstaklinga sem leiðast út í vændi batni við að viðskiptavinir þeirra verði gerðir að sakamönnum.
Vændisstarfsemi á Íslandi er mikið til ósýnileg og mikil hætta er á að hún fari enn lengra undir yfirborðið en hún er nú þegar. Þar með yrði erfiðara að hjálpa þeim sem stunda vændi. …
Sumir telja það sérstakt fagnaðarefni að lagasetningin muni þurrka út mikinn hluta eftirspurnar eftir vændi. En er það fagnaðarefni? Hvað gerist þegar eftirspurn minnkar? Jú, verðið lækkar og þar með versnar afkoma vændiskvenna. En hitt skiptir ekki síður máli: löghlýðnari kúnnar hverfa á brott þannið að vændiskonan situr uppi með þá harðsvíruðu. Er að fagnaðarefni? … Vændi er ekki bara stundað í tengslum við alþjóðlega glæpahringi eða mikil skipulög umsvif. Þegar öllu er á botninn hvolft er hér um einstaklinga að ræða. Er líklegt að þeir söðli allir um og finna sér skyndilega nýtt og heilbrigt lífsviðurværi, bara ef „þjónustan“ sem þeir nú selja er bönnuð með lögum. Alls ekki. Miklu líklegra er að áþreifanlegasta breytingin sem hið nýja frumvarp færir þeim sé ný tegund viðskiptavina sem þeir gátu áður hunsað en ekki lengur. Viðskiptavina sem er líklegt að hafi sitthvað refsivert á samviskunni annað en að kaupa sér kynlífsþjónustu. |
Elsta dagblað landsins, DV, hefur skipt um eigendur eins og kynnt var all rækilega í fréttatímum og spjallþáttum sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi þar sem nýr stjórnandi blaðsins fór mikinn um eigin snilli í blaðaútgáfu. Fyrir rúmu ári hafði Gunnar Smári Egilsson unnið sér það til frægðar að hafa hjálpað til við að koma Pressunni, Eintaki og Fréttablaðinu fyrir kattarnef. Skjótt skipast veður í lofti því nú þurfa menn að venjast þeirri hugsun að hann sé í raun fjögurra blaða smári íslenskrar blaðaútgáfu.
ÞÞeir sem vilja styðja við útgáfu Vefþjóðviljans geta gert það með því að smella á hnappinn merktan Frjálst framlag hér til hliðar. Kostnaður við útgáfuna og kynningu á henni hefur frá upphafi verið greiddur með frjálsum framlögum lesenda.