Fimmtudagur 6. nóvember 2003

310. tbl. 7. árg.
Eins og þjóðfélag okkar er í dag á það ekki við að þeir, sem hæstu tekjur hafa, fái greiðslur úr almannasjóðum, hvort sem um er að ræða elli- eða örorkubætur, barnabætur eða aðrar tegundir greiðslna. Það stríðir gegn réttlætiskennd fólks. Það stríðir gegn almennri skynsemi. Það er ekki skynsamleg ráðstöfun á skattgreiðslum almennings.
 – Niðurlag leiðara Morgunblaðsins í fyrradag.

Ígær birti Morgunblaðið frétt um að staða fæðingarorlofssjóðs sé jafnvel enn verri en menn höfðu áður gert sér grein fyrir. Í fréttinni kemur fram að eigið fé sjóðsins verði uppurið eftir rúmt ár. Ástæðan fyrir því að gjaldþrot blasir við sjóðnum er að frá því ný lög um fæðingar- og foreldraorlof voru samþykkt í hendingskasti vorið 2000 hafa útgjöld hans farið langt fram úr áætlun. Framúrkeyrslan hefur verið á bilinu 30 til 77% öll þrjú árin. Til að mynda áætluðu þeir sem sömdu frumvarpið að útgjöld sjóðsins yrðu um 3 milljarðar króna á árinu 2003 en þau stefna nú í 5,3 milljarða króna.

Þegar Geir H. Haarde fjármálaráðherra var bent á það á sínum tíma að útgjöld sjóðsins væru að öllum líkindum vanáætluð brást hann afar illa við og taldi það algjörlega fráleitt. Nú þegar þessi mikla umframeyðsla er svo komin á daginn segir annar stuðningsmaður laganna, Pétur H. Blöndal alþingismaður, að eyðslan sé sérstakt fagnaðarefni. Hirðuleysi um fé skattgreiðenda hefur oft fengið Pétur til að hrópa og nú hrópar hann húrra þegar hann sjálfur á hlut að máli.

Og hver er svo ástæðan fyrir þessum miklu útgjöldum? Hún er afar einföld. Það eru engin takmörk fyrir því hvað bótaþegar geta fengið úr fæðingarorlofssjóði. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs fengu til að mynda 50 manns yfir 600 þúsund krónur á mánuði úr þessum almannasjóði. Þessir 50 hafa allir háar launatekjur og það er ástæðan fyrir því að þeir fá hæstu bæturnar úr velferðarkerfinu. Því betur settir sem menn eru því hærri bætur fá þeir. Ef Vefþjóðviljinn væri stóryrtur að upplagi myndi hann segja að þessar háu bætur til þeirra hæst launuðu stríði gegn réttlætiskennd fólks og almennri skynsemi.

Hvernig var það annars, studdi Morgunblaðið ekki setningu þessara laga um foreldra- og fæðingarorlof?