Þriðjudagur 28. október 2003

301. tbl. 7. árg.
Þéttleiki byggðar hér er langt undir þeim viðmiðunum nágrannalanda okkar sem telja að það þurfi um 50 íbúa á hektara til að standa undir góðri almenningsvagnaþjónustu, en hér eru íbúar að jafnaði 25 á hektara.
 – Úr greinargerð með tillögu Guðrúnar Ágústsdóttur forseta borgarstjórnar í borgarstjórn 1. júlí 1999.

Þétting byggðar er hugtak sem notið hefur vaxandi vinsælda meðal sveitarstjórnarmanna. Einhver hefur einhvern tímann misst út úr sér að þétting byggðar væri „umhverfisvæn“ og þar með þarf víst ekki frekari vitna við. Upp frá því vogar enginn sér að gagnrýna þéttingu byggðar.

Ýmis umhverfisverndarsamtök, sem hafa það helst á stefnuskránni að „breyta neyslumynstri“ manna, hafa tekið þéttingu byggðar opnum örmum. Það kemur ekki á óvart því þétting byggðar getur sameinað öll helstu stefnumál græningja, ekki síst það að taka bílinn af fólki og smala því svo í „almenningsvagna“.

Þétting byggðar þýðir ekkert annað en fleiri eiga að búa á sama bletti. Ef ekkert annað gerist eykst mengun við þéttingu byggðar. Fleira fólki og þar með fleiri farartækjum er stefnt inn á sama svæði. Ef byggð er þétt um 50% án þess að 33% íbúa láti bílana sína af hendi blasir við að styrkur útblástursefna á svæðinu eykst. Jafnvel getur þurft að fækka bílum enn meira því þétting leiðir til aukinna umferðartafa sem hafa að sjálfsögðu aukinn útblástur í för með sér. Los Angeles er ein þéttbýlasta borg Bandaríkjanna og þar hefur loftmengun jafnframt verið með mesta móti.

Hitt er svo annað mál að það er ekkert að því að fólk búi þröngt ef því sýnist svo. Oft liggur beint við að nýta óbyggð svæði í borgum þar sem götur, lagnir og aðrir innviðir eru þegar til staðar. Þetta getur verið afar hagkvæmt. Þá bara gerist það ef eftirspurn er eftir því. En hvernig er það svo þegar til stykkisins kemur? Styðja þeir sem tala mest fyrir þéttingu byggðar þéttinguna þegar að henni kemur eða verða þá önnur sjónarmið þyngri á metunum? Vinstri grænir eru miklir hugsjónamenn, svo miklir að það er þeirra helsta hugsjón að vera álitnir hugsjónamenn. Sem helstu fulltrúar græningja hér á landi hafa þeir gerst einarðir talsmenn þéttingar.

Í Kópavogi stendur nú til að nýta óbyggt land Lundar undir veglega háhýsabyggð. Eins og myndin af svæðinu ber með sér, en hún er fengin af kynningarvef hinnar nýju byggðar, væri um verulega þéttingu byggðar að ræða á þessu svæði. Með byggingunni yrði síðasti hluti landsins meðfram Nýbýlavegi nýttur undir byggð. Í stað örfárra íbúa kæmu um 1.300 íbúar í þéttri byggð. Samkvæmt kynningarvefnum verða tæplega 150 íbúar á hektara. Ætla mætti að hér væri því um draumaverkefni þeirra sem vilja þéttingu byggðar að ræða. Í síðustu viku sendi stjórn vinstri grænna í Kópavogi hins vegar frá sér ályktun þar sem sagði:

Háhýsi upp á 14-15 hæðir eru í engu samræmi við þá byggð sem er fyrir á svæðinu, hvorki í landi Kópavogs eða Reykjavíkur. VG telur eðlilegt að fram fari hugmyndasamkeppni um skipulag svæðisins og að vilji íbúa bæjarins sé virtur.