Mánudagur 27. október 2003

300. tbl. 7. árg.

Álaugardaginn var haldin ráðstefna um atburðarými og vonandi hafa fæstir misst af henni. Morgunblaðið er jafnan fundvíst á það sem máli skiptir í landinu og ræddi því á laugardaginn við Geir Svansson, framkvæmdastjóra Nýlistasafnsins sem hélt ráðstefnuna. Geir útskýrði málin með einföldum og skýrum hætti eins og vænta mátti: „Atburðarými er hugtak sem ýmsir hafa notað, bæði í heimspeki og arkítektúr, til að undirstrika að rými eigi hvorki né geti verið hlutlaust og óvirkt. Þetta þýðir að list sem sett er upp í rýminu hefur áhrif á rýmið og rýmið hefur áhrif á listaverkið. Um þetta snýst ráðstefnan.“. Þetta segir sig auðvitað sjálft og ráðstefnan ákaflega þörf og umræðan þar „mjög hagnýt“ eins og Geir segir í viðtalinu. Ráðstefnan fór fram í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur eins og eðlilegt er, og Geir nefndi einmitt að ráðstefnan væri „hagnýt“ fyrir Orkuveituna „sem er með sýningarsal og er að fóta sig, reyna að finna einhverja hugmyndafræði fyrir salinn“.

Þetta er allt hið gagnlegasta og ráðstefnan fyllilega virði allra þeirra peninga sem hún hefur kostað. Ráðstefnuhaldarar einskorðuðu sig ekki einu sinni við að fjalla um „atburðarými“ heldur var þar einnig „fjallað um pólitísku víddina í rými, þarna [voru] dæmis þrjár konur frá London sem [tóku] feminískt sjónarhorn á rými“ – og var vissulega kominn tími til að einhver tæki feminískt sjónarhorn á rými og afar hagkvæmt að það hafi verið gert á ráðstefnu í húsakynnum Orkuveitunnar sem einmitt um þessar mundir er að reyna að fóta sig og finna hugmyndafræði fyrir sýningarsal sinn.

Yfirskrift ráðstefnunnar var ekki síður lýsandi en viðtalið við Geir, en hún nefndist „Verðandi rými – hugmyndafræði, sköpun og ívera í manngerðu umhverfi“, og sagði Geir að „nokkuð augljóst um það bil“ væri hvað hugtakið „verðandi rými“ merkti, en það væri „rými sem er ekki orðið, er ekki, heldur er sífellt verðandi“ og bætti því við að hugtakið sé „reyndar vísun í ákveðna heimspeki, póststrúktúralíska heimspeki“ – en það þarf auðvitað ekki að segja lesendum Vefþjóðviljans.

Og svo er til fólk sem heldur að íslenskir menningarvitar séu bara einhverjir bullukollar.