Á þessu ári eru hundrað ár frá fyrsta flugi Wright bræðra. Á þessum hundrað árum hafa flugvélar stækkað, þeim fjölgað, þær flogið hraðar, hærra og lengra og flogið oftar og oftar með sífellt fleiri farþega og farangur. Flug hefur líka orðið öruggari ferðamáti, reyndar öruggari en flestir aðrir ferðamátar. Og svo hefur verðið lækkað, en eiginlega bara alveg upp á síðkastið ef litið er til þessara hundrað ára. En þrátt fyrir allar þessar framfarir þá hefur flugrekstur ekki skilað arði svo heitið geti undanfarin sextíu ár. Á þetta er bent í nýlegri grein í The Economist.
„…hér skal ekki gert lítið úr því að ýmis vandi flugumferðar hefur verið leystur með skynsamlegum reglum sem banna mönnum að gera sitthvað fáránlegt. En vandi flugrekstrar hefur verið búinn til með því að setja fáránlegar reglur sem banna mönnum að gera sitthvað skynsamlegt. “ |
Það sem hefur komið í veg fyrir að flugrekstur skili arði og það sem hefur komið í veg fyrir að fargjöld séu lægri en raun ber vitni er fjöldinn allur af lögum og reglugerðum sem kveða á um hver megi fljúga hvert, með hvað og hversvegna. Og það er mikilvægt að hafa í huga að þessar reglugerðir eru á engan hátt til þess fallnar að auka öryggi í flugi eða til að greiða fyrir flugumferð eins og stundum er látið liggja að þegar reglugerðirnar eru gagnrýndar. Það eru vissulega margar reglur sem eiga við þegar flogið er með farþega frá einum stað til annars og hér skal ekki gert lítið úr því að ýmis vandi flugumferðar hefur verið leystur með skynsamlegum reglum sem banna mönnum að gera sitthvað fáránlegt. En vandi flugrekstrar hefur verið búinn til með því að setja fáránlegar reglur sem banna mönnum að gera sitthvað skynsamlegt.
Á árunum 1938 – 1978 heyrði flugrekstur í Bandaríkjunum undir stofnun sem hét Civil Aeronautics Board (CAB). Þessi stofnun hafði á valdi sínu hvaða leiðir ákveðin flugfélög máttu fljúga og hvert fargjaldið ætti að vera á þessum sömu leiðum. Eins og gefur að skilja takmarkaði þetta alla samkeppni og olli því að flugfargjöld voru miklu hærri en þau hefðu annars verið á frjálsum markaði. Þær aðferðir sem CAB notaði við úthlutun flugleiða leiddu til þess að ákveðnum flugfélögum var hampað á kostnað annarra og héldu um leið hugsanlegum keppinautum með öllu fyrir utan markaðinn. Til allrar lukku fyrir flugfarþega þá var vald CAB afnumið með lögum, The Airline Deregulation Act, árið 1978. Afnám reglugerðanna náði til fargjalda og flugleiða en eftir sátu meðal annars flugvellir og flugumferðarstjórn sem heyrðu undir Federal Aviation Administration (FAA).
Þetta hafði í för með sér að á fyrsta áratugnum eftir afnám reglugerðanna fjölgaði störfum í greininni um 32 prósent, flugfarþegum um 55 prósent og fargjöld lækkuðu um 17 prósent á stærstu leiðunum. Undir lok næsta áratugar hafði miðaverð lækkað um 20 prósent og heildarfjöldi farþega hafði vaxið úr 275 milljónum í 600 milljónir. Neytendur spöruðu um 20 milljarða Bandaríkjadala á ári með lægri fargjöldum. Fram á sjónarsviðið kom ný gerð flugfélaga á borð við Southwest, sem skilaði arði ár eftir ár.
Hjá Kémed-Airlines gildir sú sjálfsagða regla að leiga á fallhlíf er innifalin í farmiðaverði. |
Evrópa fylgdi svo á eftir, reyndar langt á eftir, því árið 1997 eða hartnær tuttugu árum síðar, var reglugerðum breytt í Evrópu þannig að evrópsk flugfélög máttu fljúga hvar sem var á evrópska efnahagssvæðinu. Flestir þekkja þá byltingu sem þar hefur orðið með tilkomu fyrirtækja eins og Ryanair og Easyjet og breytinga á rekstri eldri flugfélaga.
Eftir stendur að bandarísk flugfélög njóta ekki sama frelsis og evrópsk í Evrópu og evrópsk flugfélög njóta ekki sama frelsis og bandarísk njóta í Bandaríkjunum. Þannig geta Evrópubúar ekki notið lágra fargjalda Southwest innan Evrópu og Bandaríkjamenn ekki notið lágra fargjalda Ryanair innan Bandaríkjanna.
Í byrjun þessa mánaðar hófust viðræður milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um að aflétta þeim bönnum sem hvíla á flugferðum yfir Atlantsála en þessi bönn eru oftast kölluð því kaldhæðnislega nafni frelsin sjö. Og það sem meira er, það bjó engin kaldhæðni að baki þessri nafngift, hún er einfaldlega samin af mönnum sem deildu þeirri skoðun með Friðriki mikla að allt sé bannað nema það sé sérstaklega leyft.
Í The Economist er lagt til að nýr samningur verði stuttur og einfaldur og svohljóðandi: „Regla númer eitt: það verða engar reglur, aðrar en reglur markaðarins.