Laugardagur 25. október 2003

298. tbl. 7. árg.

Vinstrimenn eru sýnilega í miklum vanda eftir að forystumenn R-listann losuðu sig við einn af varaborgarfulltrúum sínum vegna óþæginda. Varaborgarfulltrúinn, Steinunn Birna Ragnarsdóttir, vildi hafa aðra skoðun á einu húsi í bænum en forysta R-listans, en slíkt er ekki leyfilegt því R-listinn er önnum kafinn við að efla lýðræðið í borginni. Sem kunnugt er stundar R-listinn og helstu forystumenn hans þar að auki eingöngu samræðustjórnmál, en ekki þessa lágkúrulegu kappræðu þar sem reynt er að hafa þá undir sem eru annarrar skoðunar og helst að þagga niður í þeim.

En vinstri menn eru sem sagt í vanda vegna málsins, því það hafa ekki allir aðrir áttað sig á því hvers vegna það þjónar lýðræðisástinni og samræðustjórnmálunum að banna fólki að tala um gömul bíóhús. Og hvað gera vinstri menn þá, jú, þeir drepa umræðunni á dreif og nýta sér við það þjálfun sína í samræðustjórnmálum. Illugi Jökulsson ritar til að mynda grein í Fréttablaðið þar sem hann tekur undir með félaga sínum í sama blaði að þetta óhefðbundna brotthvarf varaborgarfulltrúans sýni alls ekki ósamlyndi innan R-listans, heldur miklu frekar „óhóflega samstöðu“. Og Illugi, sem jafnan hefur að eigin áliti þekkingu á öllum málum, hefur að eigin sögn of litla þekkingu á þeim málefnum sem urðu til þess að varaborgarfulltrúinn hrökklaðist á brott eða á bíóinu sem deilt var um. Hann kemst því ekki til þess að hneykslast á skorti á umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra, lýðræðisþroska, eða hvað það nú væri kallað ef annar flokkur en R-listinn ætti í hlut. Þetta mál er nefnilega þannig vaxið, af því að það kemur sér illa fyrir R-listann, að það verður að skoðast í víðara samhengi. Samhengið verður raunar að vera svo vítt að málið sé helst alls ekki nefnt.