Ef draga á einhvern lærdóm af því hve hratt útgjöld ríkis og sveitarfélaga hafa aukist á síðustu árum mætti helst ætla að hugtakið sparnaður væri ekki lengur til í opinberum rekstri og niðurskurður væri bannaður. Þá hlýtur svarið nei að vera með öllu merkingarlaust gagnvart þeim sem sækja í opinbera sjóði nema það þýði í raun já. Til marks um það hve skeitingarleysið um hag skattgreiðenda er orðið algjört efndi fréttastofa Ríkissjónvarpsins í gær til einstæðrar sýningar á tilraun til þess að slá heimsmetið í heimtufrekju. Sagt var skilmerkilega frá því að „skoðunarmaður reikninga“ sveitarfélagsins Árborgar mótmælti því nú með ýmsum ráðum að sveitarfélagið hefði hafnað styrkumsókn frá „Latabæ“ vegna „orkuátaks“. Ekki virtist þó um að ræða tilraun við met í fjárhæðum heldur var frekar verið að sýna sveitarstjórnarmönnum að engin umsókn um fé skattgreiðenda væri svo snautleg að ekki væri einhvers staðar einhver tilbúinn til að fara í sjónvarpið og segja sveitarstjórnina hafa brugðist æskunni og stefnt framtíð landsins í voða með því að láta ekki fé af hendi rakna. Mætti skoðunarmaðurinn í viðtal um þetta mál eins og ekkert væri sjálfsagðara. Stóð hann þarna frammi fyrir alþjóð og léti móðann mása um hvílík hörmung það væri að skattarnir væru ekki hækkaðir á íbúa Árborgar til að „Latibær“ gæti haldið orkuátakið sitt. Eins og allir sem hafa vondan málstað að verja lét skoðunarmaðurinn þess getið að mikill almennur vilji væri meðal íbúa Árborgar til að styðja „orkuátakið“ og hefði hann jafnvel hitt mann út á götu sem væri því fylgjandi. Fréttamanninum þótti auðvitað engin ástæða til að spyrja skoðunarmanninn hvert vandamálið væri eiginlega ef svo mikill vilji væri í bænum til að styðja „orkuátakið“. Er sveitarstjórnin þá ekki óþarfur milliliður? Þótt margt sé bannað þá hefur það ekki enn verið leitt í lög að íbúum Árborgar sé bannað að styrkja Latabæ.
Sem kunnugt er hefur það gjarnan verið notað sem röksemd fyrir auknum útgjöldum hins opinbera til ákveðins máls að naumt sé skammtað til hans fyrir. Í fréttinni af skoðunarmanninum og Latabæ kom fram að flest önnur stærri sveitarfélaga hefðu styrkt átakið. Þar með var gefið í skyn að það væri sérstakur álitshnekkir fyrir Árborg að skorast undan. Það þykir með öðrum orðum sérstakur rökstuðningur við aukin opinber útgjöld að þau séu mikil fyrir!
Íviðtali við Hallgrím Thorsteinsson á Útvarpi Sögu í gær hélt Grétar Þorsteinsson forseti ASÍ því fram að með fjárlagafrumvarpinu væri verið að „lækka hátekjuskatt“. Hið rétta er að hátekjuskatturinn svonefndi, sérstakur tekjuskattur, átti að óbreyttu að falla niður um næstu áramót. Það var því tekin sérstök ákvörðun um að leggja hann á að nýju þótt hann verði lægri en síðast þegar blásið var í hann lífi. Hvorugur stjórnarflokkanna minntist á það fyrir kosningar að skatturinn myndi rísa upp frá dauðum á kjörtímabilinu. Flokkarnir lofuðu hins vegar að lækka tekjuskattinn á alla. Í stað þess hafa þeir ákveðið að hækka hann á suma með því leggja sérstaka tekjuskattinn á að nýju.