Laugardagur 11. október 2003

284. tbl. 7. árg.

Grein hagfræðingsins Arthurs Laffers, sem birt var í The Wall Street Journal um daginn, væri þörf lesning fyrir þá sem fara með opinber fjármál hér á landi, sérstaklega skattamál. Laffer bendir á að nýafstaðin kosning í Kaliforníu hafi eingöngu snúist um fjármálavanda ríkisins, sem stafi af því að skattkerfi þess byggist á stighækkandi sköttum. Það að skattar séu stighækkandi þýðir að þeir tekjuhærri greiða hlutfallslega hærra hlutfall tekna sinna í skatta en hinir tekjulægri. Hér er orðið hlutfallslega þýðingarmikið, því flest skattkerfi eru þannig að þeir tekjuhærri greiða hærri skatta af tekjum sínum en þeir tekjulægri, þar sem skattar eru almennt reiknaðir sem hlutfall af tekjum. En vandinn að mati Laffers skapast sem sagt þegar hinum tekjuhærri er refsað með því að láta þá greiða hærra hlutfall tekna sinna en þá tekjulægri. „Það er ekki virðingarvert markmið að refsa þeim sem eru vel stæðir, og það að refsa þeim sem eru vel stæðir hjálpar ekki þeim fátæku, sem er virðingarvert markmið,“ segir Laffer í greininni. Sú staðreynd að hinn svokallaði hátekjuskattur hér á landi verður framlengdur, ef marka má fjárlagafrumvarp næsta árs, kemur óneitanlega upp í hugann við lestur þessara orða.

Laffer segir að vegna þess hve stighækkandi skattkerfið er í Kaliforníu fyllist sjóður ríkisins þegar vel árar, en þegar illa árar, eins og að undanförnu, hrynji skatttekjurnar. Þar að auki hafi atvinnuleysi í ríkinu hækkað mikið. Laffer segir einnig að stighækkandi skattkerfi leiði til þess að hlutur hins opinbera af framleiðslunni verði meiri en kjósendur vilji. Ástæðan sé sú að skattalækkun þegar vel árar sé ekki eins vinsæl meðal stjórnmálamanna og skattahækkun þegar illa árar. Sveiflukenndar tekjur – sem séu afleiðing stighækkandi skatta – leiði óhjákvæmilega til meiri umsvifa ríkisins þar sem skatthlutföll hækki í hallæri og útgjöld hækki í góðæri. Þetta kemur íslenskum kjósendum líklega kunnuglega fyrir sjónir. Bæði þeim sem fylgst hafa með aukningu opinberra útgjalda og þeim sem fylgst hafa með tillögum og umræðum á sviði skatta að undanförnu. Hér á landi eru stjórnmálamenn ekki aðeins tregir til að lækka skatta í komandi góðæri, þrátt fyrir fögur fyrirheit fyrir kosningar, góðærið er nú jafnvel álitið of gott til að lækka skatta.