Helgarsprokið 12. október 2003

285. tbl. 7. árg.

E

nn eitt árið stendur til að leggja af þungaskatt díselbíla og taka upp olíugjald í staðinn. Þungaskatturinn hefur fram til þessa verið svo hár að bílar með bensínvélum hafa verið ódýrari í rekstri en díselbílar fyrir akstur undir 25 – 30 þúsund kílómetrum á ári. Það hefur því verið hagstæðara fyrir flesta að aka um á bensínbíl þótt einkennilegt sé að nota hugtakið hagstætt um rekstur á bílum eins og skattlagningu á þá er háttað. Með öðrum orðum hefur ekki verið alveg jafndýrt fyrir hinn almenna mann að aka um á bensínbíl og díselbíl.

Þótt til standi að leggja þungaskattinn af gat fjármálaráðherra ekki stillt sig um að leggja í þingbyrjun fram frumvarp um að þungaskatturinn hækki um áramótin. Er það liður í að féfletta bifreiðaeigendur um yfir 1.000 milljónir króna til viðbótar.

Nú munu vafalaust margir halda að þegar þungskatturinn hefur verið aflagður og farið verður að innheimta skatta af díselolíu á sama hátt og af bensíni muni skattkerfið ekki lengur gera upp á milli þessara kosta. Svo mun þó að öllum líkindum ekki verða því díselbílar gefa frá sér minni koltvísýring en bensínbílar. Útblástur bíla á koltvísýringi er ekki hættulegur vegfarendum en hann veldur hins vegar mörgum áhyggjum vegna svonefndra gróðurhúsaáhrifa. Ýmsum stjórnmálamönnum, ekki síst í Evrópusambandinu, þykir því nauðsynlegt að ýta undir notkun díselolíu á kostnað bensíns.

„Kapphlaup bílaframleiðenda um hagkvæmar og umhverfisvænar bílvélar mun því halda áfram og mikið vafamál að fjármálaráðuneytið hér upp á Íslandi eigi að blanda sér í þann slag með því mismuna eldsneytistegundum.“

Hins vegar er í útblæstri díselbíla mun meira af sótögnum en frá bensínbíl. Ekki þykir gott að anda þessum ögnum að sér og eru þær helsta áhyggjuefni manna varðandi mengun frá umferð í borgum. Í Reykjavík eina hugsanlega áhyggjuefnið einmitt rykmengun. Fleiri díselbílar á kostnað bensínbíla munu ekki bæta þar úr.

Á miðvikudaginn birti bílablað Morgunblaðsins viðtal við Emil Grímsson forstjóra P. Samúelssonar, umboðsaðila Toyota og Lexus. Fram kemur í viðtalinu að Emil fagnar upptöku olíugjalds í stað þungaskatts en telji rangt að hallað verði á bensín með skattheimtu. „Í umræðunni má ekki gleymast að báðir þessir orkugjafar hafa sína kosti og sína galla. Það má t.d. benda á að fræðilega getur bensínvél orðið „hreinni“ en dísilvélin vegna samsetningar þessara tveggja orkugjafa. Í þeirri tækniþróun sem framundan er finnst okkur t.d. ekki rétt að gera olíu hærra undir höfði eins og gert er í nokkrum löndum Evrópu,“ hefur Morgunblaðið eftir Emil.

„Ástæðan fyrir dísilvæðingunni í Evrópu er meðal annars sú að flestar Evrópuþjóðirnar eru aðilar að Kyoto-sáttmálanum um takmörkun á losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Í dag sé magn koltvísýrings í útblæstri dísilbíla talsvert minna en frá bensínvélum en á móti komi að dísilvélin gefi frá sé mun meira af köfnunarefni og sótögnum sem taldar eru hættulegar mönnum. Evrópskir bílaframleiðendur hafa einnig lagt mikla áherslu á notkun dísilbíla en þannig geta þeir varist betur samkeppni sem kemur frá löndum utan Evrópu þar sem eftirspurn og tækniþróun tekur mið af öðrum sjónarmiðum,“ bætir Emil við.

Emil rekur að því búnu þá þróun sem nú á sér stað í bæði bensín og díselvélum og af þeirri lýsingu að dæma er ekki gott að segja hvaða tækni nær lengst á næstu árum. Svonefndir tvinnbílar eru líklegir til að sækja á en þeir safna orku sem verður til á ferð bílsins á rafgeyma. Orkan er svo nýtt aftur þegar best hentar á ferð bílsins. Kapphlaup bílaframleiðenda um hagkvæmar og umhverfisvænar bílvélar mun því halda áfram og mikið vafamál að fjármálaráðuneytið hér upp á Íslandi eigi að blanda sér í þann slag með því mismuna eldsneytistegundum.

Í lok viðtalsins segist Emil fagna því ef staðan milli bensíns og díselolíu verði jöfnuð en „við myndum síður vilja fara út í aðrar öfgar. Ég hef heyrt talað um að verð á dísilolíulítranum verði samkvæmt væntanlegu frum[varpi] 10% lægra en á bensínlítranum. Mér skilst jafnframt að innkaupsverð á dísilolíu sé mjög svipað og á bensíni. Þá spyr maður sig hvers vegna eigi að skattleggja olíu lægra. Hverfum frá þeirri neyslustýringu sem er í dag og látum markaðinn og tækniþróunina stýra okkur í það sem best er hverju sinni.“