Helgarsprokið 28. september 2003

271. tbl. 7. árg.

Árið 1990 gaf Almenna bókafélagið út bókina Blóðugan blekkingarleik eftir Ion Mihai Pacepa, sem fáeinum árum áður hafði flúið til Vesturlanda eftir að hafa gegnt starfi yfirmanns rúmensku leyniþjónustunnar í tíð Ceausescus. Í bókinni lýsir Pacepa, sem er hæst setti leyniþjónustumaður sem flúði vestur yfir Járntjaldið, grimmd einræðisherrans í Rúmeníu og þeirri ógnarstjórn sem þar ríkti í tíð kommúnismans. Fyrir tæpri viku ritaði Pacepa grein í The Wall Street Journal og heitir hún The KGB’s Man. Þó farið sé að fenna yfir sporin muna líklega flestir eftir KGB, leyniþjónustu Sovétríkjanna sálugu, sem þekkt var fyrir flest annað en baráttu fyrir friði eða stuðning við lýðræðisríki heimsins. Þess vegna kemur ýmsum líklega á óvart að sá sem Pacepa fjallar um í greininni er enginn annar en handhafi friðarverðlauna Nóbels, sjálfur Arafat, sem stundum er fjallað um í vestrænum fjölmiðlum eins og um ofsótta friðardúfu væri að ræða.

„Áður en ég flúði til Bandaríkjanna frá Rúmeníu, og yfirgaf stöðu mína sem yfirmaður rúmensku leyniþjónustunnar, bar ég ábyrgð á því að láta Arafat fá um 200.000 dali í þvegnum peningaseðlum í hverjum mánuði út áttunda áratuginn.

 Hryðjuverk hafa verið gríðarlega ábatasöm fyrir Arafat.
 …“

Pacepa segir í upphafi greinar sinnar að málið sé mun alvarlegra en svo að Arafat standi einungis í vegi fyrir friði, eins og Ísraelsstjórn hafi sagt þegar hún lýsti því yfir að hún vildi koma honum úr landi. Hann segir að Arafat sé atvinnumaður í hryðjuverkum, sem Sovétríkin og fylgihnettir þess hafi þjálfað, vopnað og styrkt áratugum saman. Og Pacepa virðist hafa fyrir þessu betri heimildir en oftast er um slík mál: „Áður en ég flúði til Bandaríkjanna frá Rúmeníu, og yfirgaf stöðu mína sem yfirmaður rúmensku leyniþjónustunnar, bar ég ábyrgð á því að láta Arafat fá um 200.000 dali í þvegnum peningaseðlum í hverjum mánuði út áttunda áratuginn. Ég sendi líka tvær flutningavélar á viku til Beirút, fullar af búningum og birgðum. Önnur ríki Sovétblokkarinnar gerðu svipaða hluti. Hryðjuverk hafa verið gríðarlega ábatasöm fyrir Arafat. Samkvæmt Forbes tímaritinu er hann nú sjötti ríkasti maður heims í flokknum „kóngar, drottningar og harðstjórar“, með meira en 300 milljónir dala geymdar á bankareikningum í Sviss.“

Að sögn Pacepa hitti hann Arafat fyrst snemma á áttunda áratugnum og þá segir hann að Arafat hafi gortað sig af því að hafa fundið upp flugránin. Pacepa segir að vafasamur heiður þessarar uppfinningar sé reyndar KGB, en Arafat hafi fundið upp sjálfsmorðsárásirnar, sem hafi blómstrað með hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin 11. september fyrir tveimur árum. Pacepa segir að hann og aðrir leyniþjónustumenn Sovétblokkarinnar hafi fengið það verkefni að koma Arafat á framfæri við Bandaríkin og styrkja stöðu hans og PLO. Rúmenía hafi þegar sýnt mikinn árangur í því að sannfæra Bandaríkjamenn um að Ceausescu væri „óháður“ og „hófsamur“ kommúnisti á borð við Júgóslavann Tító.

Pacepa segist hafa fengið í hendur skjöl KGB um Arafat og þar hafi komið fram að Arafat sé í raun Egypti, en gögnum um það hafi verið eytt og þess í stað hafi ný verið búin til sem gefi til kynna að hann sé fæddur í Jerúsalem og sé því Palestínumaður. Arafat hafi snúist til Marxisma og hlotið þjálfun í skóla KGB fyrir austan Moskvu. Um miðjan sjöunda áratuginn hafi verið ákveðið að gera hann að framtíðarleiðtoga PLO. KGB hafi síðan meðal annars stutt við tímaritsútgáfu Arafats, sem ætluð var Palestínumönnum, en þessi leyniþjónusta hafi víða komið að slíkri útgáfu í gegnum stofnanir sem hún hafði á sínum snærum, svo sem Heimsfriðarráðið og Heimssamband verkalýðsfélaga.

Pacepa segir að KGB hafi að þessu loknu búið til ímynd fyrir Arafat, rétt eins og gert hafi verið fyrir aðra dygga kommúnista í alþjóðastofnunum. Háfleyg hugsjónabarátta hafi ekki átt upp á pallborðið í Arabaheiminum, þannig að KGB hafi endurhannað Arafat sem harðan and-síonista. Yfirvöld í Moskvu hafi síðan komið Arafat í leiðtogastól PLO og fengið hann til að lýsa yfir stríði á hendur heimsvaldastefnu og síonisma, sem hvort tveggja hafi verið álitið mikilvægt til að byggja upp andúð á Bandaríkjunum. Árið 1978 fór Pacepa með Arafat í leynilega ferð til Rúmeníu til að veita honum leiðsögn í blekkingum og réttri framkomu gagnvart Bandaríkjunum. „Þú verður einfaldlega að halda áfram að láta eins og þú viljir hætta hryðjuverkum og að þú ætlir að viðurkenna Ísraelsríki – aftur, og aftur, og aftur,“ segir Pacepa að hafi verið ráðlegging Ceausescus til Arafats.

Pacepa flúði til Bandaríkjanna seinna þetta sama ár, en segir að Arafat hafi alla tíð upp frá þessu haldið áfram að leika það hlutverk sem honum var kennt og fylgt þeim áætlunum sem lagt var upp með. Þess vegna hafi hann hlotið friðarverðlaun Nóbels árið 1994. Hann hafi alltaf látið eins og hann vildi láta stöðva hryðjuverk Palestínumanna, en hafi engu að síður látið þau halda áfram óáreitt. Sem dæmi nefnir hann að tveimur árum eftir að Oslóarsamkomulagið milli Ísraela og Palestínumanna hafi verið undirritað, hafi Ísraelsmönnum sem féllu fyrir hendi Palestínumanna fjölgað um 73%.